Það besta sem þú getur gert fyrir heilsuna gæti komið þér á óvart

Á þeim námskeiðum og fyrirlestrum sem ég hef haldið kemur oft upp sú spurning hjá þátttakendum hvað sé mikilvægast til þess að efla heilsuna. Það er eðlilegt að þessi spurning komi upp enda hefur flestum verið sagt að leita ráða áður en farið er út í stórvægilegar breytingar á heilsufarslegri hegðun, s.s. mataræði eða hreyfingu. Því vill fólk fá að vita hvað sé skynsamlegast að leggja mesta áherslu á, eða eftir atvikum, hvað sé best að tækla fyrst.

Þeir sem mig þekkja, vita að ég hef töluverða persónulega reynslu af því að glíma við offitu og get því miðlað þar af reynslu minni, en offita er flókinn sjúkdómur sem er afar kostnaðarsamur fyrir samfélagið og veldur miklum heilsufarslegum skaða til lengri tíma. Að halda sér í kjörþyngd er því vissulega mikilvægt en þó er það ekki sá þáttur sem ég vil meina að skipti mestu máli. Regluleg hreyfing er ekki bara góð fyrir líkamlega heilsu heldur hefur mikil og góð áhrif á andlega líðan. Ég hef hvatt alla á mínum fyrirlestrum og námskeiðum til þess að hreyfa sig reglulega og um langt skeið tiltók ég hreyfingu sem það aðalatriði sem mestu máli skipti fyrir góða heilsu.

Í dag hefur áhersla mín þó breyst. Holl og fjölbreytt næring tryggir góða meltingu, veitir okkur orku til þess að takast á við daginn, heldur líkamsstarfseminni í jafnvægi og hefur einnig áhrif á andlega líðan okkar. Því legg ég áherslu á það í mínum fyrirlestrum að fólk sé meðvitað um hvað það lætur ofan í sig, hvernig vörur eru framleiddar og hvað sé raunverulegt innihald þeirra. Þrátt fyrir mikilvægi góðrar næringar er það þó ekki sá þáttur sem mér finnst skipta mestu máli til þess að tryggja góða heilsu, þó svo það sé augljóst flestum að góð næring sé afar mikilvæg. En hvað er það þá sem ég legg mest upp úr?

Nú gætu einhverjir lesendur haldið að það sé svefninn. Ég hef vissulega skrifað töluvert um mikilvægi svefns, enda sýna rannsóknir að óreglulegur svefn hefur mjög skaðleg áhrif á heilsu okkar. Allir eiga að fá átta tíma svefn hið minnsta og setja sér markmið um að bæta svefnvenjur til þess að tryggja nauðsynlega hvíld. Ekki er það þó svefninn sem varð fyrir valinu að þessu sinni. Sá þáttur sem mér finnst skipta lang mestu máli fyrir heilsu okkar í dag eru einlæg, kærleiksrík og gefandi samskipti. Það að eiga góð samskipti við fjölskyldu, vini, vinnufélaga og samferðarmenn skiptir sköpum.

Rannsóknir sýna að samfélagsleg einangrun og einmannaleiki hefur jafnvel verri áhrif á heilsu fólks en reykingar, óhollt mataræði og hreyfingarleysi. Maðurinn er félagsvera. Við byggjum samfélagsleg tengsl okkar á samvinnu og samhjálp. Góð samskipti tryggja þar góðan árangur. Öll þörfnumst við hvors annars. Öll tökumst við á við erfiðleika í lífinu og þá er fátt betra en þegar einhver réttir manni hjálparhönd. Því þurfum við að læra að setja okkur í spor hvors annars, leitast við að skilja mismunandi sjónarhorn og tryggja góð samskipti, heilsunnar vegna og okkar allra.

Jóhann Friðrik Friðriksson