Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Það er kominn tími á Suðurnesin
Þriðjudagur 30. október 2018 kl. 12:00

Það er kominn tími á Suðurnesin

Suðurnesin hafa verið í stöðugum vexti á undanförnum árum en frá árinu 2017 fjölgaði íbúum hlutfallslega mest á Suðurnesjum eða um tæp 7,4% samanborið við landið allt. Um 23% íbúa svæðisins eru af erlendu bergi brotnir. Samhliða þessari þróun fylgja að sjálfsögðu ýmsar áskoranir fyrir fyrirtæki og stofnanir á svæðinu sem og fyrir sveitarfélögin.

Í fjárlagafrumvarpi núverandi ríkisstjórnar er lítið tekið tillit til þessara þátta og er frekar dregið úr öllum fjárveitingum til þeirra verkefna sem snúa að Suðurnesjum en hitt. Nýjasta dæmið er úthlutun styrkja til svæðisbundinnar þróunar á vegum Ferðamálastofu en engum fjármunum af þeim 107 milljónum sem úthlutað var fór til Markaðsstofu Reykjaness.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Annað dæmi er sú staðreynd að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, sem gegnir veigamiklu hlutverki á svæðinu sem þjónustuaðili fyrir um 27.000 íbúa fær aftur langlægstu framlög allra heilbrigðisstofnana á landinu miðað við höfðatölu. Þessi staða er óviðunandi, og er nú þegar farin að hafa áhrif á rekstur hennar með tilheyrandi afleiðingum.

Eitt dæmið til viðbótar er staða Fjölbrautarskóla Suðurnesja en nokkuð virðist skorta á að hann njóti sanngirnis á við aðra skóla á landsbyggðinni þegar kemur að fjárveitingum frá hinu opinbera. Það rýrir gæði menntunar en hún er máttarstólpi hvers samfélags og lykillinn að því að fanga framtíðina.

Síðast en ekki síst er Reykjanesbrautin, lífæð Suðurnesja og í raun allra ferðamanna sem til landsins koma en um hana fara um 19.000 ökutæki á hverjum degi. Samkvæmt nýrri samgönguáætlun er ætlunin að ljúka við tvöföldun brautarinnar árið 2033. Það er auðvitað galið og engan veginn ásættanlegt, hvorki fyrir íbúa Suðurnesja eða aðra landsmenn. Ýmis dæmi eru í samgöngumálum þar sem forgangsröðun hefur verið breytt vegna alvarlegra slysa og aukins umferðarþunga. Það þarf að gera nú með Reykjanesbrautina og þann þrýsting þarf að skapa strax.

Þegar við lítum til Suðurnesjanna er eins og svæðið lendi á milli skips og bryggju við nýjustu ákvarðanir stjórnvalda. Stundum er horft á svæðið sem landsbyggð og stundum sem hluta af þéttbýliskjarna höfuðborgarsvæðisins. Allt eftir því sem hentar við útdeilingu verkefna og fjármuna ríkisins. En það er eins og svæðið fái alltaf stutta stráið.

Þegar kemur að úthlutun á almannafé verður að hafa í huga hvaða áskorunum landshlutar standa frammi fyrir hverju sinni til að hægt verði að byggja mannvænt samfélag.  Að allir landshlutar sitji við sama borð við úthlutun fjármuna á að vera meginlínan þótt verkefnin séu misjöfn og oft ólík. Gagnkvæmur skilningur er nauðsynlegur á þeim verkefnum sem bíða okkar um land allt því enginn landshluti er mikilvægari en annar. Því breiðari samstaða og skilningur sem er til staðar meðal allra þingmanna á málefnum og verkefnum viðkomandi kjördæmis, því betra. Algjörlega óháð því hvort þingflokkurinn eigi þingmann í viðkomandi kjördæmi eða ekki. Þannig viljum við í Viðreisn vinna. Með því eykst samfélagsleg ábyrgð og líkur á framgangi brýnna þjóðhagslegra málefna. En fyrst og fremst þarf að tryggja að almannahagsmunir séu teknir framar sérhagsmunum. Fyrir Suðurnesin er það einföld krafa.

Í þetta skiptið er kominn tími á Suðurnesin

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Formaður Viðreisnar

Arnar Páll Guðmundsson
Formaður Suðurráðs Viðreisnar