Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tækifærin þegar herinn fer
Þriðjudagur 17. maí 2005 kl. 00:19

Tækifærin þegar herinn fer

Það vakti athygli þegar sá þekkti Bandaríkjamaður, Brian Tracy, var hér á dögunum að kenna Íslendingum hvernig þeir komist best áfram í lífinu, að hann taldi að þá fyrst færi fjölbreytt atvinnulíf á Suðurnesjum að blómstra þegar herinn færi. Sagðist hann byggja þá skoðun sína á reynslu frá heimalandinu þar sem herstöðvar hafa verið lagðar niður. Ég ætla ekki að dæma hvað hæft er í þessum ummælum. Það hafa líka borist fréttir af eymd og volæði á svæðum þar sem starfsemi hefur dregist saman í herstöðvum eða hergagnaiðnaði. Ætli það sé ekki nokkuð undir íbúnum og forystumönnum þeirra komið á hvorn veginn það fer? Kjarninn í kenningum Brian Tracy er reyndar sá að hver er sinnar gæfu smiður.


Þurfum við ekki að skoða þessi mál í fullri alvöru og án fordóma? Getum við látið sem þessi her verði hér um aldur og ævi og sætt okkur við að vera háð honum? Getur hugsast að herinn sé farinn að þvælast fyrir? Það stóð reyndar aldrei til að hann yrði hér um aldur og ævi, þó svo mætti halda þegar hlustað er á málflutning margra stjórnmálamanna.


Þingmenn Vinstri grænna, með Steingrím J. Sigfússon í fararbroddi, lögðu á fram nýafstöðnu Alþingi þingsályktunartillögu um að undirbúa yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar og uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi samhliða brottför hersins. Í þessu skyni skyldi stofna nefnd til að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í viðræðum við bandarísk stjórnvöld. Hér kveður við nokkuð annan og ferskari tón þegar samdrátt í herstöðinni ber á góma.
Samdrátturinn sl. áratug er umtalsverður. Alls hefur flugvélum hersins fækkað um 70%, hermönnum um 56% og íslenskum starfsmönnum um 40% frá árinu 1990.  Árið 1990 voru heildartekjur af herstöðinni 2,5% af vergri landsframleiðslu en voru komnar niður í 1,5% árið 2003. Með sama áframhaldi náum við núllpunktinum nálægt árinu 2020!


Samhliða þessum samdrætti eykst farþega- og fraktflug og önnur flugtengd starfsemi gríðarlega og fram hafa komið hugmyndir um nýja starfsemi og öðruvísi nýtingu mannvirkja.


Þessi mál verða til umræðu á fundi á Flughóteli í Keflavík fimmtud. 19. maí kl. 20. Þar mun Steingrímur J. Sigfússon kynna hugmyndir sem þessi þingsályktunartillaga byggir á og segja okkur nýjustu fréttir af gangi mála. Þar verða fleiri þingmenn, fólk úr framsæknum fyrirtækjum, verkalýðshreyfingunni, svæðisvinnumiðlun og forsvarsmenn sveitarfélaga. Þetta fólk mun væntanlega láta í sér heyra og taka þátt í spennandi umræðu.
Fundurinn er öllum opinn, aðgangur ókeypis og kaffi í boði.

Þorvaldur Örn Árnason, formaður VG á Suðurnsejum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024