Takk fyrir Jórunn Tómasdóttir
Ég vil með þessum skrifum mínum þakka Jórunni Tómasdóttur kærlega fyrir þá grein sem hún birti á vef Víkurfrétta þann 6. maí s.l. undir fyrirsögninni “ Im memoriam”. Grein hennar um sparisjóðinn okkar Suðurnesjamanna snerti hjartarætur mínar. Greinin fjallaði m.a. um hlutverk sparisjóðsins og minnti okkur á hve græðgi og siðspilling mannskepnunnar er varhugaverð.
Ég man vel þegar ég stofnaði mína fyrstu bankabók hve mikla áherslu afi minn og pabbi lögðu á það að hana skyldi ég stofna í sparisjóðnum í Njarðvík. Allt frá þeim degi hef ég haldið tryggð við það útibú. Það er nefnilega staðreynd sem Jórunn segir að “sparisjóðurinn var stolt íbúa svæðisins og að hugmyndafræði hans hverfðist um almannahag”.
Ég hafði oft á orði við hin ýmsu tækifæri að mér þætti vænt um sparisjóðinn. Margir ráku reyndar upp augu við slíkar yfirlýsingar, ef til vill að hluta vegna þeirrar hugmyndafræði sem gert hefur okkur köld og tilfinningasnauð. En mér þótti vænt um sparisjóðinn minn alveg eins og mér þótti vænt um Hitaveitu Suðurnesja! Þessi tvö fyrirtæki voru stolt okkar Suðurnesjamanna en nú eru þau bæði komin úr okkar eigu þótt ferlið og aðdragandinn hafi ekki verið sá sami. Eftir stendur að það mikla stolt sem þessi fyrirtæki báru með sér er sært.
Það er eitt sem aldrei er hægt að setja í formúlu, það er græðgi manna. Einmitt þess vegna mun fullkomið frelsi aldrei ganga upp. Einmitt þess vegna þurfum við reglur og eftirlit með stofnunum og stjórnendum stofnanna eins og sparisjóðsins, einmitt þess vegna erum við komin á þann stað sem við erum á í dag.
Hvað gekk eiginlega á inni í sparisjóðnum? Hverjir voru að lána hverjum hvað og hvaða veð voru að baki þeim lánveitingum? Hvernig má það vera að sparisjóðurinn hafi verið rekinn í þrot? Hvaða háttsemi var viðhöfð í skjóli “frelsis” og máttlauss eftirlits?
Almenningur hér á Suðurnesjum, fólk sem hélt tryggð við sparisjóðinn, hlýtur að eiga heimtingu á því að fá að vita hvað gekk á í sparisjóðnum síðustu árin. Orð götunnar er að vissir menn hafi lánað pólitískum vinum sínum og kunningjum háar fjárhæðir án veða. Ég vil ekki trúa því að slíkt hafi átt sér stað enda er hollt að trúa varlega orðinu á götunni. En sparisjóðurinn fór í þrot, það er staðreynd. Og margir höfðu varað við þeirri vegferð sem stjórnendur sparisjóðsins voru lagðir í án þess að hlustað væri. Þess vegna er það mjög mikilvægt að sparisjóðurinn verði rannsakaður ofan í kjölinn. Allt verður að koma uppá yfirborðið. Aðeins í kjölfar slíkrar rannsóknar geta þeir sem hlut eiga að máli og ekkert gerðu rangt hreinsað mannorð sitt, aðeins þá fyrst verður hægt að sækja þá til saka sem brotið hafa lög, hafi lög verið brotin á annað borð. Einungis að ítarlegri og réttlátri rannsókn lokinni er mögulegt að við sem höfum ætíð haldið tryggð við sparisjóðinn getum orðið sáttari við örlög hans - þótt við verðum aldrei fullkomlega sátt.
Ég vona líkt og Jórunn að hægt verði að vekja sparisjóðina upp aftur í einhverri mynd með þeirrri frábæru hugmyndafræði sem var til grunvallar tilvist þeirra; sparisjóði sem styðja við menningu, íþróttastarf, atvinnulíf, sparnað fólks og hafa almennt hlutverki að gegna í öllu bæjarlífi á þeim stað þar sem þeir eru starfræktir.
Það er líka einlæg von mín að Suðurnesjamenn fari að vakna og láta til sín taka hvort sem það er með greinaskrifum eða almennri, málefnalegri umræðu. Burt séð frá allri pólitík er umfram allt mikilvægt að fólk sé gagnrýnið í hugsun varðandi málefni bæjarfélagsins okkar. Það er mjög sárt að sjá eftir þessum tveimur fyrirtækjum, þessu stolti okkar. En í ljósi þess að við suðurnesjamenn erum dugmikið og ráðagott fólk veit ég að við eigum eftir að vinna okkur uppúr þeim erfiðleikum sem við erum í núna. Þegar sá dagur kemur verður vonandi vilji til þess að vekja upp gamla góða andann sem lá bak við stofnun Sparisjóðsins og Hitaveitunnar. Draumsýn okkar allra er einföld: hún snýst um réttlátt samfélag með jöfnum rétti allra. Leiðin að því að láta slíkan draum verða að veruleika er vörðuð samfélagslegri ábyrgð.
Að lokum vil ég þakka starfsfólkinu í útibúinu í Njarðvík fyrir persónulega og góða þjónustu í gegnum árin og óska þeim velfarnaðar sem fluttir hafa verið til í starfi.
Kristján Reykdal Sigurjónsson
Suðurnesjamaður.