Þekkingarleit barna í Innri Njarðvík og Kópan
Síðustu 2 ár hef ég verið vitni og þátttakandi í þekkingarleit úti í náttúrunni í Innri Njarðvík með börnum í leikskólanum Holti. Hafa börnin farið um umhverfið í kringum skólann og lært hvað þar er að finna og fengið að spá og spekulera á sínum forsendum undir leiðsögn frábærra kennara. Þau hafa séð rústir gamalla húsa, upplifað fjöruna, fuglana og þau smá dýr sem finnast í umhverfinu.
Upplifun barnanna af náttúrunni, fjörunni og sjónum hafa m.a. orðið til þess að sjómenn skyldir börnunum hafa komið með alskonar sjávardýr til skoðunnar og átu. Þetta hefur leitt af sér enn frekari áhuga um sjóinn, hvert hann nær og hvað þar er að finna. Í öllum þessum ferðum, sem slegist er um að fá að fara í, höfum við tekið eftir því að það var, já ég segi var, ofboðslegt rusl. Bæði í fjörunni og í umhverfi hennar. Þar var að finna mikið af plasti, engum til gagns þar sem það fauk um sem sjónmengun og til hættu fyrir þau dýr sem búa á svæðinu. Akurskóli fékk Kópuna til fósturs og hafa skólinn ásamt leikskólum svæðisins farið af stað í það mikla verkefni að gera hana fína eins og stássstofu.
Í fyrravor var Blái herinn fenginn til að koma að hreinsunarstarfinu og tókst það með ágætum. Síðastliðið haust tóku skólar enn og aftur höndum saman og hreinsuðu alla strandlínuna. Síðan hafa börnin á Holti verið á harða hlaupum á eftir plasttæjum og öðru drasli sem fýkur um, tínt saman og hent. Sumt hefur reyndar verið tekið heim sem fundinn fjársjóður. Í ljósi reynslunnar getur veðrið verið ansi hryssingslegt hérna og þá vantaði skjól. Oft var reynt að notast við þær fjölmörgu rústir sem finnast á svæðinu. En skjólið ekki endilega upp á marga fiska. Þar sem stundum er nauðsynlegt að geta gert athuganir á staðnum kom upp sú hugmynd að fá eitthvert skjól. Safnað var saman hugmyndum, hvernig og hvar? Börnin á Holti gerðu mörg líkön af svæðinu og geri ég ráð fyrir að það hafi verið gert í hinum skólunum líka. Hugmyndin hús átti upp á pallborðið hjá sumum og voru byggð líkön af húsum sem líktust stóru höllunum sem búið er að byggja á svæðinu. En það þótti full mikið og á endanum var komist að því að heppilegt væri að byggja jarðhýsi sem yrði til minnsta lýtis á svæðinu og í samræmi við þær rústir sem prýða umhverfið og minna á horfna tíð. Einhver fór í herferð gegn þessu frábæra tækifæri til umhverfismenntunar og kvað það í kútinn að hafa jarðhýsið í Kópunni. Ég hef heyrt því fleygt að fólk sé virkilega hrætt við ungmenni staðarins. Að þau komi til með að nota umhverfi jarðhýsisins til að halda partý og annan ósóma og vera með skemmdarverk og læti á svæðinu. Ég held að þar vaði einhver villu og reyk og að ungmenni Innri Njarðvíkur séu sómafólk sem fara vel með umhverfi sitt. Þar sem það er arfurinn sem þau taka við og færa áfram. Vona ég innilega að nágrannar Kópunnar taki ákvörðun um að leyfa byggingu þessa litla jarðhýsis, til hagsbóta fyrir kennslu og umhverfismennt barnanna.
Virðingarfyllst fyrrverandi starfsmaður Holts og núverandi íbúi Kópubrautar 14.
Jóhanna P. Björgvinsdóttir