Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Svona gerum við Reykjanesbæ lýðræðislegri
  • Svona gerum við Reykjanesbæ lýðræðislegri
    Eysteinn Eyjólfsson bæjarfulltrúi
Þriðjudagur 25. mars 2014 kl. 14:49

Svona gerum við Reykjanesbæ lýðræðislegri

– Eysteinn Eyjólfsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar skrifar

Ný bæjarstjórn Reykjanesbæjar sem tekur við eftir kosningarnar 31. maí hefur alla möguleika og tækifæri til þess að gera stjórnun bæjarins og rekstur opnari, gegnsærri og lýðræðislegri.  Samfylkingin og óháðir munu setja gegnsæi og aukið íbúalýðræði á oddinn í komandi kosningum líkt og fyrr enda hvorugtveggja meðal mikilvægusta grunnsstoða heilbrigðs samfélags.   
 
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram tillögu um skipan sérfræðinefndar haustið 2010 til að taka út og skoða rekstur og stjórnun Reykjanesbæjar -  líkt og gert var í Kópavogi og Reykjavík á vakt jafnaðarmanna.  Tillagan var felld af sjálfstæðismönnum. Sérfræðinefndirnar í Reykjavík og Kópavogi gerðu sínar úttektir og komu með ábendingar og tillögur að breytingum á reglum, vinnubrögðum og skipulagi stjórnsýslu bæjarfélaganna sem nýttust til betri vinnulags.
 
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur þó sameinast í nokkrum tilvikum og tekið skref í lýðræðisátt. Siðareglur kjörinna fulltrúa voru samþykktar samhljóða og Ungmennaráði Reykjanesbæjar komið á laggirnar haustið 2011. Ungmennaráðið er skipað 13 fulltrúum ungmenna yngri en 18 ára og fundar með bæjarstjórn árlega – það eru jafnan skemmtilegustu og uppbyggilegustu bæjarstjórnarfundirnir.

Íbúar geta krafist borgarafunda og kosninga
Þá urðu ný sveitarstjórnarlög ríkisstjórnar jafnaðarmanna - sem gerðu auknar kröfur um ábyrgra fjármálastjórnun í sveitarfélögum og aukið íbúalýðræði –  til þess að bæjarstjórnin einhenti sér í að breyta bæjarmálasamþykkt Reykjanesbæjar og setti fyrst bæjarstjórna inn ákvæði um borgarafundi og almennar atkvæðagreiðslur. Íbúar Reykjanesbæjar geta nú í fyrsta sinn krafist borgarafundar og almennrar atkvæðagreiðslu sbr. 80. gr. bæjarmálasamþykktar. 10% af þeim sem kosningarétt hafa geta óskað borgarafundar og 25% óskað almennrar atkvæðagreiðslu.
 
Alltof oft hafa afdrífarík mál verið afgreidd í hasti af meirihluta sjálfstæðismanna undanfarin ár án þess að vera kynnt bæjarbúum nægjanlega, eins og t.d. sala HS, EFF nauðungarsamningarnir, samningurinn við Hrafnistu, salan á hlutnum í HS-veitum - svo nokkur dæmi séu nefnd. Við bæjarfulltrúar Samfylkingar vildu hafa mörkin lægri og tryggja skýlausan rétt bæjarbúa til þess að taka ákvarðanir milliliðalaust um stórmál en fengum það ekki í gegn. En við fögnum því að nú geta bæjarbúa krafist borgarafundar og/eða almennrar atkvæðagreiðlsu sem er mikilvægur áfangi.

Hagsmunir og tengsl bæjarfulltrúa verði skráð
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram tillögu að reglum um hagsmunaskráningu bæjarfulltrúa á kjörtímabilinu. Samkvæmt þeim áttu bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ að skrá hagsmuni sína og tengsl fyrir opnum tjöldum á vefsíðu bæjarins. Reglurnar voru sambærilegar skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings samþykktar vorið 2009 sem finna má á althingi.is. Tillögunni var vísað til nefndar. Við munum leggja tillöguna aftur fram í bæjarstjórn eftir kosningar.

Aukum gegnsæi og íbúalýðræði
Íbúar eiga rétt á að vera upplýstir um hagsmuni kjörinna fulltrúa og stöðu bæjarins og eiga rétt á að krefjast upplýsinga og að taka ákvarðanir sjálfir í mikilvægum málum. Það hetum við gert t.d. með því að breyta bæjarmálasamþykktinni þannig að færri íbúa þurfi til að krefjast borgarfundar og íbúakosningu en nú er, með því að nýta nýja upplýsingavefi bæjarins til þess að kjósa um mikilvæg mál og með því að koma á öldungaráði og efla ungmennaráðið. Gegnsæi tryggjum við m.a. með því að opna bókhald Reykjanesbæjar, með því að setja reglur um hagsmunaskráningu bæjarfulltrúa og með því að skerpa skilin á milli embættismannakerfis og kjörinna fulltrúa – stjórnmálamanna.

Það er ekkert mál að gera bæinn okkar lýðræðislegri – við þurfum bara að breyta áherslum í bæjarstjórn. Og það geta bæjarbúar gert í kosningunum 31. maí!

Eysteinn Eyjólfsson
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024