Það birtir til
Ég held því fram að ekkert svæði á Íslandi eigi jafn bjarta framtíð og Suðurnesin og það eru ótal spennandi tækifæri sem bíða okkar Suðurnesjamanna. Mér finnst gott að minna sjálfan mig og samferðafólk mitt á þetta þegar rætt er um þungt ástand á Suðurnesjum í dag. Atvinnulífið á svæðinu fékk vissulega tvöfalt kjaftshögg. Fyrst kölluðu Bandaríkjamenn her sinn heim og nokkrum misserum síðar hrundi íslenskt efnahagslíf. Samfélagið á Suðurnesjum sat eftir í sárum og er enn í dag að jafna sig. Bæði fólk og fyrirtæki hafa þurft að ganga í gegnum erfiðleika sem enginn óskar sér að þurfa að glíma við.
Vorkoma í lofti
Sem betur fer kemur vor á eftir hörðum vetri og á Suðurnesjum má finna fyrir því að það er farið að vora í atvinnulífinu. Vöxtur er í ferðaþjónustunni, sjávarútvegsfyrirtæki eru að fjárfesta í nýjum vinnsluaðferðum, nýsköpun í fiskeldi er að skjóta rótum á Reykjanesi, atvinnuhugmyndir framtíðar eiga sér heimavöll á Ásbrú og með þátttöku ríkis og sveitarfélaga hafa verið gerðir ívilnunarsamningar vegna gagnavers í Reykjanesbæ og fiskvinnslu í Sandgerði. Atvinnuleysistölur hafa farið lækkandi og fulltrúar verkalýðsfélaga segjast sjá á aðildargreiðslum félaga sinna að hagur fólks er að vænkast.
Þröskuldum í vegi álvers hefur fækkað
Þrátt fyrir þessi jákvæðu merki vantar þó enn þá innspýtingu sem fæst með álveri í Helguvík. Krafturinn sem fæst með þeirri framkvæmd er ekki aðeins mikilvægur fyrir Suðurnesin heldur fyrir allan íslenskan efnahag. Seinagangurinn sem hefur verið í kringum álverið er lygilegur og er ábyrgðin á því dreifð milli margra aðila. Það jákvæða er að þröskuldunum í vegi framkvæmdarinnar hefur fækkað og nú er það Norðuráls að ganga frá samningum um kaup á orku til að boltinn geti farið að rúlla fyrir alvöru.
Jafnræði á milli landshluta
Kollegar mínir í bæjarstjórn Reykjanesbæjar hafa barist fyrir því að fá ríkið í lið með sér vegna kostnaðar við uppbyggingu hafnarmannvirkja og hafa eðlilega bent á að jafnræði skuli vera á milli framkvæmda á Bakka við Húsavík og í Helguvík. Þetta sjónarmið nýtur stuðnings og ég vona að meirihlutinn í Reykjanesbæ beri gæfu til að ganga frá samningum við ríkið í stað þess að tefja fyrir með pólitískum loftfimleikum sem eru ætlaðir til að búa til moldviðri í aðdraganda alþingiskosninga. Það vantar í það minnsta ekki viljann hjá Samfylkingunni til að tryggja að Suðurnesjamenn sitji við sama borð og aðrir landsmenn.
Bjart framundan
Því miður höfum við á Suðurnesjum oft á tíðum verið okkar eigin verstu andstæðingar með sundurlyndi og neikvæðum baráttuaðferðum sem skila litlum árangri. Þessu verðum við að breyta. Hættum að eltast við ímyndaða óvini og tölum frekar svæðið okkar upp. Verum stolt af þeim krafti sem býr í Suðurnesjamönnum. Það er bjart framundan.
Ólafur Þór Ólafsson
forseti bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar og skipar 5. sæti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi