Sýnum nærgætni og réttum fram hjálparhönd
Í dag er það miður sorgleg staðreynd að það eru einstaklingar í okkar samfélagi sem hafa ekki þak yfir höfuðið.
Raunveruleikinn er sá að af þeim fjölda sem eru á biðlista fyrir félagslegt húsnæði eru fimm einstaklingar sem skilgreina sig heimilislausa en auk þess er vitað um aðra fimm sem eiga í miklum vanda. Það gerir það að verkum að við horfum á samtals tíu einstaklinga sem eiga í verulegum vanda og hafa leitað til gistiskýlisins í Reykjavík eða í Konukot. Þau sofa jafnvel í bíl, úti eða í fangaklefa lögreglu að eigin ósk.
Það er ömurleg staða að hugsa til þess að það eru einstaklingar í þessum sporum, oft eru þetta einstaklingar sem glíma við fíknisjúkdóm auk annarra geðraskana. Sumir hverjir búnir að brenna allar brýr af baki sér og nánir ættingjar búnir að gefast upp á þeim. Einstaklingurinn kannski búinn að reyna allt til að ná bata og fara í meðferð en oftar en ekki ná margir ekki þeim markmiðum.
Þá kemur að hlutverki samfélagsins. Við þurfum að fara í þarfagreiningu á stöðu heimilislausra í Reykjanesbæ. Við þurfum að greina vandamálið og átta okkur á því. Byggja þarf fleiri smáhýsi og fara í markvisst starf með nýja stefnu í þjónustu við einstaklinga með miklar þjónustuþarfir. Mikilvægt er að smáhýsin séu í nálægð við almenningssamgöngur og aðra þjónustu sem nýtast þeim sem best, líkt og matvöruverslun, apótek, heilbrigðisþjónustu, geðræktarmiðstöðina Björgina og skrifstofu velferðarsviðs Reykjanesbæjar.
Reykjanesbær leigir tvö smáhýsi og hefur gert um árabil en einnig eru tvö önnur í byggingu. Horft er til þess að smáhýsin nýtist einstaklingum sem eru heimilislausir eða búa við miklar áskoranir tengt vímuefnavanda. Samkvæmt þessum tölum hér að ofan þá er mikil þörf fyrir fleiri smáhýsi til að koma á móts við þennan viðkvæma hóp samfélagsins okkar. Smáhýsin má einnig nýta sem skammtímaúrræði meðan verið er að vinna að langtímalausn einstaklingsins. Mikilvægt er að þjónustan einkennist af skaðaminnkandi nálgun með þarfir notenda í forgangi þar sem byggt er á valdeflingu, virðingu og þörfum einstaklingsins hverju sinni. Við þurfum að hætta að rægja þá sem eru í þessum sporum. Reynum frekar að sýna nærgætni og rétta fram hjálparhönd. Það er markmið okkar og vinnan framundan.
Sigurrós Antonsdóttir,
formaður velferðarráðs Reykjanesbæjar og varabæjarfulltrúi.