Svölurnar með jólakortasölu
Eins og mörg undanfarin ár munu Svölurnar selja jólakort um allt land og þar eru Suðurnesin ekki undanskilin. Svölurnar eru félag flugfreyja og þjóna sem hittast og styrkja gömul vinabönd. Samtökin er líka styrktarfélag og hafa verið að styrkja bæði samtök og einstaklinga. Undanfarið hafa Svölurnar styrkt MND félagið, MS félagið og Ljósið. Þá hafa þær styrkt börn með sjaldgæfa sjúkdóma en þá fer styrkurinn til þeirra sem eru að leita að lækningu við þessum sjúkdómum.
Jólakortin eru með veglegra móti í ár vegna þess að þetta er 40 ára afmælisár Svalanna. Þau eru þrenns konar og eru 6 í búnti og kostar búntið 1000 krónur. Sölustaðir á Suðurnesjum eru HSS, Álnabær, Ásjá Nesvöllum, Lyfja Njarðvík og Lyfja Grindavík.
„Það er gaman að segja frá því að þegar Oddný Björgólfsdóttir byrjaði að fljúga árið 1968, var hún eina flugfreyjan á Suðurnesjum. Auk hennar voru á svæðinu einn flugstjóri, einn flugmaður og einn flugvélstjóri og bjuggu þau öll í Háholtinu og Langholtinu. Núna eru u.þ.b. 80 flugliðar búsettir á svæðinu. Við viljum nota tækifærið og benda öllum sem hafa einhvertímann verið í fluginu að koma með okkur í Svölurnar. Skiptir þá engu hversu langt er síðan það var eða hversu lengi þú varst í háloftunum. Spurningin er að vera með í skemmtilegum félagsskap á sama tíma og við erum að láta gott af okkur leiða. Suðurnesjafólki færum við hjartans þakkir fyrir frábæran stuðning tvö undanfarin ár og vonum að okkur verði vel tekið þetta árið.“
Fyrir hönd Svalanna á Suðurnesjum
Oddný Björgúlfsdóttir, Sigríður Jóna Jónsdóttir, Guðrún Hildur Jóhannsdóttir og Anna Lóa Ólafsdóttir.