Sýnum börnum virðingu
Flestir eru sammála um að verkfall er neyðarúrræði sem því miður bitnar oft á þeim sem síst skyldi. Afleiðingar verkfalls grunnskólakennara eru nú farnar að segja til sín bæði á heimilum og vinnustöðum í landinu.
Gengið er á rétt barna og er vart hægt að hugsa sér verri áhrif á æsku landsins. Verkfallsrétturinn stendur framar rétti barnanna til náms og margir hafa í skólaumræðunni undanfarið rætt þann möguleika að endurskoða verkfallsrétt kennara. Mikil röskun er á öllu þjóðlífinu. Ómælt vinnutap og óþægindi fyrir foreldra og samstarfsmenn þeirra er farið að pirra fólk og álagið er mikið.
Heimili og skóli
- landssamtök foreldra
Foreldrar eru búnir að fá nóg og þolinmæði þeirra er á þrotum. Þeir vilja láta rödd sína heyrast og gera kröfu á landssamtök sín að láta málið til sín taka og beita stjórnvöld þrýstingi. Samtökin hafa ekki viljað blanda sér í deiluna en hafa gefið út nokkrar ályktanir, sent menntamálaráðherra opið bréf og formaður Heimilis og skóla - landssamtaka foreldra María Kristín Gylfadóttir hefur talað máli nemenda og foreldra í fjölmiðlum. Í grein sinni í Mbl. s.l. föstudag segir hún að skorað sé á ríkisstjórn landsins og menntamálaráðherra að vinna með deilendum að lausn málsins og að skapa þurfi sveitarfélögum skilyrði til að sinna þeirri ábyrgð sem á þau er lögð með lögum um grunnskóla. María Kristín talar um að íslenskt samfélag sé í uppnámi og að börnin búi við mikla óvissu. Stjórnarmenn Heimilis og skóla hafa skrifað greinar í blöð og aðaláherslan er lögð á velferð barna. Foreldrar eru hvattir til að standa með börnum sínum og huga vel að líðan þeirra, en þau hafa nú setið auðum höndum og búið við misjafnar aðstæður á undanförnum 4 vikum.
Eru börnin afgangsstærð?
Það ófremdarástand sem skapast hefur leggst þungt á börn. Félag íslenskra barnalækna og umboðsmaður barna hafa lýst yfir þungum áhyggjum af löngu verkfalli grunnskólakennara. Nú síðast lýsti Biskupinn yfir Íslandi þeirri skoðun sinni að óþolandi sé að kennarar beiti verkfallsvopni í kjaradeilu sinni og hann efast um gildismat þjóðarinnar. Hann talar um að nú höfum við enn eitt dæmið um að börnin séu afgangsstærð og varpar þeirri spurningu fram hvort þjóðin hafi misst sjónar á hinum raunverulegu verðmætum.
Ljósi punkturinn í verkfallinu
Vegna verkfallsins hafa umræður um skólamál aukist í samfélaginu eins og sjá má á síðum dagblaðanna. Því ber að fagna og er eflaust eini ljósi punkturinn í stöðunni að stöðugt fleiri foreldrar mynda sér nú skoðun á grunnskólanum og því mikilvæga starfi sem þar fer fram. Foreldrar hafa komið með ýmsar nýjar hugmyndir og tillögur til Heimilis og skóla og hvatt til þess að skapaður verði vettvangur til að ræða nánar um þær. Samtökin hafa verið í stöðugu sambandi við foreldrafélög víða um land og um helgina heyrðust hvatningarorð og áskoranir til deiluaðila reglulega í útvarpinu frá foreldrum og langþreyttum nemendum.
Til að framtíðarlausn náist telja foreldrar að samfélagið þurfi að tileinka sér jákvæðari viðhorf til skólastarfs og hefja það til vegs og virðingar. Í því felst að sátt náist um að kjör kennara verði í samræmi við mikilvægi þess starfs sem þeir gegna.
Það eru eindregin tilmæli Heimilis og skóla að foreldrar hafi samstarf og samráð sín á milli í verkfalli kennara og þrýsti á sveitastjórnir í sinni heimabyggð að beita sér við að finna lausn í þessu máli. Ég vil hvetja foreldra til að taka sér frí eftir hádegi á fimmtudag til þess að vera með börnum sínum. Í því ástandi sem ríkir í samfélaginu okkar þarf að huga sérstaklega að þörfum þeirra og vellíðan.
Helga Margrét Guðmundsdóttir
VF-mynd/ Oddgeir Karlsson