„Þarf ég þá ekki að gera heimavinnuna?“
Ég og dóttir mín áttum undarlegar samræður um daginn er ég reyndi að útskýra að eftir nokkra daga gæti hún líklega ekki farið í skólann eins og venjulega. „En hvað er verkfall?”, segir sú stutta. Af hverju koma kennararnir ekki í skólann? „Ja, ... það er sko af því að...... það eru nefnilega ekki til nógir peningar til að borga þeim nógu vel fyrir vinnuna sína... eða...sko... hmm” og beindi umræðunni á önnur svið. En málið var geymt en ekki gleymt því stuttu síðar spyr sú litla: „en þarf ég þá ekki að gera heimavinnuna?”, og var harla kát yfir þessu óvænta „fríi”. Móðirin reyndi að koma stubbulínu í skilning um að hún þyrfti samt að læra, og hún ætti ekki að gleðjast þó kennarar færu hugsanlega í verkfall, og hún færi ekki í “frí” þó hún kæmist ekki í skólann. „En hvernig á ég þá að læra þegar það er enginn skóli”, „nú... við lesum heima og svona” sagði móðirin harla örvæntingarfull yfir þessu spurningaflóði því svo sannarlega átti hún ekki svörin við svo einföldum spurningum.
Börn svipt rétti til skólagöngu
Hvernig er hægt að útskýra fyrir barni að það sé svipt rétti til skólagöngu því að forystusveit kennara og Launanefnd sveitarfélaga geta ekki samið um kaup og kjör? Það er nógu erfitt fyrir fullorðna að skilja þetta ástand sem orðið er. Kjaraviðræðurnar eru svo flóknar í eyrum hinna almennu foreldra, að flestir hvorki vilja né geta sett sig inn í þessa umræðu um kennsluskyldu, yfirvinnutíma, undirbúningstíma, þróunarstarf, viðtalstíma..... o.s.frv. Né vilja flestir foreldrar taka afstöðu með öðrum aðilanum því vissulega hafa allir sem koma að samningunum eitthvað til síns máls. Enginn aðili er “vondi kallinn” hér eins og börn, og stundum fullorðnir, vilja gjarnan stilla því upp, en staðan er samt algjörlega óásættanleg. Í allri fjölmiðlaumfjölluninni hefur lítið farið fyrir þeim sem mesta hagsmuna eiga að gæta, þ.e. börnunum sjálfum og foreldrum þeirra. Hvers eiga börnin að gjalda? Er skólaganga 45.000 barna það lítils virði að við erum virkilega að tala um mögulegt tveggja mánaða verkfall? Í samtölum mínum við fólk erlendis frá, er mér tjáð að þeirra ríkisstjórn yrði að segja af sér ef skólar myndu lamast í nokkra daga. Erum við, með því að láta það viðgangast að skólastarf lamist vikum saman, að segja börnunum að nám skiptir máli, og bera eigi virðingu fyrir skólanum? Kennararaverkfall sendir þveröfug skilaboð. Hvað eigum við að segja börnum okkar þegar þau spyrja hvort þau þurfi nokkuð að læra?
Metnaður í menntun barna okkar
En dóttir mín er þó heppnari en ungmennin okkar í 4.,7. og 10.bekk, því þau eiga verulega á hættu að standa illa að vígi þegar að samræmdu prófunum kemur, og það getur haft áhrif á alla þeirra skólagöngu. Svo ég tali nú ekki um hvað verkfall sem þetta hefur áhrif á almenna líðan barnanna okkar. Börnin eiga ekkert nema það besta skilið. Við fullorðna fólkið berum skyldu til að sjá þeim fyrir þeirri þjónustu sem þeim er tryggð í lögum og tryggja að þetta óvissuástand skapist ekki aftur í menntamálum barnanna okkar í framtíðinni.
FFGÍR-Foreldrafélög og foreldraráð grunnskólanna í Reykjanesbæ, vilja því þrýsta á alla samningsaðila að semja sem fyrst og afstýra verkfalli. Foreldrar hafa þá einföldu ósk að börn þeirra hljóti það nám sem þau eiga rétt á. Eigi kost á góðu og friðsælu vinnuumhverfi, með stoltum og metnaðarfullum kennurum sem eru ánægðir í starfi, svo ekki komi til þessa ástands að ég og aðrir foreldrar þurfa að útskýra fyrir litlum kollum af hverju kennarar mæti ekki til vinnu. Það er ekki vænleg hvatning til barnanna okkar um að leggja metnað í skólagöngu sína.
Ingibjörg Ólafsdóttir verkefnastjóri FFGÍR-Foreldrafélög og foreldraráð grunnskólanna í Reykjanesbæ, og móðir barns í grunnskóla