Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sýnum samstöðu, lokum augum og eyrum….. Höldum kjafti !
Miðvikudagur 22. september 2010 kl. 09:17

Sýnum samstöðu, lokum augum og eyrum….. Höldum kjafti !

Mikið var ég hissa á grein Hjálmars Árnasonar sem birtist hér á vefnum undir heitinu „Þurfum samstöðu sem aldrei fyrr.“ Þrátt fyrir að meiningin hafi verið góð þótti mér greinin missa algerlega marks. Hvað er það nákvæmlega sem Hjálmar vill fá út úr skrifum sem þessum?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að tala um að menn fari gegn einhverri samstöðu með því að viðra skoðanir sínar á vitleysunni hér er náttúrulega vægast sagt sérkennilegt.

Vissulega er þörf á samstöðu hér í Reykjanesbæ en hún fæst ekki með því að kæfa niður gagnrýna hugsun og málefnalega umræðu. Jafnt þeir sem fluttu hingað vegna fagurra fyrirheita sem og við sem erum hér borin og barnsfædd höfum alveg fullt leyfi til að gagnrýna störf meirihlutans í Reykjanesbæ síðustu árin. Eðlilega erum við áhyggjufull yfir þeirri stöðu sem bæjarfélagið okkar er í núna. Það þarf að spyrja margra spurninga og fá fram mörg svör áður en einhver raunveruleg samstaða næst fram. Sjálfstæðisflokkurinn hefur jú verið með hreinan meirihluta í Reykjanesbæ síðustu rúm 8 árin þannig að hann hlýtur að eiga einhvern þátt í þvi hvernig komið er fyrir okkur.

Ætli íbúum finnist í alvöru að leiðin til samstöðu sé að gera lítið úr þeim sem hafa eitthvað við störf Sjálstæðisflokksins og Árna Sigfússonar síðustu árin að athuga? Ætli íbúum hér finnist leiðin að samstöðu vera sú að óska eftir því við íbúana að þeir loki augum og eyrum gagnvart alvarlegri stöðu bæjarfélagsins - bara af því að það er orðið svo fallegt að ganga eftir ströndinni?

Er Hjálmar í alvöru að kalla eftir því að við séum ekki gagrýnin í hugsun?

Þetta náttúrulega gengur ekki.

Lykillinn að því að ná fram samstöðu er að mínu viti einmitt sá að við séum öll gagnrýnin.

Við erum í vanda. Og við eigum að spyrja okkur hvers vegna við erum í vanda, hvernig við komumst í þá stöðu sem við erum í, í dag. Vissulega er bærinn okkar orðinn fallegri, en hvað kostaði þessi fegurðaraðgerð okkur og hvað kemur hún til með að kosta afkomendur okkar? Hafa þetta verið ásættanleg býtti – hringtorg, sverð, símaklefi og strandgata fyrir skuldamet og eignamissi? Skapar fegurðin hamingjuna?

Nei. Við þyrftum óháðan aðila til að fara yfir það hvers vegna komið er svona fyrir okkur sem raun ber vitni. Það þyrfti að fara fram rannsókn á störfum meirhlutans í Reykjanesbæ síðustu árin, allt frá sölu eigna uppá velli til verktakasamninga þyrfti að skoða. Ég held að það gæti líka verið gott fyrir okkur að fara yfir það hvað gerst hefur í samstarfi sveitafélaganna hér á svæðinu síðustu árin, þar virðist hver höndin hafa verið uppi á móti annarri, t.d varðandi skipulagsmál. Óháða aðila þyrfti einnig að fá til að fara yfir stöðu álversframkvæmdanna í Helguvík - við getum ekki endalaust kennt öðrum um hvernig komið er fyrir okkur í því máli. Getur verið að undirbúningurinn fyrir komu álverksmiðjunnar hafi verið of glannalegur eða óvandaður af hálfu bæjaryfirvalda?

Við verðum að fara að létta andúmsloftið í okkar litla samfélagi og að mínu mati verður það bara gert með óháðri, málefnalegri og gagnrýninni rannsókn á störfum meirihlutans hér síðustu árin. Þannig gefst þeim líka sjálfum tækifæri til að gera hreint fyrir sínum dyrum.

Ótal spurningum er ósvarað. Forsenda þess að hægt sé að fara að tala um samstöðu er að skýrar niðurstöður liggi fyrir um raunverulega stöðu og framvindu mála.

Einn lærdómurinn er hugsanlega þessi: Of mikil völd í höndum of fárra manna er óæskilegt og varasamt fyrirkomulag. Mér hefur þótt stjórnmálin hér bera keim af einhverju sem ef til vill má kalla „lýðræðislegt einræði,“ jafn öfugsnúið og það kann að hljóma. Hreinn meirihluti ákveðins eins flokks er óæskilegur, sama hvaða stjórnmálaflokk um ræðir. Og leiðtogadýrkun blindar sýn. Mér finnst við finna fyrir óæskilegum afleiðingum slíks stjórnarfars, stjórnarfars þar sem fáeinir menn gátu valsað um og tekið misgóðar ákvarðanir án þess að bera þær undir nokkurn nema sjálfa sig.

Þrátt fyrir að ég vilji fá fram staðreyndir um hin ýmsu mál þýðir það ekki að ég sé á móti samstöðu. Ég tel mig vera ósvikinn suðurnesjamann og sem slíkur þykir mig vænt um það svæði. Að sjálfsögðu vil ég að hér byggist upp atvinna þannig að við getum haft tækifæri til fjölbreyttrar atvinnuþáttöku. En ég vil ekki að það sé bara gert eitthvað til að byggja upp atvinnu, ég vil ekki að það sé bara lofað hinu og þessu ef ekki er innistæða fyrir því. Kapp er best með forsjá.

Að skapa samfélag er eilíft verkefni. Það gerum við sérhvert augnablik í umgengni okkar hvert við annað. Sé það ásetningur manna að skapa stöðugt samfélag og jafnan rétt allra þurfa hinir sömu að beita málefnalegum rökum í orðræðunni og umfram allt að vera gagnrýnir á allar upplýsingar sem berast og hafa jafnframt opinn huga fyrir nýjum staðreyndum. Orðræða byggð á sérhagsmunagæslu er ólýðræðisleg. Slík orðræða hugsar í skammsýni sinni um sjálfa sig og fer gegn hagsmunum almennings, barna okkar og afkomenda.

Ef samstöðu á að skapa verður það einungis gert með því að þátttakendur stefni allir af einlægni að jöfnum rétti allra og virðingu fyrir náunganum, að þátttakendur standi á sama grunni en týni sér ekki í tækifærismennsku utan við ábyrga samfélagslega þátttöku.

Vonin býr í því að við lærum, því enn eigum við margt eftir ólært.

Kristján Reykdal
Suðurnesjamaður