Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Það eru til lausnir – aðgerðir strax
Mánudagur 8. apríl 2013 kl. 09:02

Það eru til lausnir – aðgerðir strax

Skuldavandi heimilanna og atvinnumál eru þau mál sem brenna helst á fólki um allt land, ekki bara nú í aðdraganda kosninga, heldur hefur verið öskrað á aðgerðir  allt þetta kjörtímabil. En ríkisstjórnin hefur verið upptekin við að sinna öðrum málum sem hún hefur talið mikilvægari og hefur ekki komið með raunhæfar lausnir á þessum mikla vanda – vanda sem er því miður hvergi meiri en einmitt hér á Suðurnesjum. Hér er mesta atvinnuleysið, hér hafa flestar eignir farið á nauðungaruppboð og hér er skuldsetning heimila mest.

Það er því alveg ljóst að hvergi er þörfin meiri fyrir aðgerðum í þágu heimilanna en einmitt hér á þessu svæði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það eru til lausnir – nú þarf að framkvæma.

Lækkun höfuðstóls um allt að 20% og sterkari staða skuldara gagnvart lánastofnunum

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram vel útfærðar aðgerðir sem koma á móts við skuldavanda heimilanna, aðgerðir sem hægt er að fara í strax, komist hann til valda.
Aðgerðir sem munu m.a. gera heimilum kleift að lækka höfuðstól meðalhúsnæðisláns um allt að 20%. Eign heimilanna vex og afborganir lækka.

Við munum einnig  gera fólki með yfirskuldsett húsnæði tækifæri á því að skila lyklunum og  með því fær það ekki aðeins tækifæri til þess að byrja upp á nýtt án gjaldþrots, heldur styrkir það samningsstöðu sína gagnvart fjármálastofnunum. Afnám stimpilgjalds mun að sama skapi styrkja stöðu heimilanna gagnvart fjármálastofnunum og auka samkeppni á lánamarkaði.  Auk þess mun það auðvelda fólki að skipta yfir í óverðtryggð lán óski það þess, en við munum stefna að því að verðtryggð lán verði í framtíðinni undantekning frekar en regla eins og nú er.

Heimilin þurfa súrefni – lækkum skatta og gjöld

Það vill stundum gleymast að vandi fjölmargra íslenskra heimila er ekki eingöngu skuldavandi, heldur einnig greiðsluvandi, og því er mikilvægt að auka ráðstöfunartekjur heimilanna með skattalækkunum eins og við sjálfstæðismenn viljum gera.

Í dag greiða fjölskyldur landsins að meðaltali einni milljón króna meira í skatta árlega en þær gerðu þegar þessi ríkisstjórn tók við. Vinstri stjórnin hefur verið fjölskyldunum í landinu dýrkeypt. Þúsundir fjölskyldna eru í spennitreyju og þó þeim hafi tekist að greiða af lánum er ekkert borð fyrir báru. Bara það eitt að bíllinn bili eða þvottavélin gefi upp öndina getur sett fjárhaginn úr skorðum og komið fólki í vítahring sem erfitt getur verið að komast út úr. Þessu verður að breyta.

Leiðin til hagsældar er leið aukinnar verðmætasköpunar:

Lykillinn að öllum aðgerðum í þágu heimilanna er aukin verðmætasköpun í þjóðfélaginu og rétt forgangsröðun verkefna og fjármuna ríkisins.

Hér eru tækifærin allt í kringum okkur sem stjórnvöld þurfa að auðvelda nýtingu á en ekki að gera erfiðari eins og núverandi stjórnvöld hafa gert og við Suðurnesjamenn þekkjum svo vel Aukin verðmætasköpun á svæðinu mun skila sér í bættum kjörum íbúa svæðisins og hækkun á verðmæti eigna.
Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að stefna Sjálfstæðisflokksins í atvinnumálum skilar sér í lágu atvinnuleysi, hærri launum og aukinni verðmætasköpun til hagsældar fyrir heimilin í landinu. Það hefur líklega aldrei verið meiri þörf fyrir þeirri stefnu en einmitt hér og nú.

Frekari útfærslu á tillögum okkar sjálfstæðismanna má sjá á vef okkar www.xd.is

Ragnheiður Elín Árnadóttir,
oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi