Það er okkar íbúanna að standa vörð um störfin
Á undanförnum árum hefur fátt fallið með okkur íbúum í Reykjanesbæ. Svo virðist sem okkur hafi ekki tekist að mynda þann sáttmála sem nauðsynlegur er til þess að standa vörð um þá grunnþjónustu sem hverju samfélagi er nauðsynleg. Þrátt fyrir jákvæð teikn á lofti varðandi atvinnuleysið og auknar tekjur bæjarsjóðs hlýtur þó að teljast ástæða til í ljósi fjárlagafrumvarpsins sem nú er til umfjöllunar að beina sjónum okkar að því hver framtíðin verður. Og snúast til varnar líki okkur sú sýn ekki. Það er okkar að standa vörðinn, aðrir gera það ekki fyrir okkur.
Nýleg grein um flutning starfa flugumferðarstjóra hjá Isavia til Reykjavíkur af hagkvæmnisástæðum, auk þeirra fjárveitinga sem áætlaðar eru hvort heldur til mennta eða heilbrigðismála svæðisins gefa því miður ekki tilefni til sérstakrar bjartsýni fyrir okkur Suðurnesjamenn. Það á að vera fyrsta skylda þeirra er bænum ráða að vernda þau störf sem þegar eru til staðar á svæðinu og ýta undir frumkvæði þeirra sem hér búa til eflingar samfélagsins.
Velji menn að syngja „Suðurnesjamenn“ á hátíðar- og tyllidögum til votts um samstöðu svæðisins verður að vera ljóst að hugur fylgi þar máli. Að allir rói í sömu átt. Áralag bæjarfulltrúanna úr Reykjanesbæ hlýtur því að vekja athygli. Þeirra val og ákvarðanir virðast margar hverjar fyrst og fremst snúast um að flytja forsjá sem flestra samfélagslegra verkefna í burtu af svæðinu. Til þeirra er þeir telja að geti unnið störfin betur og á hagkvæmari hátt. Án tryggingar um að þær ráðstafanir verði samfélaginu til góða.
Skemmst er að minnast Hitaveitunnar sálugu. Fasteign mætti líka telja. Nú er reynt við öldrunarþjónustuna á Nesvöllum. Þar þykir bæjarfulltrúum allra flokka í Reykjanesbæ, að tveimur undanskildum skynsamlegast að fela reksturinn Hrafnistu í Reykjavík, og það þrátt fyrir að öllum hafi þeim verið kynntar hugmyndir um að halda þjónustunni í heimabyggð með hliðsjón af þeirri samþættingu sem leiðir til betri þjónustu. Auk þess hefur þeim öllum verið kynnt skýrsla Haraldar Líndals hagfræðings um öldrunarþjónustu á Suðurnesjum. Það gerir afstöðu þeirra í mínum huga enn óskiljanlegri. Í stað þess að nýta þau sóknarfæri er þar birtast er lagst í vörn, og jafnvel gefist upp.
Um leið og það er okkar íbúanna að standa vörð um störfin og þjónustuna hlýtur það að vera sanngjörn krafa til bæjarfulltrúa okkar að þeir geri grein fyrir þeim ákvörðunum er geta haft áhrif þar á. Með grein þessari vil ég kalla eftir umræðu og þeim rökum sem liggja að baki ákvörðunar bæjarstjórnar um að ganga til samninga við Hrafnistu. Sanngjarnt hlýtur að teljast að hver og einn þeirra geri grein fyrir þeirri afstöðu og rökum er að baki liggja ákvörðun þeirra ásamt því að útskýra framtíðarsýn sína hvað varðar öldrunar- og helbrigðismál á Suðurnesjum. Það hlýtur að vera réttur okkar íbúanna að heyra þau áður en lengra er haldið og samningur við Hrafnistu undirritaður.
Með bestu kveðju,
Hannes Friðriksson.