Svör Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja
Svör við spurningum formanns Styrktarfélags HSS og varaformanns FEBS í Víkurfréttum 28. febrúar 2013
Áhrif hrunsins. Það er nauðsynlegt að rifja upp að frá árinu 2008 höfum við þurft að draga saman í rekstri um 25%. Þegar slíkt gerist þarf að forgangsraða, þ.e. hvaða þjónusta kemur sér best fyrir flesta íbúa og hvernig forgangsröðun heilbrigðisþjónustunnar er í lögum um heilbrigðisþjónustu. Sú forgangsröðun hefur verið virt. Heilbrigði íbúa á Suðurnesjum er ekki háð rekstri skurðstofa eða fæðingaþjónustu heldur almennri grunnþjónustu, þ.e. heilsugæslu, almennri hjúkrunar- og öldrunarþjónustu, heimahjúkrun, almennum lyflækningum og slysa- og bráðaþjónustu. Skurðlækningar og áhættufæðingar flokkast ekki undir almenna heilbrigðisþjónustu heldur sérhæfða þjónustu.
Almennur læknaskortur. Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum að á Íslandi er skortur á læknum. Við á HSS erum ekki verst sett, þó við vildum gjarnan hafa fleiri starfandi lækna. Yfirlýsingar og dylgjur sem gjarnan hafa heyrst í okkar garð, laða ekki að dýrmætt fólk til starfa, hvorki lækna, hjúkrunarfræðinga né annað starfsfólk. Það gerir það frekar að verkum að fólk tekur ákvarðanir „með fótunum“.
Allt það góða sem er gert. Það er umhugsunarefni af hverju aldrei er minnst á allt það sem vel er gert á HSS en það er margt. Við höfum frábært starfsfólk sem vinnur af metnaði, við erfiðar kringumstæður og leggur mikið á sig. Þetta starfsfólk fær ekki mikla jákvæða hvatningu frá samfélaginu. Á HSS hefur mikil uppbygging átt sér stað í heilsugæslunni, það eru nefnilega fleiri starfsmenn en læknar sem þar sinna verðmætu starfi. Við erum með öfluga hjúkrunarmóttöku sem sinnir umfangsmiklu hlutverki; við erum með sykursýkismóttöku, eina þá framsýnustu á landinu; við erum í fararbroddi í þjónustu við geðfatlaða en sú þjónusta hefur verið í þróun frá árinu 2005 og er til fyrirmyndar á landinu öllu. Við rekum mjög góða öldrunar- og hjúkrunarþjónustu og bið hjá okkur er nánast engin, hverju sem er haldið fram á öðrum vettvangi; heimahjúkrunin er frábær og kemur í veg fyrir óþarfa innlagnir á sjúkrahúsið og flýtir fyrir útskriftum annarra. Slysa- og bráðadeildin afkastar ótrúlega miklu þrátt fyrir fátt starfsfólk og óhentug húsakynni. Sjúkrahúsið er með öfluga almenna sjúkradeild þar sem úrvalsstarfsfólk vinnur (ennþá) og veitir fyrsta flokks þjónustu. Samstarf milli deilda og stétta er gott á HSS og sennilega með því besta sem gerist. Það er góð samvinna á milli HSS og heimaþjónustu sveitarfélaganna og það er gott samstarf við Landspítalann.
Hvað gengur fólki til með endalausum niðurrifsskrifum um starfsemina í stað þess að sjá eitthvað jákvætt við störf okkar?
Svör við spurningum. Varðandi spurningar formanns styrktarfélags HSS og varaformanns FEBS skal því svarað hér að neðan. Það hefði hins vegar verið auðvelt fyrir ritara greinarinnar að fá allar meðfylgjandi upplýsingar með því að lyfta upp símtóli eða koma til okkar í heimsókn. Við erum alltaf boðin og búin að taka á móti fólki og kynna starfsemina.
1. Á hvaða forsendum fæst starfsfólk ekki til að vinna á skurðstofum?
Almenn þróun á Íslandi og reyndar um allan heim er sú að sérhæfð og kostnaðarsöm þjónusta eins og t.d. skurðlækningar og fæðingaþjónusta sem getur krafist inngripa (áhættufæðingar) færist yfir á stærri stofnanir þar sem auðveldara er að tryggja öryggi skjólstæðinga. Það getur því verið mjög erfitt að manna slíka þjónustu á smærri stöðum. Það var t.d. sérstaklega erfitt að fá svæfingalækna á HSS og þurfti að flytja þá reglulega inn frá Svíþjóð á síðustu starfsárum skurðstofu HSS með ærnum kostnaði. Svæfingalæknar á LSH vildu ekki vinna á HSS. Einnig getur verið erfitt að fá skurðlækna til starfa í mörgum sérgreinum á minni stofnunum. Skurðstofurnar hjá okkur voru ekki starfandi nema hluta af vikunni og með mjög takmörkuðum bakvöktum í mörg ár og öryggi t.d. gagnvart fæðandi konum því mjög falskt eins og margoft hefur verið upplýst um. Skurðlækningar krefjast mikillar þjálfunar og hver skurðlæknir þarf ákveðinn fjölda sjúklinga til að halda færni sinni. Á smærri stofnunum er erfitt að tryggja að skurðlæknar, svæfingalæknar og annað starfsfólk fái nægilega þjálfun, mistök verða tíðari og öryggi sjúklinga kann því að vera ógnað. Í dag er fagfólk ekki tilbúið til að taka slíka áhættu og vinna við slíkar aðstæður.
2. Á hverra höndum er í dag, ákvarðanataka um rekstur?
Framkvæmdastjórn tekur ákvarðanir um rekstur, en tekur þær byggðar á upplýsingum frá fagfólki, lögum um heilbrigðisþjónustu, m.a. um forgangsröðun þjónustu og fjárlögum. Samráð í öllum meginatriðum er við velferðarráðuneytið og starfsfólk þess.
3. Hver er framtíðarsýn þín og/eða rekstraraðila á rekstri HSS?
Framtíðarsýn um heilbrigðisþjónustu á Íslandi hefur tekið miklum breytingum frá hruni, sem hefur haft afdrifaríkar afleiðingar á starfsemi HSS (og allra heilbrigðisstofnana). Þjónustan hefur því tekið breytingum á s.l. áratug sem hafa þó alls ekki allar verið til ills. Almenna reglan er sú að sérhæfðasta, sjaldgæfasta og kostnaðarsamasta þjónustan er veitt á höfuðborgarsvæðinu. Grunnþjónusta og almenn sjúkrahúsþjónusta er veitt á landsbyggðinni. Áfram er stuðst við forgangsröðun í anda laga um heilbrigðisþjónustu. Heilsugæslan er sett í forgang. Síðan er það almenn sjúkrahúsþjónusta, en í henni felst almennar lyflækningar og endurhæfing. Heimahjúkrun, hjúkrunar- og öldrunarþjónusta er umfangsmikil. Slysa- og neyðarþjónusta er veitt allan sólarhringinn alla daga ársins.
4. Hvernig er ráðningu lækna háttað í dag?
Mikill skortur er á læknum á Íslandi í dag eins og áður hefur verið minnst á. Þeir læknar sem hingað leita og uppfylla kröfur eru ráðnir skv. kjarasamningum lækna. Mikill tími hefur reyndar farið í að leita uppi lækna og fá þá hingað í vinnu. Einungis 2-3 læknar búa hér á svæðinu og er einn þeirra á förum. Þetta er umhugsunarefni, hvað veldur? Af þeim læknum sem hér starfa eru margir að minnka við sig vinnu. Sömu þróun má sjá víða um landið.
5. Hvers vegna hafa Suðurnesjamenn ekki heimilislækna?
Væntanlega er hér átt við ákveðna heimilislækna. Hér starfa að meðaltali 6-10 sérfræðingar í heimilislækningum og með unglæknum er þeir 12 - 15. Á læknum heilsugæslunnar hvílir mikil vaktabyrði og um leið ávinna þeir sér frí eftir vaktir. Vegna þessara áunninna fría, er fjöldi lækna ekki nægilegur til að bjóða íbúum upp á að hafa ákveðinn heimilislækni. Það fyrirkomulag sem er við lýði þjónar fleirum.
