Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Þjóðin á þing
Sunnudagur 9. október 2016 kl. 06:00

Þjóðin á þing

- Aðsend grein eftir Þórólf Júlían Dagsson

Nýlega hlotnaðist mér sá heiður að taka þriðja sæti á lista Pírata í Suðurkjördæmi. Í aðdraganda kosninga fær frambjóðandi eins og ég ótal spurningar á hverjum degi, sem er alveg frábært. Ég reyni að svara öllum persónulega en stundum læðist ein og ein spurning framhjá. Oftast er maður spurður um almenn stefnumál en líka hvað við ætlum að gera fyrir fólk sem lifir undir framfærsluviðmiðum, fólk sem er í húsnæðisvandræðum, fólk sem á ekki fyrir lyfjakostnaði og margt fleira. Svörin við þessum spuringum er að finna í grunnstefnu Pírata.

Við viljum virkja beint lýðræði, opnari stjórnsýslu og þannig opna innviði Alþingis fyrir almenningi. Það eykur aðhald í þeirri vinnu sem þar fer fram í nefndum og ráðum. Píratar vilja líka að það sé hægt að setja mikilvæg mál í þjóðaratkvæðagreiðslu til að þjóðin komi að ákvarðanatöku í fleiri málum. Þess vegna viljum við nýja stjórnarskrá þar sem tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar og að auðlindir íslendinga verði í eigu okkar allra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við viljum að fólk geti lifað mannsæmandi lífi af launum sínum og þar horfum við til langtíma lausnar í formi borgaralauna. Þá hverfur hugtakið „bótakerfi“ og í staðinn kemur hugtakið „launakerfi“. En þangað til þarf að laga það kerfi sem er í dag með því að rétta hlut aldraðra, öryrkja og atvinnuleitenda.
Það besta við okkur Pírata er að við erum venjulegt fólk sem hefur reynt á eigin skinni hvernig það er að lifa undir fátækramörkum, að missa heimilið sitt á uppboði, að eiga ekki fyrir lyfjum og lækniskostnaði. Við erum þverskurður af þjóðinni, frambjóðendur koma úr öllum stéttum þjóðfélagsins. Það er þess vegna sem við viljum breytingar. Svo við öll getum lifað með reisn á þessu landi.

Þórólfur Júlían Dagsson