Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 9. október 2002 kl. 14:24

Þingmenn Suðurnesja og umræða um heilbrigðismál

Þriðjudaginn 8.október fór fram á Alþingi utandagskrárumræða um stöðu heilbrigðismála þar sem málshefjandi var Margrét Frímannsdóttir þingmaður samfylkingar í Suðurlandskjördæmi. Margt bar á góma í þessari umræðu enda um stóran málaflokk að ræða. Meðal annars var rætt um málefni
heilsugæslunnar. Það var athyglisvert að hlýða á ræður alþingismanna sem eru búsettir eða upprunnir á Suðurnesjum við utandagskrárumræðuna í ljósi þeirrar alvarlega stöðu sem blasir við í heilsugæslunni á Suðurnesjum.Hjálmar Árnason flutti mjög háfleyga ræðu um að vandinn væri að við hefðum "sjúklingakerfi" en ekki heilbrigðiskerfi. Ekki væri tekið á málum fyrr en fólk væri orðið að sjúklingum í stað þess að efla heilbrigði og fyrirbyggja sjúkdóma. Þetta eru góðar ábendingar og það er vel þekkt að heilbrigðisvandamál okkar tíma tengjast að verulegu leyti ofáti, hreyfingarleysi, reykingum og áfengisneyslu. Heilbrigðisvandamál fyrri tíma tengdust vosbúð, kulda , hungri og smitsjúkdómum og þá var meðalævilengd fólks mun styttri en í dag . Sagan sýnir hins vegar að það koma alltaf ný
heilbrigðisvandamál í stað þeirra sem er búið að fyrirbyggja og að þörfin fyrir umönnun við ævilok fer vaxandi ef eitthvað er með hækkandi meðalaldri og hlutfallslegri fjölgun aldraðra. Forvarnir gegn sjúkdómum, þótt þær séu þarfar og nauðsynlegar , breyta því þannig ekki að verkefnin í "sjúklingakerfinu " eins og Hjálmar kallar það verða ærin um fyrirsjáanlega framtíð.
Hjálmar minntist ekki einu orði í ræðu sinni á núverandi stöðu heilsugæslunnar hvort sem það er af því að hann er á of háu plani til að taka þátt í dægurþrasinu eða af tillitssemi við heilbrigðisráðherrann.
Sigríður Jóhannesdóttir taldi aðgengi að sérfræðingum of mikið og að kostnaður ríkisisjóðs vegna þjónustu þeirra væri of hár . Hún lýsti sig fylgjandi tilvísanakerfi en mistekist hefði að koma því á 1995 vegna harðra viðbragða sérfræðilækna. Síðan sagði hún að heilsugæslulæknar sem "setið hafa í náðum" síðan þeir voru settir á föst laun 1998 væru nú "risnir upp á afturlappirnar" og heimtuðu sama aðgang að "opnum krana" úr ríkissjóði og aðrir sérmenntaðir læknar hefðu. Hún klykkti svo út með því að óska heilbrigðisráðherra góðs gengis í komandi kjaraviðræðum. Alltaf er nú gott að fólk sé hreinskilið og að maður viti hvar maður hefur það. Samkvæmt mínum
skilningi á íslensku máli er það að "sitja í náðum" það sama og að liggja í leti þannig að það fer ekkert á milli mála hvaða álit þingmaðurinn hefur á okkur heilsugæslulæknum og okkar störfum.Þetta eru auðvitað ekkert annað en sleggjudómar. Ég hef starfað sem heilsugæslulæknir á Suðurnesjum í samtals 10 ár og tel mig ekki hafa "setið í náðum " eða verið að slæpast mikið í
vinnunni á þeim tíma.
Árni Ragnar Árnason ræddi á almennum og skynsamlegum nótum um þau vandamál sem eru í heilbrigðiskerfinu almennt svo sem biðlistar í aðgerðir og rannsóknir. Ef ég skildi hann rétt lýsti hann sig hlynntan því að sérfræðingar í heimilislækningum fengju sömu réttindi og starfskjör og aðrir
sérfræðingar í læknisfræði.
Kristján Pálsson tók ekki til máls í þessari umræðu. Í ummælum sem höfð voru eftir honum í DV fyrir 2 árum lét hann hins vegar í ljós áhyggjur yfir minnkandi afköstum heilsugæslulækna eftir að þeir voru settir á föst laun 1998 og að það væri m.a. vegna þess að þeir væru svo mikið í fríum. Það er vissulega rétt að heilsugæslulæknar eru meira í fríum en áður þar sem menn taka sér nú almennt samningsbundin sumarfrí eins og flestar vinnandi stéttir og getur það vart talist óeðlilegt ef menn eiga að endast í þessum störfum.
