Svelt til sameiningar
Ríkisstjórnin setti í fyrra á fót nefnd til að efla sveitarstjórnarstigið. Hún hefur lítið gert til að treysta fjárhagsgrundvöll sveitarfélaga sem flest safna skuldum því þau hafa undanfarinn áratug fengið kostnaðarsöm verkefni á sínar herðar án þess að nægjanlegir tekjustofnar fylgdu. Auk þess hafa útsvarstekjur þeirra verið skertar með því að ýta undir stofnun einkahlutafélaga. Mörg sveitarfélög hafa lengt í hengingarólinni með því að selja eignir. Fjárhagsvandi þessi á ekki einungis við lítil sveitarfélög heldur einnig flest þeirra stóru. Þennan vanda hefur nefndin ekki leyst.
Nefndin hefur þó komið því í verk að senda frá sér illa grundaðar tillögur um að fækka sveitarfélögum og virðast menn á þeim bæ trúa því að hægt sé að bjarga fjárhag skuldugra félaga með því að sameina þau. Áttundi október verður dómsdagur margra sveitarfélaga um land allt.
Nefnd þessi lagði í upphafi til að öll sveitarfélögin á Suðurnesjum renni saman í eitt. Sú tillaga fékk dræmar undirtektir en samt var ákveðið að 8. október verði kosið um sameiningu annars vegar Garðs og Sandgerðis við Reykjanesbæ og hins vegar Vatnsleysustrandarhrepps við Hafnarfjörð. Hér eru lagðar til sögulegar, róttækar breytingar á félagskerfi okkar Suðurnesjamanna. Þetta hefur hingað til gengið ótrúlega hljóðlega fyrir sig og er hægt að telja á fingum annarrar handar þá pistla sem birst hafa um þessi mál í Suðurnesjapressunni. Sérstakir umræðuvefir sem settir hafa verið upp á netinu eru tómir. Hvað er hér á seyði? Er fólki sama um framtíðina og örlög sín? Er okkur sama um sveitarfélögin okkar? Viljum við láta svelta okkur til sameiningar?
Vatnsleysustrandarhreppur mátulega stór
Við fjölskyldan fluttum í Vogana fyrir 7 árum m.a. vegan þess að hér er lítið og friðsamt samfélag þar sem auðveldara er að hafa áhrif á hvað gert er og móta þannig framtíðina. Sveitarstjórnin hafði þá sett markmið um að efla hér fjölskylduvænt samfélag og fjölga íbúum. Síðan hefur mikið verið byggt og íbúar orðnir rétt um eitt þúsund og fjölgar ört. Vatnsleysustrandarhreppur er meðalstórt sveitarfélag á íslenskan mælikvarða, að mínu mati hæfilega stórt. Reykjavík er hins vegar of stórt sveitarfélag og mætti gjarna skipta henni í nokkur sveitarfélög til að efla þar lýðræði.
Skoðanakönnun - með svipuna yfir sér
Þegar sveitarfélaganefndin lét þau boð út ganga að greidd skyldu atkvæði um sameiningu allra sveitarfélaga á Suðurnesjum réð hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps ráðgjafarfyrirtækið ParX til að hringja í alla fullorðna hreppsbúa. Það náðist í 581 og tæp 80% þeirra svöruðu.
Eðlilegt hefði verið að byrja á því að spyrja hvort menn vildu heldur: sameinast einhverjum eða vera áfram sjálfstætt sveitarfélag, en það var ekki gert. Fyrsta spurningin hljóðaði svo: “Getur þú hugsað þér að Vatnsleysustrandarhreppur sameinaðist einhverju öðru sveitarfélagi?” Þá kom í ljós að 63% þeirra sem svöruðu “gátu hugsað sér” sameiningu við eitthvert sveitarfélag. Ekki þar með sagt að þeir vildu sameinast ef þeir ættu um það frjálst val. Ég get t.d.vel hugsað mér að gera ýmislegt sem ég vil þó helst vera laus við.
Þeir sem sögðust ekki geta hugsað sér að sameinast neinum fengu því næst spurningu sem ber þess augljós merki að þeir sem létu semja hana voru með svipu Reykjavíkurvaldsins yfir sér. Spurningin hljóðaði svo: “Ef Vatnsleysustrandarhreppur stæði frammi fyrir því að verða að sameinast einhverju öðru sveitarfélagi, hvers konar sameining þætti þér skásti kosturinn?” Ég var í þeim hópi sem fékk þessa spurningu. Ég varð eiginlega kjaftstopp, en lét þó út úr mér að e.t.v. væri skásti kosturinn að sameinast Hafnarfirði. Þetta sagði ég að óhugsuðu máli, enda hafði engin umræða verið um sameiningarmál þau 7 ár sem ég hef búið hér. Konan mín tók þá skynsamlegu ákvörðun að neita að svara könnuninni og lenti þar með í hópi þess fjórðungs íbúa sem ekki fengust svör frá. Hún er mjög á móti sameiningu og mig grunar að svo sé um fleiri þeirra sem ekki fengust svör frá.
Þessi könnun hefur verið túlkuð þannig að meirihluti íbúa Voga og Vatnsleysustrandar vilji sameiningu. Sú túlkun er út í hött. Enn liggur hvergi fyrir hvað íbúar vilja gera ótilneyddir. Það er þó ljóst að í desember sl. mátu þeir sameiningu við Hafnarfjörð skárri kost en sameiningu við Reykjanesbæ eða Grindavík. Þá ber að hafa í huga að engin almenn umræða átti sér stað áður en könnunin var gerð. Hreppsnefnd hafði þó sent út bréf þar sem könnunin var boðuð og fólki bent á að kynna sér tillögur sveitarfélaganefndar á vefnum.
