Þess vegna setja Suðurnesjamenn x við S
Jöfnuður og réttlæti er grunntónninn í stefnu Samfylkingarinnar sem vinnur að út frá almannahagsmunum og langtímalausnum í stað sérhagsmuna og skyndilausna. Um leið og skuldasöfnun ríkissjóðs var stöðvuð eftir hrun, var forgangsraðað í samræmi við stefnu jafnaðarmanna í þágu velferðar og þeirra sem minna hafa handa á milli.
Aldrei hefur verið unnið jafn ötullega að atvinnumálum á Suðurnesjum eins og á þessu kjörtímabili. Ekki var vanþörf á, því hér varð vandinn enn meiri en á öðrum stöðum á landinu. Ástæðan er fyrst og fremst brotthvarf hersins á árinu 2006 og með honum fóru mörg hundruð störf. Við líðum fyrir það Suðurnesjamenn að ekki var unnið nægilega að atvinnuþróun til að undirbúa brottför herliðsins. Þáverandi stjórnvöld beittu ekki þeim tækjum sem möguleg voru til atvinnuuppbyggingar hér í svokölluðu góðæri þegar mögulegt var að beina fjármunum í það verk. Síðastliðna mánuði hefur atvinnulífið á svæðinu tekið við sér og atvinnulausum fækkar jafnt og þétt sem betur fer.
Það sem aðrir gátu ekki í góðæri gerði Samfylkingin í kreppu
Það er margt sem kemur upp þegar afrek jafnaðarmanna í ríkisstjórn síðustu fjörgur ár eru rifjuð upp frá sjónarhorni Suðurnesjamanna og þar á meðal þetta:
Sett var rammalöggjöf um nýfjárfestingar til að laða að atvinnutækifæri. Þrír samningar af því tagi hafa verið gerðir við fyrirtæki á Suðurnesjum. Gagnaver á Ásbrú, fiskverkun í Sandgerði og Kísilver í Helguvík. Katrín Júlíusdóttir staðfesti sérstakan fjárfestingarsamning við álver í Helguvík samþykktur var á Alþingi vorið 2000
Ríkisstjórnin samþykkti fyrir rúmu ári tillögu Oddnýjar G. Harðardóttur um að kanna þörf og kosnað fyrir frekari stækkun á Helguvíkurhöfn og í framhaldi var samþykkt að ganga til viðræðna við Reykjanesbæ um ívilnandi aðgerðir vegna hafnarinnar. Engin ríkisstjórn hefur ljáð máls á slíku fyrr.
Ríkisfyrirtækið Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, vinnur að atvinnuþróun og nú starfa 115 fyrirtæki á Ásbrú.
Atvinnuþróunarfélagið Heklan var stofnað í samstarfi ríkis og sveitarfélaga og frumkvöðlasetrið Eldey hefur dafnað sem aldrei fyrr.
Nýlegur stuðningur við Keili til næstu 6 ára mun styrkja rekstrargrundvöll hans og þar byggja undir fjölbreytni og styrk menntakerfis á Suðurnesjum.
Samstarfssamningur hefur verið gerður við Keili, Fisktækniskólann og Þekkingarsetur Suðurnesja. Miðstöðvar Símenntunar á Suðurnesjum hefur fengið árlegt framlag og Fjölbrautaskóli Suðurnesja hefur veitt nemendum skólavist sem þangað hafa leitað. Þingmenn Samfylkingarinnar lögðust þar fast á árarnar.
Framkvæmdum er að ljúka við fyrstu nýbyggingu fyrir sjúka aldraða á Suðurnesjum, 60 rúma hjúkrunarheimili.
Verkefni Samfylkingingarinnar á næsta kjörtímabili
Eftirfarandi verkefni eru meðal þess sem Samfylkingin mun ráðast í á næsta kjörtímabili:
Styrkja stoðir atvinnulífsins enn frekar og lækka tryggingargjald í takt við lækkandi atvinnuleysi.
Ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og setja samninginn í dóm íslensku þjóðarinnar.
Setja velferð barna ávallt fremst með hækkun barnabóta, styrkja fæðingarorlofssjóð með lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði. Sjá til þess að tannlækningar barna verði gjaldfrjálsar.
Forgangsraða menntun framar enda mun sú fjárfesting ekki brenna upp á verðbólgubáli.
Gera Heilbrigðisstofnun Suðurnesja kleift að tryggja góða grunnþjónustu og taka við sérhæfðum verkefnum.
Þróa áfram nýtt húsnæðis- og húsnæðisbótakerfi bæði fyrir eigendur og leigjendur.
Taka enn frekar á skuldavanda þeirra sem keyptu húsnæði á þensluárunum og fjölga valkostum húsnæðislána.
Byggja upp öldrunarstofnanir og eyða biðlistum.
Koma á einfaldara og betra almannatryggingakerfi sem styrkir stöðu eldri borgara verulega.
Samfylkingin er skýr kostur þeirra sem vilja áframhaldandi uppbyggingu í íslensks samfélags í anda jafnaðarmennsku, ábyrgðar í ríkisfjármálum og stöðuleika í efnahagslífinu. Það er þess vegna sem Suðurnesjamenn kjósa Samfylkinguna til áframhaldandi forystu.
Ólafur Þór Ólafsson
forseti bæjarstjórnar í Sandgerðisbæ
og skipar 5. sæti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi