Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tæknilegar framfarir, þróun og nýjungar
Sunnudagur 19. febrúar 2012 kl. 14:08

Tæknilegar framfarir, þróun og nýjungar

– ný byggingareglugerð nr. 112/2012 kynnt í Reykjanesbæ –

Í ársbyrjun 2011, við gildistöku nýrra laga um Mannvirki nr. 160/2010, tók til starfa Mannvirkjastofnun sem sameinar málaflokka mannvirkjagerðar og hefur það meginhlutverk, í samráði við viðkomandi stjórnvöld, að tryggja samræmingu á byggingar- og eldvarnareftirliti og starfsemi slökkviliða og hafa yfirumsjón með rafmagnsöryggismálum. Eitt af fyrstu verkefnum þessarar nýju stofnunnar var að innleiða nýju lögin og skipa starfshópa samsettum fagaðilum til að endurskoða byggingarreglugerð nr. 441/1998. Nú er þessum hluta verkefnisins formlega lokið og út er komin metnaðarfull byggingarreglugerð nr. 112/2012, en það er engan veginn einfalt verkefni að útfæra nýtt laga- og reglugerðarverk um byggingarmál. Ný byggingareglugerð nr. 112/2012 er sérlega yfirgripsmikil enda tekur hún til fjölda atriða sem snerta daglegt líf og aðbúnað almennings og ber merki um tæknilegar framfarir og nýjungar. Þá er nokkuð um ný ákvæði og áherslubreytingar, nýyrði og auknar skilgreiningar. Settar eru fram:


Lágmarkskröfur til mannvirkjagerðar, lágmarksstærðir íbúða og rýma innan þeirrar og öruggt svæði.

Algild hönnun, á við hönnun á mannvirki þar sem tryggt er aðgengi fyrir alla.

Hindrunarlaus flóttaleið, er lágmarks stærð flóttaleiðar t.d. ljósop á björgunaropi eða hurð.

Markmiðsákvæði brunavarna, notkunarflokkar mannvirkja að teknu tilliti til brunavarna.

Hlutverk hönnunarstjóra og auknar kröfur til byggingastjóra, tilnefnds aðila og innleiðingu gæðakerfa.

Neytendavernd, vistvæn byggð, hljóðvist í skólum og heilnæmi.

Lífferilsgreinginu, sjálfbæra þróun, gegnsæi og lýðræðisumbætur.



Samfélagið á í heild sinni, allt undir því að vel sé að því staðið að gera reglugerðarumhverfi og framkvæmd málaflokksins notendavænt og metnaðarfullt. Gerðar eru auknar kröfur, t.d. um einangrun og um flokkun byggingarúrgangs. Lögð er áhersla á meiri endingu, betri nýtingu orku og að umhverfisáhrifum byggingarinnar sé haldið í lágmarki. Þetta er ekki síður mikilvægt þar sem ævisparnaður landsmanna er að stórum hluta bundinn í mannvirkjum. Mjög mikilvægt er að viðkomandi aðilar þ.e. hönnuðir, meistarar og samfélagið í heild standi saman í því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar, bæði gæði í hönnun og við byggingarframkvæmdir. Mikilvægt er að neytendur geti treyst því að megin grunngildi við gerð mannvirkja þ.e. að kröfur um heilnæmi m.a. öryggi, heilsu og aðgengi sé fullnægt og jafnframt að gætt sé að góðri endingu mannvirkja, hagkvæmni og gegnsærri stjórnsýslu í málaflokknum.


Síðustu áratugi hefur orðið gríðarleg aukning og þróun í mannvirkjagerð. Í kjölfarið höfum við orðið uppvís um mögulegar vanefndir bæði við hönnun og framkvæmd. Byggingaframkvæmdir voru örar, allt þurfti að gerast á sem skemmstum tíma, íbúðir á misjöfnu byggingastigi gengu kaupum og sölum og viðkomandi aðilar fóru ekki með hlutverk sitt og ábyrgðir sem ætlast er til af þeim. Margir þolendur slíkra framkvæmda hafa þurft að endurbyggja ákveðna verkþætti og erfitt virðist fyrir viðkomandi að sækja „rétt“ sinn.


Með kynningu á nýútkominni reglugerð gefst byggingastjórum, hönnuðum, meisturum, og öðrum sem tengjast málaflokknum tækifæri á að kynna sér innihald reglugerðarinnar. Fulltrúar frá Mannvirkjastofnun í samstarfi við Umhverfis- og skipulagssvið (USK) kynna nýja byggingareglugerð þann 21. febrúar frá kl. 09:00 til 12:00 í Íþróttaakademíunni við Krossmóa 58. Við hjá USK hvetjum viðkomandi aðila til að mæta og kynna sér innihald reglugerðarinnar. Verið velkomin, aðgangur er ókeypis!

Sigmundur Eyþórsson
tæknifræðingur hjá USK.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024