Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Það er komið að stund sannleikans
Miðvikudagur 26. júní 2013 kl. 09:30

Það er komið að stund sannleikans

Nýlegar bréfaskriftir bæjarstjórans í Reykjanesbæ og Guðbrandar Einarssonar  í kjölfar viðtals við Júlíus Jónason forstjóra HS Orku  í Viðskiptablaðinu  um eitt helsta hagsmunamál íbúa á Suðurnesjum,  álverið í Helguvík hljóta að teljast mikil tíðindi.
Öllum er nú ljóst að flest bendir til að það verkefni sem forsvarsmenn  sjálfstæðisflokksins   í Reykjanesbæ  hafa haldið fram á undanförnum árum  að stöðvaðist eingöngu sökum vanefnda fyrrum stjórnvalda  hefur nú stöðvast af allt öðrum ástæðum. Erfiðlega gengur að ná samningum um raforkuverð til framkvæmdarinnar auk þess sem kannski mestu máli skiptir að ekki fæst næg orka til framkvæmdarinnar.

Á undanförnum árum hafa birst margar greinar og stór orð hafa verið sögð um ástæður þess að verkefnið næði ekki fram að ganga.  Umkenningarleikurinn leikinn í þeirri vissu að fylgi við framkvæmdina og þá talsmenn hennar sem hæst létu myndu skila verkefninu áfram. En málið var ekki svo einfalt, og stóru orðin um að allt færi þetta á fulla ferð ef bara réttir flokkar héldu á málunum virðist ekki ætla að standast.  Meira að segja hæstvirtur iðnaðarráðherra sem hvað hæst lét um dugleysi alvondu ríkistjórnarinnar í þessu máli virðist vera farin að sjá ljósið ef marka má ummæli hennar undanfarið.
Ráðist hefur verið í ótímabærar framkvæmdir með fé íbúa Reykjanesbæjar án  öruggrar vissu um arðsemi þeirra framkvæmda  og eftir situr bærinn í skuld upp á tæpa sjö milljarða króna vegna hafnarinnar eða um það bil  500. þúsund  á hvern íbúa bæjarins. Niðurstaða bæjarstjóra Reykjanesbæjar  er að eðlilegasta framhaldið sé að eyða umræðunni og standa saman að því er best verður skilið  um fjölgun starfa í þeim anda er starfað hefur verið undanfarin ár. Stálpípu-stólpípu og allra þeirra verksmiðja er aldrei urðu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Er ekki nóg  komið?  Málið getur  ekki lengur snúist  um jákvæðni,  neikvæðni, eða samstöðu . Málið hlýtur að snúast nú afstöðu og ákvörðun forsvarsmanna Norðuráls um hvort af verkefninu verði í ljósi ummæla forstjóra HS Orku. Það er ekki lengur ásættanlegt að halda íbúum og byggðarlögum á Suðurnesjum í gíslingu væntinga Norðuráls um lágt raforkuverð, og stöðva á meðan önnur uppbyggingartækifæri er kynnu að bjóðast. Það hlýtur að teljast bæði sanngjarnt og eðlilegt eftir langan biðtíma framkvæmdarinnar að kallað  sé eftir svörum hvað verður eða verður ekki. Það er komið að stund sannleikans.

Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson