Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tap fært sem eign
Föstudagur 20. janúar 2006 kl. 10:10

Tap fært sem eign

Í síðasta tölublaði Víkurfrétta vekur Georg Brynjarsson formaður Fasteigna Reykjanesbæjar ehf. athygli á bókun minni í Bæjarstjórn Reykjanesbæjar frá því í desember.

Í niðurlagi bókunarinnar bendi ég á að fjárhagsleg staða félagsins sé aum og verði það á meðan ekki komi framlag frá bænum. Á síðasta aðalfundi félagsins kallaði formaðurinn sjálfur eftir stefnu Reykjanesbæjar í málefnum félagsins og var ég honum fyllilega sammála. Í grein sinni talar hann um að ég geri að engu samkomulag sem var gert í apríl á s.l. ári um að Reykjanesbær kæmi að félaginu með niðurgreiðslur vegna uppsafnaðs rekstrartaps. Ekki er að sjá að þetta samkomulag hafi gengið eftir samkvæmt reikningum bæjarins því ekkert er um framlag til félagsins í fjárhagsáætlun næsta árs. Það er einmitt m.a.vegna þess sem ég lagði bókunina fram. Ég bendi einnig á að í bókhaldi Reykjanesbæjar sé tap Fasteigna ehf., sem alfarið er í eigu bæjarins, fært sem inneign bæjarsjóðs og að ég teldi eðlilegra að gjaldfæra þessa upphæð. Auðvitað eru þessar 125 milljónir ekki raunveruleg inneign bæjarsjóðs heldur er þetta tap félagsins sem er á ábyrgð bæjarins.

Rekstrartapi velt á milli ára

Íbúðarlánsjóður hefur gefið út ákveðna staðla til að reikna út kostnað við rekstur leiguhúsnæðis. Þeir staðlar hafa ekki verið hafðir til viðmiðunar hér og ekki hefur verið mótuð stefna um það hvort eða hvernig bærinn komi inn með niðurgreiðslur eða m.ö.o framlag til félagsins en til þess tel ég að þyrfti að koma samhliða. Þegar ég er að tala um gegnsæi þá er ég að tala um að við útreikninga leigunnar kæmi fram raunverulegur kostnaður og síðan kæmi niðurgreiðsla bæjarins til frádráttar. Það hlutfall er auðvitað pólitísk ákvörðun. Ég er ekki að gagnrýna þá reikninga sem liggja fyrir í bókhaldi félagsins heldur benda á að eðlilegra væri að mínu mati fyrir Fasteignir ehf. að geta reiknað leiguna út frá þeim stöðlum sem ætlaðir eru til að standa undir kostnaði og að Reykjanesbær leggði síðan fram ákveðið hlutfall til niðurgreiðslu. Það fyrirkomulag er þekkt úr öðrum sveitarfélögum. Þá gæti félagið unnið samkvæmt því sem að minnsta kosti ég taldi áætlunina í upphafi. Í dag dugar leigan ekki fyrir kostnaði og rekstrartapinu er velt á milli ára í formi taps í samstæðunni og inneignar í bókhaldi bæjarsjóðs.

90 manns á biðlista

Umræður hafa orðið nokkrar innan bæjarstjórnar og í fjölskyldu-og félagsmálaráði um félagslega húsnæðiskerfið og hvert við stefnum í þeim efnum. Nokkuð hefur verið um sölu óhagstæðra eigna úr kerfinu og fáum íbúðum hefur verið úthlutað á s.l. ári. Í desember voru 90 manns á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjanesbæ. Á meðan Reykjanesbær hefur ekki mótað sér stefnu hvað varðar fjárhagslega aðkomu að félagslega húsnæðiskerfinu er hugmyndavinna um framtíð þess afar erfið að mínu mati og efast ég um að einungis minnihlutafulltrúar í Fjölskyldu-og félagsmálaráði séu þeirrar skoðunar.

Sveindís Valdimarsdóttir,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024