Þakplötur fjúka ekki á jarðstrengi
– Ellert Grétarsson skrifar
Þakplata fauk á háspennulínu með þeim afleiðingum að rafmagnlaust varð á Suðurnesjum. Forstjóri Landsnets notaði tækifærið til að hella yfir okkur ómerkilegum áróðri um nauðsyn nýrrar háspennulínu, Suðurnesjalínu 2.
Forstjóri Landsnets virðist ekki skilja að fjúkandi þakplötur gera ekki greinarmun á Suðurnesjalínu eitt eða Suðurnesjalínu tvö. Þær bara fjúka á það sem fyrir þeim verður. Þær fjúka hins vegar ekki á jarðstrengi, eðli málsins samkvæmt. Þetta getur ekki verið erfitt að skilja svona einfalda hluti en samt þvælist þetta fyrir forstjóra Landsnets.
Tekið skal fram að enginn hefur lýst sig mótfallinn Suðurnesjalínu 2 – enginn mér vitanlega. Ágreiningurinn stendur um það hvort hún eigi að vera loftlína eða jarðstrengur. Í þeim efnum hafa forsvarsmenn Landsnets ekki viljað hlusta á nein önnur sjónarmið eða rök og vaðið yfir allt og alla með ofstopa og frekju, sér í lagi landeigendur á Vatnsleysuströnd. Hefur fyrirtækið notið til þess liðsinnis iðnaðarráðherra sem veitti heimild fyrir eignarnámi. Fólk var ekki alveg tilbúið að láta vaða svona yfir sig og fyrir vikið hefur málið ratað fyrir dómstóla. Það er sumsé öllum öðrum að kenna en Landsneti að framkvæmdir við línuna hafa tafist, samkvæmt því sem heyra má á forsvarsmönnum fyrirtækisins.
Ofstopi og blekkingar
Vinnubröð Landsnets í málinu eru með ólíkindum og einkennast ekki eingöngu af áðurnefndum ofstopa heldur hafa forsvarsmenn fyrirtækisins einnig orðið uppvísir að blekkingum, t.d. hvað varðar kostnaðarmun loftlínu og jarðstrengja þrátt að fyrir að kostnaðartölur t.d. í Danmörku, Frakklandi og Noregi sýni allt annað. Fyrirtækið hefur einnig haldið uppi hræðsluáróðri um að raforkuverð til almennings muni hækka gífurlega verði ráðist í lagningu jarðstrengja.
Sem dæmi um ófyrirleitnina beitti Landsnet nýja bæjarstjórn í Vogum blekkingum í júní 2013 og náði þannig að knýja fram samkomulag um lagningu Suðurnesjalínu 2 sem 220 kV háspennulínu yfir sveitarfélagið. Í aðdraganda málsins höfðu forsvarsmenn Landsnets haldið fundi með þeim bæjarstjórnarfulltrúum sem þeir höfðu von um að ná á sitt band en útilokað aðra. Þeir náðu þannig að rjúfa samstöðuna. Eins og áður var haldið uppi lygaáróðri um gífurlegan kostnaðarmun jarðstrengja og loftlína og til grundvallar var bæjarstjórnarfulltrúum afhent bresk skýrsla frá Parson Brinckerhoff sem ber heitið „Electricity Transmission Costing Study“ , frá janúar 2012. Í formála hennar kemur fram að hún fjalli einungis um 400kV strengi í Englandi og Wales. Það gefur auga leið að 400 kV jarðstrengir eru dýrari og flóknari en 220kV strengir!
Samkvæmt mínum heimildum mun forstjóri Landsnets hafa viðurkennt á fundi Atvinnuveganefndar Alþingis nýverið að þeir hefðu logið að Vogamönnum um kostnaðarmun jarðstrengja og loftlína. Landsnet sagði hann fimm til níu faldan en slíkt er algjör þvættingur. Nú er spurning hvort og hvernig Landsnet ætlar að leiðrétta þetta gagnvart Vogamönnum.
Góð reynsla af jarðstrengjum í Frakklandi
Frakkar reka lengsta flutningskerfi í Evrópu, alls 100.000 km og eru þeir mjög framarlega í lagningu öflugra jarðstrengja. Franska meginflutningskerfið er byggt upp á 400 og 225kV spennu. Enn er tækni ekki komin svo langt að fýsilegt sé að leggja 400kV raflínur í jörð í stórum stíl. Hinsvegar hafa Frakkar lagt 225kV raflínur í jörð undanfarna áratugi og eru hátt í 1.100 km af línum á þeirri spennu í jörð nú þegar. Frá árinu 2009 hafa nýlagnir í lofti á þessu spennustigi heyrt til algerra undantekninga. Kostnaður við jarðstrengina er sambærilegur við loftlínur sé litið til líftímakostnaðar. Notuð er nýjasta kynslóð jarðstrengja og stöðugar framfarir eru í verkþekkingu við lagningu þeirra.
Nú ber svo við að nýútkomin skýrsla Landsnets sýnir að stofnkostnaður á jarðstreng miðað við 400MW flutningsgetu, líkt og nú er áætlað á Suðurnesjalínu 2, er 133 mkr/km eða einungis 2x stofnkostnaður við áætlaða loftlínu sem er 65 mkr/km. Reiknaður líftímakostnaður væri líklega mjög svipaður. Hvað er þá því til fyrirstöðu að leggja línuna í jörð?
Hvað með ímyndina?
Ferðaþjónusta er okkar stærsta atvinnugrein í dag og hefur svo sannarlega rennt styrkum stoðum undir atvinnulífið á Suðurnesjum. Yfir 80% erlendra ferðamanna koma til landsins til að upplifa ósnortna náttúru. Það verður því ekki gott fyrir ímyndina þegar það fyrsta sem blasir við ferðamönnum við innganginn í landið verður ógnarlöng, tröllvaxinn háspennulína á 30 metra háum stálgrindarmöstrum í tvöfaldri staurastæðu. Glæsileg sjón, eða hvað? Ég verð að segja eins og er að mér finnst undarleg þögnin hjá forystufólki ferðaþjónustunnar á Suðurnesjum vegna þessa. Hún er eiginlega æpandi.
Í mars 2013 hélt Landsnet opinn kynningarfund sem bar yfirskriftina „Samfélagslegt hlutverk og rekstrarumhverfi“ . Í fyrirspurnartíma var forstjóri Landsnets spurður hver ábyrgð fyrirtækisins væri varðandi ferðaþjónustu, útivist og aðra sem byggja afkomu sína á ósnortnu landi. Svar forstjórans var einfalt og skýrt - fyrirækið þyrfti ekki að taka tillit til þeirra.
Ellert Grétarsson,
varaformaður NSVE.