6. Eru læknar ráðnir með það í huga að þeir vinni að hluta hjá Heilsugæslu Suðurnesja og hluta til erlendis eða á landsbyggðinni?
Læknar sem hér starfa eru ráðnir á HSS, hvað þeir gera í sínum uppsöfnuðu og lögbundnu fríum er þeirra mál eins og hjá öllu öðru starfandi fólki.
7. Er talið að það þjóni fólkinu hér best að læknar stoppi stutt við og séu helst viðlátnir í 1-2 vikur í senn?
Nei, það segir sig sjálft, helst vildum við hafa sem flesta lækna í föstu starfi til langs tíma og margir læknar hafa starfað á HSS árum saman. Kannski að samfélagið ætti að horfa í eigin barm og athuga hvort hægt sé að taka betur á móti dýrmætu „aðkomufagfólki“ og meta betur við það það sem vel er gert.
8. Er það í þágu okkar Suðurnesjamanna að Fæðingadeildin sem talin var ein af þeim bestu á landinu verði í komandi framtíð lögð af?
Það er eftirsjá að vinsælli og góðri fæðingadeild eins og fæðingadeild HSS hefur verið. En tímarnir breytast. Fæðingum hefur fækkað mikið eins og alls staðar á landsbyggðinni. Deildin er nú rekin sem Ljósmæðravakt af ljósmæðrum á svipaðan hátt og á Selfossi, þ.e. áhersla er áfram á meðgönguvernd, heilbrigði kvenna og þjónustu til heilbrigðra fæðandi kvenna sem ekki eru í áhættumeðgöngu eða hafa fyrirsjáanleg vandamál í fæðingu. Áfram verður reynt að þróa þjónustu til hagsbóta fyrir sem flesta. Hvað framtíðin ber í skauti sér er erfitt að sjá fyrir en öryggi móður og barns verður alltaf að vera í öndvegi.
9. Er stjórnendum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja heimilt að lána eða gefa tæki sem félagasamtök, einstaklingar og fyrirtæki hafa gefið til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja?
Engin gjafatæki hafa verið lánuð, gefin eða seld. Þetta er margbúið að koma fram.
Með von um að Suðurnesjabúar læri að meta það sem vel er gert á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Við erum ekki hafin yfir gagnrýni en við förum fram á faglega og málefnalega umræðu um starfsemina um leið og okkur þætti vænt um að íbúar reyni að sjá allt það góða sem hér er gert. Ekki síst á niðurskurðartímum. Að veita okkur stuðning á erfiðum tímum væri vel þegið.
Framkvæmdastjórn
Sigríður Snæbjörnsdóttir, forstjóri
Elís Reynarsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs
Sigurður Þór Sigurðarson, framkvæmdastjóri lækninga
Þórunn Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar
Hjúkrunarstjórn
Bryndís Sævarsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur sjúkrahúsi
Edda Bára Sigurjónsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur Víðihlíð
Hrönn Harðardóttir, yfirhjúkrunarfræðingur geðsviðs
Ingibjörg Steindórsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur heilsugæslu Reykjanesbæ
Jónína Birgisdóttir, yfirljósmóðir
Laufey Birgisdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur heilsugæslu Grindavík
Lækningastjórn
Fjölnir G. Guðmundsson, staðgengill yfirlæknis heilsugæslu
Konráð Lúðvíksson, kvensjúkdómalæknir og yfirlæknir
Snorri Björnsson, yfirlæknir heilsugæslu
Steingerður A. Gunnarsdóttir, yfirlæknir sjúkrahúsi
Formenn ráða
Ástríður Sigþórsdóttir, formaður starfsmannaráðs
Bragi Þór Stefánsson, varaformaður læknaráðs
Garðar Örn Þórsson, formaður hjúkrunarráðs
Jón B.G. Jónsson, formaður læknaráðs