Þar sem er vilji þar er vegur
Árið er 2009 og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) er í fullum gangi. Fæðingardeildin er með þeim bestu á landinu og flestar mæður sammála um að hvergi sé betra að eiga barn en suður með sjó. Aldrei hafa fæðingarnar verið jafnmargar á HSS eins og þetta árið en þau urðu 273 börnin, fæddir Keflvíkingar myndu einhverjir segja eða að minnsta kosti Reyknesingar. Aðgerðir eru framkvæmdar með litlum biðtíma og þjónustan öll svo góð. Þarna eru læknar, ljósmæður, hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar sem maður hefur oft hitt áður og ættingjar geta kíkt við á spítalanum á leið sinni í búðina og séð hvernig heilsast.
Fæðingum hefur fækkað um 70% meðan íbúum hefur fjölgað um 27%
Nú er öldin önnur, fyrir hartnær tíu árum eða í maí 2010 var skurðstofunni við HSS lokað og hefur hún verið lokuð allar götur síðan. Á þeim tíma sem liðinn er hefur Suðurnesjamönnum fjölgað um 27% en fæðingum hefur fækkað um 70%. Nú þurfa allir Suðurnesjamenn að fara á Landspítalann (LSH) í þær aðgerðir sem þeir þurfa á að halda og biðtími eftir þeim hefur lengst mikið. Margar verðandi mæður velja að eiga börn sín annars staðar því ekki er fæðingarlæknir á vakt á HSS né er skurðstofan opin ef eitthvað kemur upp á. Stefnan í heilbrigðismálunum virðist vera skýr, það á að loka öllum skurðstofum um landið vítt og breitt og stefna öllum sjúklingum á LSH því þannig, og einungis þannig náist fram stærðarhagkvæmni. Á spítalann þar sem sjúkir bíða sárþjáðir svo klukkutímunum skiptir eftir þjónustu og sjúklingar liggja frammi á göngunum eða jafnvel inni á salernum því plássið er ekkert.
Endurröðum í Excel-skjali ráðherrans
Þegar skoðaðar eru ársskýrslur HSS og þær tölur bornar saman við ársskýrslur heilbrigðistofnana í kringum okkur sést það best hversu rangt er gefið hvað varðar framlag frá ríkinu. Í mörg ár höfum við á Suðurnesjum mátt þola meiri niðurskurð og minna framlag en aðrar stofnanir. Sé rýnt í tölurnar og þær bornar saman má sjá að HSS fær á bilinu 60–113% minna framlag á hvern íbúa heldur en aðrar sambærilegar stofnanir. Ef rétt er gefið og endurraðað væri í Excel-skjali heilbrigðisráðherrans þá má vel komast að þeirri niðurstöðu að hagkvæmast sé að færa þjónustuna nær heimahögunum. Þetta snýst allt um það hvaða niðurstöðu þú vilt komast að. Þar sem er vilji þar er vegur.
Samstaðan er alltaf árangursríkust
Við Suðurnesjamenn höfum aldeilis sýnt styrk okkar í verki þegar við meðal annars sameinuðumst um framkvæmd á Grindavíkurvegi nýverið og náðist það í gegn með samstilltu átaki. Ég skora hér með á bæjarstjórnir sveitarfélaganna á Suðurnesjum ásamt þingmönnum okkar í Suðurkjördæmi að knýja á um breytingar Suðurnesjamönnum til heilla. Hér verði skurðstofan opnuð aftur á HSS og þjónustan verði færð nær fólkinu okkar.
Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir,
bæjarfulltrúi Miðflokksins í Grindavík.