Taktu afstöðu með hagræðingu!

Hið opinbera markmið með sameiningu sveitarfélaga er að efla sveitarstjórnarstigið svo hægt sé að færa aukin verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna. Sú tilfærsla auk aukinnar kröfu íbúa um vaxandi þjónustustig hefur auðvitað í för með sér aukin útgjöld sem í kjölfarið þrýstir á auknar tekjur sveitarfélaganna. Því hefur skapast aukin þörf á hagræðingu í sveitastjórnakerfinu. Ein leið í þessari hagræðingu er sameining sveitarfélaga víðs vegar um landið. En sameining getur skilað heildstæðara vinnu- og þjónustusvæði til handa íbúunum.
Ég tel sameiningu sveitarfélaganna hagsmunamál okkar allra því þannig myndum við eitt stórt öflugt sveitarfélag sem getur boðið íbúunum upp á fjölbreytta og góða þjónustu. Í þessu samhengi eiga vel við hin merku orð: ,,Sameinaðir stöndum vér en sundraðir föllum vér".
Því vil ég hvetja íbúa Reykjanesbæjar, Garðs og Sandgerðis að láta sitt ekki eftir liggja og kjósa næstkomandi laugardag um framtíð sveitarfélaganna. Nú er lag að skoða kosti og galla sameiningar, gera upp hug sinn og skila atkvæðinu í kjörkassann þann 8. október. Sameining verður ekki nema meirihluti kjósenda í viðkomandi sveitarfélagi lýsi samþykki sínu á sameiningartillögunni.
Þín skoðun skiptir máli.
Bestu kveðjur,
Jóhanna Guðmundsdóttir
Formaður Bæjarmálafélags Frjálslynda flokksins í Rnb.