Mér fannst fróðlegt að hlýða á sjónarmið Suðurnesjaþingmannanna við þessa umræðu á Alþingi og ég tel að það sé einnig fróðlegt fyrir íbúa á Suðurnesjum að kynnast þeim.
Eins og kunnugt er hafa allir starfandi heilsugæslulæknar á Suðurnesjum sagt upp störfum og taka uppsagnirnar gildi 1.nóvember næstkomandi. Undirritaður er í þessum hópi. Við sögðum upp frá 1.maí með 3ja mánaða uppsagnarfresti en Heilbrigðisstofnun Suðurnesja framlengdi uppsagnarfrestinn um 3 mánuði og taka þær því gildi 1.nóv. Hér er formlega ekki um verkfallsaðgerð að ræða enda hafa læknar ekki verkfallsrétt . Ekki er heldur um að ræða að við segjum upp störfum að frumkvæði okkar samtaka ( Félags íslenskra heimilislækna ) heldur tökum við þessa ákvörðun sjálf. Við segjum upp störfum til að leggja áherslu á kröfur heimilislækna um sama rétt og aðrir sérfræðingar í læknisfræði til að fá að starfa sjálfstætt á eigin stofum og á sambærilegum gjaldskrársamningi við Tryggingastofnun ríkisins
eins og í gildi er fyrir til dæmis lyflækna, barnalækna eða kvensjúkdómalækna. Þetta teljum við forsendu þess að ungir læknar sem eru að velja sér sérgrein telji heimilislækningar vera fýsilegan starfsvettvang en læknum í sérnámi í heimilislækningum hefur farið fækkandi síðustu ár. Þá hafa margir tugir sérmenntaðra heimilislækna yfirgefið heilsugæsluna síðustu árin og valið sér annan starfsvettvang. Flestir starfandi heilsugæslulæknar á Suðurnesjum í dag hafa lagt fyrir sig 5 ára sérnám erlendis að loknu læknaprófi og kandidatsári og er um að ræða 12-13 ára háskólanám og starfsþjálfun að loknu stúdentsprófi áður en menn fá
sérfræðileyfi í heimilislækningum.
Aðdragandinn að uppsögnum okkar er langur og má rekja til uppsafnaðrar óánægju heimilislækna á landsvísu með starfsumhverfi og kjör.
Til að sanngirni sé gætt skal þess þó getið að kjör heimilislækna á Suðurnesjum eru í dagvinnu ívið betri en á Reykjavíkursvæði en nætur- og helgarvaktir eru illa launaðar í samanburði við aðra staði á landinu miðað við vinnuálag og svefntap sem þessum vöktum fylgir. Það sem fyllti mælinn var framkoma heilbrigðisráðherra í sambandi við svokallað vottorðamál á fyrri helmingi þessa árs. Ráðherra setti án samráðs við okkur eða okkar samtök reglugerð sem breytti því fyrirkomulagi á innheimtu fyrir læknisvottorð , sem verið hafði við lýði í áratugi. Þetta þýddi kjaraskerðingu fyrir heilsugæslulækna en meiri skaða hefur þó valdið framkoma heilbrigðisráðuneytis í sambandi við allt þetta mál en hún hefur einkennst af hroka og valdníðslu.
Ráðherra hefur hafnað kröfum okkar um gjaldskrársamning með þeim rökum að " með því væri boðið heim hættu á því að heilsugæslan brotnaði niður í núverandi mynd " eins og hann orðaði það á Alþingi þriðjud. 8.okt. Hann stingur þannig hausnum í sandinn og neitar að horfast í augu við að
kerfið er hrunið nú þegar . Þótt við fengjum kröfur okkar samþykktar myndi líklega meirihluti heimilislækna kjósa áfram að starfa áfram inni á heilsugæslustöðvunum í góðri samvinnu við hjúkrunarfræðinga og fleiri heilbrigðisstéttir eins og tíðkast í dag. Eins og staðan er núna er ekkert sem bendir til annars en að uppsagnir okkar muni ganga í gildi 1. nóv. að óbreyttri stefnu heilbrigðisráðherra og allir starfandi heilsugæslulæknar á Suðurnesjum muni þá hætta störfum. Ég árétta að hér er full alvara á ferðum og að við erum þegar farin að gera ráðstafanir með önnur störf eftir 1.nóvember.

Jón Benediktsson
yfirlæknir við
Heilsugæslustöðina í Grindavík
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024