Það er leikur að læra að lesa í leikskólanum Tjarnarseli
Fyrsta daginn eftir gott sumarleyfi í Tjarnarseli kom fimm ára snáði hlaupandi til leikskólastjóra og spurði ákafur „hvenær byrjum við að læra að lesa?“ Hann hafði eins og svo margir jafnaldrar hans fylgst með árganginum á undan, læra að lesa og skrifa í leikskólanum.
Lestar- og skriftarnámskeiðið:
Í septembermánuði, ár hvert, eru fimm ára börnum í Tjarnarseli boðið upp á lestrar- og skriftarnámskeið samfellt í 10 vikur. Námið fer fram hálftíma á dag, fjóra daga vikunnar. Grunnskipulag námskeiðsins byggir á aðferðarfræði Helgu heitinnar Sigurjónsdóttur kennara, sem rak sinn eigin lestrarskóla í Kópavogi í mörg ár. Síðan hafa leikskólakennarar lagað og þróað kennsluaðferðina í samræmi við leikskólafræðin og Aðalnámskrá leikskóla. Einkum nýta þeir sér leik- og starfsgleði barna til að vekja áhuga og forvitni þeirra á lestri og skrift og leggja áherslu á að kenna hljóð og tákn stafrófsins. Til þess nota leikskólakennarar kennslu gögn af ýmsum toga, eins og handbrúður, stóra og litla bolta, kertavax, hljóðfæri, hreyfingu og þrautabrautir svo eitthvað sé nefnt. Síðast en ekki síst finnst Tjarnarsels-börnunum gaman að læra að lesa í vettvangsferðum sínum um bæjarfélagið.
Á leið til læsis:
Leikskólabörnin eru eðlilega misjafnlega stödd þegar 10 vikna lestrar- og skriftarnámskeiðinu lýkur. En ár eftir ár upplifa leikskólakennarar persónulegan árangur hjá hverju barni fyrir sig. Mörg eru við það að verða læs, önnur eru stautandi og sum þekkja hljóð og tákn bókstafanna. Mikilvægasti árangurinn er, að okkar mati, að sjálfstraust barna eflist, þau hafa uppgötvað töfraheim bóka og hafa ánægju af að hlusta og lesa bók. Einnig má geta þess að langtíma markmið með lestrarnáminu er að draga úr sérkennslu og stuðningi í grunnskóla vegna lestrarörðugleika.
Mál og læsi í Tjarnarseli hefur fengið viðurkenningar og vakið athygli víða um land:
Mál- og læsisörvandi umhverfi í Tjarnarse li hefur verið í þróun í átta ár sem byggir á því að skipuleggja stig af stigi umhverfi leikskólabarna frá tveggja ára aldri og fyrrgreint lestrarnámskeið endapunkturinn í því ferli. Verkefnið fékk foreldraverðlaun Heimilis og skóla árið 2008 og hefur fengið styrki úr ýmsum sjóðum. Fjöldi fagfólks hefur heimsótt leikskólann til að kynna sér aðferðarfræðina s.s fulltrúar Mennta- og menningarráðuneytisins, starfsfólk fræðsluskrifstofa á Stór- Reykjavíkursvæðinu og kennarar í leik- og grunnskólum víða um land.
Dagur læsis 8. september:
Í lokin viljum við leikskólakennarar í Tjarnarseli vekja athygli á Alþjóðadegi læsis 8. september, sem við Íslendingar tökum þátt í, í þriðja sinn. Við viljum hvetja foreldra til að taka sér bók í hönd og lesa skemmtilega sögu fyrir börnin og eiga ánægjustund saman.
Inga María Ingvarsdóttir
M.Ed. í menntunarfræðum og leikskólastjóri Tjarnarsels.