Það þarf að laga hljóð og mynd í Kirkjulundi
Tilefni þess að ég sendi frá mér þessa grein er að með stuttu millibili hef ég sótt mjög fjölmennar útfarir í Keflavíkurkirkju þar sem þeir heiðursmenn Reynir Ólafsson og Ólafur Björnsson voru bornir til grafar.
Eins og við mátti búast var mikið fjölmenni sem kvaddi þessa heiðursmenn hinstu kveðju. Kirkjan yfirfull og kom þá safnaðarheimilið að góðum notum og sannaði að það var rétt ákvörðun að byggja það á sínum tíma. Flott aðstaða og fallegt hús.
En ekki er allt sem sýnist. Þar er verið að notast við það lélegt hljókerfi og skjávarpa að athafnir fara að mestu framhjá kirkjugestum vegna lélegra hljómgæða í því kerfi sem boðið er upp á. Þá er verið að varpa mynd á málaðan vegg með skjávarpa sem er staðsettur er í miðjum sal á borði sem verður til þess að þegar kirkjugestir rísa úr sætum þá hverfur hluti af myndinni.
Væri ekki ráð að fá gott sýningartjald og festa skjávarpa neðan í loft eins og hjá þeim sem hafa það að markmiði að ekkert trufli myndgæði sem varpað er á tjaldið (ekki á málaðan vegg)? Þá er það algjör lámarks krafa að þeir kirkjugestir sem eru í safnaðarheimilinu geti heyrt það sem fram fer við athafnir í kirkjunni. Eins og þetta er í dag er maður nokkuð góður ef maður nær því að heyra einn þriðja hluta af því sem fer fram við athöfnina. Hljóðið er það lélegt að það rennur allt saman og verður mjög óskýrt. Það verður að lagfæra þetta strax, því sóknarbörn eiga betra skilið. Það er 2015 og tæknin er það góð að það verður að vera forgangsverkefni að lagfæra þetta. Látið fagmann koma þessum hlutum í lag því það virðist ljóst að þeir sem sjá um þetta í dag eru ekki að ná árangri. Mér datt í hug gamli fyrsti Nokia síminn minn þegar tónlist byrjaði að hljóma, það var svipað og Arnór organisti væri að spila á skemmtara sem hann væri með í kjöltu sér.
Það skal tekið fram að ég hef rætt þetta við mjög marga og eru allir sammála um að þetta sé til skammar og verði að laga fyrir okkar góðu kirkju.
Ágæta sóknarnefnd eða þið sem farið með þessi mál fyrir okkar góðu Keflavíkurkirkju, kippum þessum atriðum í lag. Við sóknarbörn og aðrir gestir eigum betra skilið og eigum að geta verið viss um að þessir hlutir séu í lagi.
Með vinsemd og virðingu,
Örn Bergsteinsson.