Það þarf þorp til að ala upp barn – ert þú að gera þitt?
Öll vorum við eitt sinn börn, höfum átt það sameiginlegt að hafa þurft að treysta á aðra til að veita okkur vernd, umhyggju og öryggi. Í fyrstu eru að foreldra okkar, forráðamenn, nákomna ættingja og vini. Flest okkar höfum síðar einnig treyst dagmæðrum, leikskólum og öðrum menntastofnunum fyrir frekari velferð okkar, þar sem við höfum átt að hafa tækifæri til að vaxa og dafna bæði andlega og líkamlega. Ótal stofnanir, bæði lögbundnar og ólögbundnar eru einnig líklegar til að hafa sett mark sitt á þroska okkar og þannig mótað okkur á einn eða annan hátt, til að mynda íþrótta- og tómstundafélög, heilsugæsla, hin ýmsu félagasamtök, félagsþjónusta, barnavernd, lögregla og ótal fleiri. Margir hafa góðar sögur að segja af bernskuvegferð sinni en einhverjir horfa um öxl ósáttir og telja að betur hefði mátt standa að uppvexti þeirra og mótun í samfélaginu.
Þrátt fyrir mismunandi bakgrunn okkar og reynslu hljótum við að sammælast um mikilvægi þess að hvert barn njóti réttinda og fái tækifæri til að njóta sín í uppvextinum. Í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna má nálgast haldbærar upplýsingar um réttindi barna. Samningurinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu. Öllum þeim sem koma að málefnum barna ber að gera það sem í þeirra valdi stendur til að framfylgja samningnum. Í honum kemur meðal annars fram að öll börn skuli njóta réttinda án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra. Enn fremur má nálgast vitneskju um réttindi barna og skyldur foreldra í íslenskum barnaverndarlögum nr. 80/2002. Þar er jafnframt kveðið á um að öll börn eigi rétt á vernd og umönnun og skulu þau njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska. Allir sem hafa uppeldislegar skyldur skulu sína börnum virðingu og umhyggju og með öllu er óheimilt að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Foreldrum ber einnig, lögum samkvæmt, að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og búa þeim viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna.
Ljóst er að margar stofnanir bera ótvíræða ábyrgð á velferð barna og hafa sinnt því hlutverki ágætlega og gera enn. Þrátt fyrir skipulega uppbyggt samfélag af vel meinandi stofnunum eru einstaklingar, sem einhverra hluta vegna finna sig ekki innan stofnananna eða úrræða þeirra og upplifa sig í æsku og oft fram á fullorðinsár, sem frávik frá gildandi viðmiðum og gildum samfélagsins. Þeir eru í meiri hættu á að leita í jaðarhópa og áhættu- og afbrotahegðun.
Fullorðnir einstaklingar sem upplifað hafa misbresti í bernsku og koma jafnvel út í lífið með brotna sjálfsmynd, en hafa náð að fóta sig á fullorðinsárum, hafa bent á að það var vissum einstaklingi úr æsku þeirra að þakka. Það var einstaklingur sem á einhvern hátt náði til þeirra, veitti þeim skjól, væntumþykju, sýndi þeim skilning, hlustaði og bar virðingu fyrir þeim eins og þeir voru. Sá einstaklingur varð þeim síðar hvatning og jákvæð fyrirmynd fram á fullorðinsár. Þessir einstaklingar sem settu mark sitt á líf barnanna hafa verið manneskjur með fagurt innsæi og einlægan vilja til að gera vel, hvort sem er í starfi eða einkalífi. Þessi styðjandi persóna hefur gjarnan verið kennari, vinur, nágranni, foreldri vinar, ættingi, þjálfari eða aðrir úr nærumhverfi barnsins.
Öll erum við á sömu vegferð frá vöggu til grafar. Við erum félagsverur og höfum sterka þörf fyrir að tilheyra. Samfélagið „þorpið“ er ekkert án þeirra einstaklinga sem í því búa eins og enginn skógur er án trjáa. Traust samfélag er byggt á sterkum grunni, öll börn eru grunnur samfélags sem okkur ber að styrkja og efla. Við sem einstaklingar getum lagt okkar að mörkum í uppbyggingu samfélags með því að vera stoð í lífi barns, hvort sem það tengist okkur, í gegnum starf, ættartengsl, vináttu eða jafnvel barn sem tengist okkur ekki.
Barnavernd Reykjanesbæjar sinnir mikilvægu hlutverki í velferð barna líkt og margar stofnanir. Stofnanir þurfa að byggja á góðu starfsfólki og vinna lögum samkvæmt en við getum hvert og eitt okkar bætt um betur með því að horfa í eigin barm og til okkar umhverfis og spurt: „Er barn í mínu nærumhverfi sem ég get stutt?“ „Get ég verið þessi kennari, þessi ættingi, þessi nágranni sem skiptir sköpum í lífi barns?“
Það þarf heilt þorp til að ala upp barn, ég og þú byggjum þetta samfélag. Skiptir þú sköpum?
Helga Fríður Garðarsdóttir
Félagsráðgjafi barnaverndar Reykjanesbæjar
Unnur Svava Sverrisdóttir
Félagsfræðingur, rágjafi barnaverndar Reykjanesbæjar