Það sem ég vil sjá!
Það sem ég vil sjá!
Ég vaknaði í morgun með með eftirfarandi áhyggjur og væntingar fyrir svæðið:
- Afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum er í uppnámi. Ég vil að síminn sé fullhlaðinn fyrir daginn og er með allt í símanum – vekjaraklukkuna líka. Svo ég tali nú ekki um öll hin raftækin. Samfélagið er knúið áfram með rafmagni. Hér á líka alltaf að vera gott símasamband svo ég geti haft samband við fjölskyldumeðlimi hvar og hvenær sem er – algjört öryggisatriði.
- Nú styttist í að náist full jöfnun á flutningskostnaði raforku og ég vil að bíllinn sé hlaðinn grænu rafmagni og orkuskiptin gangi vel fyrir sig. En áður en það gerist leiðist mér að eldsneytissöluaðilar skuli rukka mig 20% meira hér heldur en á höfuðborgarsvæðinu.
- Ég vil að unga fólkinu okkar á Suðurnesjum eins og alls staðar annars staðar á landinu líði vel á öllum skólastigum og fái góða menntun sem nýtist þeim í leik og starfi.
- Ég vil að lífæðar svæðisins séu til fyrirmyndar og við sem hér búum komumst fram og til baka slysalaust og án teljandi vandræða. Reykjanesbrautina verður að klára alla leið upp í flugstöð!
- Ég vil sjá samfélag þar sem allir hafa tækifæri til að skapa verðmæti. Því ef það er ekki verðmætasköpun þá er lítil velferð. Atvinnumálin verða að vera í lagi svo allir geti fundið kröftum sínum viðnám og skapað fjölskyldum sínum gott líf og öryggi. Ég vil geta verið stoltur af atvinnurekendum svæðisins. Þeir séu öflugir, gefi til samfélagsins í blíðu og stríðu og styðji við það.
- Ég vil borga sanngjarna skatta og hafa hvatann á réttum stað. Ég vil að eldri borgurum og öryrkjum sé ekki refsað fyrir að leggja sitt af mörkum með því að taka þátt í atvinnulífinu.
- Ég vil sjá að heilbrigðiskerfið sé í lagi og í takt við tímann. Það er óheilbrigt að þúsundir af svæðinu skrái sig á heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu og okkur finnist við utanveltu hér miðað við þjónustuna sem þar er veitt.
- Ég vil að okkur sé treyst til þess að nota landið okkar og ganga um það frjáls og óhult. Ég vil að okkur sé treyst til að skila því eins og við komum að því.
- Ég vil að þjónusta af hálfu hins opinbera sé gegnsæ, vel rekin, skynsamleg og skilvirk. Ég vil ekki heyra að þessi eða hin stofnunin eða stjórnin sé með málið og ekkert hægt að gera endalaust út af þessu eða hinu.
- Ég vil geta komið heim að kvöldi og við fjölskyldan farið saman yfir daginn og glaðst yfir því sem vel gekk og allir hafi skilað sínu dagsverki.
Þetta er alls ekki tæmandi listi og af nógu er að taka. En þetta var mér efst í huga í morgun. Það er ekki boðlegt að við hér á svæðinu þurfum endalaust að stofna þrýstihópa til þess að á okkur sé hlustað og við náum einhverju í gegn. Ég vil að að þeir sem veljast til forystu hafi brennandi áhuga á samfélaginu, láti ekki sitt eftir liggja og séu stoltir af því. Ég er líka nokkuð viss um að allir íbúar í Suðurkjördæmi vilja sjá svona lista raungerast hver á sínu svæði. Ég ætla að berjast fyrir Suðurkjördæmi og standa vörð um svæðið fái ég til þess brautargengi. Ég vil sjá mig inn á þingi á næsta kjörtímabili með þínum stuðningi svo ég geti látið verkin tala!!!
Guðbergur Reynisson
Höfundur er frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi og sækist eftir 3. sæti.