Góð ráð og dýr
Nú eru liðnir 8 mánuðir síðan niðurstöður könnunarinnar lá fyrir ásamt vafasamri túlkun hennar. Enn hefur enginn hreppsbúi tjáð sig um málið á prenti nema oddvitinn og sveitarstjórinn, að ég best fæ séð. Nú eru góð ráð dýr og stutt til dómsdags, 8. október. E.t.v. er óþarfi fyrir almenna hreppsbúa að ómaka okkur því sveitarstjórnin hefur ráðið fyrirtækið ParX til að segja okkur bæði kost og löst á þessu öllu fyrir 2 ½ miljón króna. Það er ekki mikill peningur þegar mikið er í húfi, en mér finnst þó rétt að við reynum sjálf að skoða þetta mál frá sem flestum hliðum og meta á eigin forsendum. Eðli máls samkvæmt mun ParX fá megnið af sínum upplýsingum frá sveitarstjórnunum. Það kæmi mér á óvart að ráðgjafarfyrirtækið muni ónáða almenna hreppsbúa öllu frekar en með símaspurningunum í desember sl.
Heyrst hefur að halda eigi kynningarfund skömmu fyrir dómsdag. Ég tel mikilvægt að sem flestir hreppsbúar mæti það vel undirbúnir á þann fund að þeir hafi eitthvað um málið að segja og viti hvers þeir vilji spyrja.
Sameining eða innlimun
Ef sveitarfélögin Hafnarfjörður og Vatnsleysustrandarhreppur verða sameinuð yrðu íbúar Vatnsleysustrandarhrepps innan við 5% í búa hins nýja sveitarfélags. Svo mátt þú, lesandi góður, geta þrisvar hvað sameinaða sveitarfélagið muni heita.
Þegar stærðarmunur er svo mikill er nær að tala um innlimun eða yfirtöku, að Vatnsleysustrandarhreppur verði innlimaður í Hafnarfjörð eða að Hafnarfjörður muni yfirtaka nágrannasveitarfélag sitt – eða gleypa það. Það er eftir miklu að slægjast fyrir Hafnarfjörð sem myndi meira en tvöfalda landrými sit með tilheyrandi náttúruauðlindum og gríðarmiklu byggingarlandi. En hvað myndum við Vogabúar græða á slíkri yfirtöku? Víst er vandi um slíkt að spá. Ég hef heyrt fólk benda á þjónustu sem við sækjum hvort eð er til Hafnafjarðar eða Reykjanesbæjar og að Hafnarfjörður greiði t.d. meira niður íþróttaþjálfun barna. Á móti kemur að fólk þarf að bíða lengur eftir leikskólaplássi í Hafnarfirði og þar munu vera langir biðlistar í tónlistarnám.
Sjálfstætt sveitarfélag eða útkjálki?
Við megum ekki láta fáein praktísk atriði ráða atkvæði okkar 8.október. Við verðum að hugsa málið í víðu samhengi og spyrja okkur spurninga sem þessara:
Erum við sátt við að Vatnsleysustrandarhreppur verði þurrkaður út af Íslandskortinu? Sveitarfélag sem hefur verið til síðan á söguöld og var um tíma með þeim öflugustu á landinu?
Við höfum margvísleg formleg samskipti við hin sveitarfélögin á Suðurnesjum og erum fullgildir aðilar að þeirri samvinnu. Erum við tilbúin að klippa á þau samskipti og gerast útkjálki Hafnarfjarðar? Útnári höfuðborgarsvæðisins?
Viljum við að börnin okkar hætti að ganga í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en senda þau í Flensborg? Hætta samvinnu við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar?
Trúir því einhver að við munum hafa einhver teljandi áhrif á stjórn hins nýja sveitarfélags?
Treystum við því að við gætum áfram haft fjölskylduna og fólkið í fyrirrúmi og haldið umhverfi okkar lítt spilltu?
Sveitarfélagið myndi skiptast í tvö kjördæmi því við myndum áfram teljast til Suðurkjördæmis, nema stjórnarskránni verði breytt.
Ekki yrði aftur snúið
Horfum til reynslu þeirra sem þegar hafa sameinast. Sums staðar hefur vel til tekist en annars staðar óska menn þess heitast að geta horfið aftur til fyrra sjálfforræðis. Svarfdælingar leyfðu Dalvík að gleypa sig fyrir fáeinum árum og var lofað öllu fögru, m.a. að þeir myndu halda skólanum sínum sem var á margan hátt til fyrirmyndar með um 50 nemendur. Það loforð var svikið og samkvæmt nýlegri könnun vilja yfir 80% íbúa Svarfaðardals kljúfa sig aftur frá Dalvík. Það geta þeir hins vegar ekki. Þykkbæingar eru líka illa sviknir og fleiri dæmi mætti nefna.
Sú sameining sem hér um ræðir er í eðli sínu einstefna. Það verður ekki aftur snúið. Öll loforð sem gefin eru í sameiningarumræðu eru marklaus. Það verða sveitarstjórnarkosningar í vor og þeir sem þá verða kosnir eru óbundnir af loforðum sem núverandi sveitarstjórnarmeirihlutar gefa.
Ég er ekki með þessu að segja að allt verði hér ómögulegt ef Hafnarfjörður yfirtekur okkur. Við þurfum varla að óttast að grunnskólinn eða leikskólinn verði lagðir niður í sparnaðaræði eftir næstu kosningar, til þess erum við of fjölmenn. En við skulum ekki ana að neinu. Ef við erum í vafa er vissara að segja nei.
Þorvaldur Örn Árnason