Taubleiur, fyrir börnin og framtíðina
Foreldrar sem eru að koma upp börnum í dag eru svo gæfusamir að vitundin um umhverfisvernd er að aukast. Ein leið til að sýna vistvernd í verki er að nota taubleiur á litlu bossana í fjölskyldunni. Margir hvá við tilhugsunina um að nota taubleiur, sjá fyrir sér endalausa vinnu við straubretti, bleiubrot, skipta á blautum rúmum á hverjum morgni, brunna bossa og annað í þeim dúr. Reyndin er hinsvegar önnur. Undanfarin ár hefur framförum í hönnun fleygt fram í taubleiuiðnaðinum og er þetta orðinn afar hagkvæmur og raunhæfur kostur fyrir hina venjulegu annasömu íslensku fjölskyldu.
Í dag eru taubleiur tilsniðnar með áföstum festingum, þá smellum eða frönskum rennilás. Flestar eru þannig að hægt er að stilla þær eftir vaxtarlagi barnsins og sumar eru þannig hannaðar að hægt er að nota þær út allt bleiutímabilið. Eins finnast þær sem eru án festinga, en þá er hægt að kaupa fjölnota festingar til að nota á þær. Yfir þessar bleiur fara svo vatnsheldar buxur úr efnum sem anda, t.d. PUL sem er eins konar plastefni sem inniheldur ekki skaðleg efni og andar vel, fleece efni eða úr mjúkri ull sem hefur fengið lanolínkúr. Eins eru á markaðnum svokallaðar vasableiur, með fleece næst húð barnsins sem hleypir bleytunni í gegnum sig og ysta lagið er úr PUL sem er vatnsvarið efni. Á bleiunni er svo vasi þar sem smeygja má innleggjum í sem draga í sig vætuna frá barninu. Allt-í-einni-bleia er líka ótrúlega sniðugt lausn; hún er með ysta lagið úr PUL, rakadrægu efni innan í og stundum og stundum ekki fleece næst húð barnsins. Hægt er að setja pappírsinnlegg, að sjálfsögðu úr vistvænni framleiðslu, í bleiuna til að taka við kúk. Pappírnum má einfaldlega sturta í klósettið eftir notkun hafi barnið kúkað, en ef ekki, má þvo innleggið með bleiunum og nota aftur, óski fólk þess.
Allar þessar framfarir sem orðið hafa, gera það að verkum að taubleiur eru ekki lengur tímafrekar. Þú þværð á 2.-3. daga fresti, setur í þurrkaran og þaðan á geymslustað sem gæti vel verið karfa sem er geymd í þottahúsinu. Engin brot eða strauerí, nema þig langi sérstaklega til þess.
Það þarf að skipta aðeins örar, en ekki svo. Það má gróflega áætla að fólk noti u.þ.b. 15 mínútum meira á dag í taubleiurnar en í einnota bleiurnar.
Ávinningarnir eru svo ótal margir. Taubleiur eru umhverfisvænar, ofhita ekki æxlunarfæri barnanna, erta ekki viðkvæma húð og slímhúð á bleiusvæðinu og draga þar með úr sveppasýkingum og bleiubruna, eru ódýrar, skemmtilegar í notkun og svo eru þær mjög flottar. www.draumafaeding.net er með vefverslun með taubleiur og ýmsar aðrar heildrænar lausnir fyrir fjölskylduna og er hún sú stærsta sinnar tegundar á landinu. Suðurnesjafólki er velkomið að hafa samband og fá að koma við og skoða herlegheitin. Auk þess býður Draumafæðing upp á heimakynningar.
Eydís Hentze