Sýning grunnskólanema í Sandgerði
Nemendur í yngri deild Grunnskólans í Sandgerði hafa á undanförnum vikum verið að vinna þemaverkefni tengt heimabyggð sinni. Nemendurnir eru í 1. - 6. bekk og hafa fræðst um sögu Sandgerðis, þjóðsögur úr heimabyggðinni, kynnt sér eldri húsin í bænum, rithöfunda bæjarins, gert námsspil, skoðað atvinnulífið, fuglalífið og notið nálægðarinnar við sjóinn og Fræðasetrið sem býr yfir mörgum áhugaverðum verkefnum og "leyndarmálum" úr hafinu.
Sérstaklega var unnið að verkefnum tengdum Hallgrími Péturssyni sem þjónaði á Hvalsnesi um árabil. Flestar námsgreinar voru samþættar og námsefnið lagað að svæðinu. Námsefnið var unnið beint upp úr þeim upplýsingum sem nemendur fundu á heimasíðu Sandgerðisbæjar og í bókum tengdum svæðinu. Verkefnin hanga nú á gangi Grunnskólans og var sýningin formlega opnuð á sal skólans þar sem bæjarstjóranum okkar Sigurði Val var boðið. Allir nemendur fengu bæjarmerkið í barminn í viðurkenningarskyni frá bæjarfélaginu.
Kveðja,
Fanney Dóróthea deildarstjóri