Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 3. desember 2002 kl. 15:06

Sveitarstjórapyngjan

Hvenær hefur maður há laun og hvenær hefur maður ekki há laun? Hvenær vinnur maður fyrir kaupinu sínu og hvenær ekki ? Launamál sveitarstjóra í Vatnsleysustrandarhreppi hafa verið í brennidepli undanfarið. Hreppsnefndarfulltrúi í minnihluta hefur farið geyst í bókunum um málið á hreppsnefndarfundum og nú síðast hér í blaðinu. Dæmið er sett þannig upp að nú verði hvert mannsbarn í hreppnum að safna mánaðarlega í pyngju sveitarstjóra. Fyrst var upphæðin eittþúsunda krónur á mánuði á mann. Síðan fór fulltrúinn að reikna aftur og ákvað þá að lækka þessa upphæð svolítið og hafði það þá tæpar þúsund krónur á mánuði. Ekki þarf að ganga í hús mánaðarlega og safna í pyngjuna heldur berast launin til sveitarstjóra með öðrum og nýtískulegri hætti í gegnum bankakerfið ! En hvað gerir svo sveitarstjórinn fyrir öll þessi laun? Hér koma nokkrar staðreyndir í málinu.

Laun sveitarstjóra

Laun sveitarstjóra í Vatnsleysustrandarhreppi eru ekkert leyndarmál og hafa aldrei verið það, ekki heldur gagnvart minnihluta hreppsnefndar. Launin eru greidd af skatttekjum íbúanna og þeir eiga rétt á því að vita í hvað skattarnir fara . Sveitarstjóri hefur kr. 614 þúsund í mánaðarlaun. Þetta eru jú ágæt laun, ekki skal því mótmælt. En hvað fá íbúar hreppsins í staðinn? Skoðum málið aðeins betur. Sveitarstjóri gegnir einnig stöðu félagsmálastjóra. Gott og vel. Laun félagsmálastjóra eru algeng í dag í kringum kr. 350 þúsund á mánuði. Setjum sem svo að við myndum ákveða að ráða félagsráðgjafa / sálfræðing til starfa, til að gegna stöðu félagsmálastjóra. Hálft stöðugildi myndi væntanlega duga okkur til að byrja með þ.e.a.s. 50% starfshlutfall. Það gera laun upp á kr. 175 þúsund á mánuði. Ef við síðan drögum þá upphæð frá launum sveitarstjóra þá erum við komin í kr. 439 þúsund. Sem sagt, ef við færum þessa leið, að ráða félagsmálastjóra, myndu laun sveitarstjóra lækka í kr. 439 þúsund. Það er einmitt sú upphæð sem fulltrúinn í minnihlutanum var tilbúinn að greiða þegar ráðningarsamningurinn var ræddur í hreppsnefnd. Nefndi töluna 400-450 þúsund. Það sem mestu skiptir í þessu öllu saman er að raungildi launakostnaðar er hið sama. Á mannamáli þýðir þetta að við myndum ekki spara neitt með því að ráða nýjan félagsmálastjóra, nema síður sé.
Hvernig sem á þessar tölur er litið þá er ljóst að laun sveitarstjóra eru fyllilega í samræmi við það sem gengur og gerist í þeim efnum. Miðað við þá auknu starfsskyldu, sem hér hefur verið tilgreind, eru launin lægri ef eitthvað er.

Að vinna fyrir kaupinu

En tölum næst svolítið um það hvort að sveitarstjórinn hafi unnið fyrir kaupinu sínu.
Sveitarstjóri átti hugmyndina að markaðssetningunni; “Vogar færast í vöxt” og framkvæmdi hana. Lagði hún gríðarlega mikla vinnu í átakið og fékk góðan stuðning frá fyrrverandi oddvita og hreppsnefnd. Markaðssetningin vakti verðskuldaða athygli og hefur m.a. unnið til verðlauna. Þetta átak hefur fært íbúum sveitarfélagsins eina mestu kjarabót sem um getur á síðari árum. Frá því að átakið hófst fyrir 3 árum hefur fasteignaverð í hreppnum hækkað um hvorki meira né minna en 50 % að meðaltali. Tökum dæmi; húseign í Vogunum sem metin var á 9,2 milljónir fyrir 3 árum var seld á árinu fyrir 14,8 milljónir. Á tímabilinu var ekkert lagt í endurbætur.
Þetta er hækkun um 5,6 milljónir á 3 árum !
Íbúum í hreppnum hefur fjölgað um 18% frá árinu 1999. Miðað við framkvæmdir í sveitarfélaginu í dag er ekki óvarlegt að áætla að 100 nýir íbúar bætist við á næstu 12-18 mánuðum. Hverju hefur þetta svo skilað okkur í hreppskassann? Frá árinu 1999 hafa tekjur sveitarfélagsins hækkað um rúm 60%, geri aðrir betur. Hér hefur ekkert álver bjargað mönnum. Tekjuhækkun sveitarfélagsins milli ára hefur verið 14-19%. Þess má geta að Þjóðhagsstofnun áætlar yfirleitt um 6% hækkun milli ára á tekjum sveitarfélaga, miðað við landsmeðaltal í fjölgun íbúa. Sveitarfélagið er því langt þar fyrir ofan.

Það er nú svo að aldrei er hægt að gera öllum til hæfis og þannig mun það alltaf vera. Það eru alltaf til einstaklingar sem eru neikvæðir út í allt og alla. Svo geta menn að sjálfsögðu haft misjafnar skoðanir. Það er hluti af lífinu. Það sem mestu skiptir hins vegar í öllu samstarfi er að vera málefnalegur.
Ég er þeirrar skoðunar, eftir að hafa unnið með sveitarstjóra frá því í júní á þessu ári og nú síðast við fjárhagsáætlunargerð að hún er vel að launum sínum komin. Þar fer ábyrgur og samviskusamur gæslumaður hreppskassans. Fyrri hreppsnefnd samdi um þau launakjör er sveitarstjóri hefur í dag. Núverandi meirihluti hefur verið gagnrýndur af minnihluta fyrir að hafa samþykkt nýjan ráðningarsamning óbreyttan. Örstutt að lokum um það mál. Það lækkar enginn laun við starfsmann sinn sem á 12 ára farsælt starf að baki og vex að verðleikum með hverju árinu. Spyrja má sig að því hvort að launaumræðan hefði verið með öðrum hætti ef karlmaður hefði setið í sveitarstjórastólnum. Hefði þá yfir höfuð verið einhver umræða? Góður starfsmaður, í ábyrgðarmiklu starfi, verður seint metinn til fjár.
Góðar óskir til allra hreppsbúa nú á aðventunni, með von um að þeir séu einhverju nær í launamálinu fræga.


Birgir Þórarinsson, varaoddviti
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024