Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Svar við skrifum Sigmundar
Þriðjudagur 11. desember 2007 kl. 12:25

Svar við skrifum Sigmundar

Á fulltrúaráðsfundi Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) 2. nóv. var samþykkt eftirfarandi ályktun: “Fulltrúaráð lýsir yfir áhyggjum af neyðarviðbúnaði Keflavíkurflugvallar og hvetur ráðamenn til aðgerða. Síðan Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli tók við stjórn flugvallarins þann 1. október 2006, hefur stöðugt verið dregið úr öryggiskröfum sem gerðar eru til flugvalla. Öryggisviðbúnaður Slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli hefur  aldrei  verið jafn lítill og nú, öryggi flugfarþega í neyð hefur farið úr því besta sem í boði er,  í eitt það lélegasta.” Það vakti því undrun okkar þegar slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja (BS), Sigmundur Eyþórsson, sá ástæðu til þess að rakka niður ályktunina og skoðanir forsvarsmanna LSS. Fyrir það fyrsta þá les hann ályktunina ekki rétt, í öðru lagi þá reynir hann að sverta nafn formanns LSS og fulltrúaráðsins og í þriðja lagi þá afhjúpar hann ótrúlega vanþekkingu sína á brunavörnum á Keflavíkurflugvelli. Slökkviliðsstjóri BS segir m.a. í grein sinni. „Ætla má að Formaðurinn virði „sína” félagsmenn á Suðurnesjum einskis þegar að hann metur „öryggisviðbúnað” á svæðinu.., og fullyrðir að næsta viðbragð sé í 30 mínútna fjarlægð frá flugvellinum?“


Næsta stóra atvinnuslökkvilið er í 30 mínútna fjarlægð við frá Keflavíkurflugvelli. Í grein sinni spyr Sigmundur um hvaða fagleg rök og samanburður liggi að baki ályktuninni.
Samanburður á ICAO og NFPA stöðlum varðandi flugvelli. Það er ekki hægt að reka alþjóðaflugvöll öðruvísi en að uppfylla lágmörk ICAO sem Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli gerir, en lítið meira. Sigmundur fjallar um ýmsa starfsemi Slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli(SKF) og fullyrðir ýmislegt, meðal annars lætur hann að því liggja að það hefði verið eingöngu vegna þarfa hersins sem viðbúnaður slökkviliðsins var meiri áður. Flugvöllurinn var alþjóða- og herflugvöllur. Herinn setti reglurnar, en viðbúnaðurinn var engu að síður líka vegna alþjóðaflugsins.Sigmundur fullyrðir einnig að há lágmarksmönnun slökkviliðsins hafi einungis verið vegna orrustuflugvélanna. Rangt, viðbúnaður var miðaður við lengd þeirra véla sem á flugvellinum lentu í þá samfeldu þrjá mánuði sem flestar hreyfingar voru árið á undan. Lengd F-15, sem er orrustuflugvélin sem slökkviliðsstjóri BS taldi ráða viðbúnaði, er 19,44 m. Til samanburðar er Boeing 757-200 47,32 m.


Sigmundur segir :“Það verður að segjast að áhersla okkar og verkferlar stuðla að öryggi viðbragðsaðila t.d. að senda ekki slökkviliðsmenn inn í „mjög hættulegar aðstæður“ t.d. „inn í logandi flugvélaflak”.
ICAO telur að slökkvistarf verði að hefjast innan þriggja mínúta en mælir jafnframt með að það hefjist innan tveggja mínúta og að allt slökkvistarf miðist að því að koma fólki frá flugvél á lífi. Fyrsta viðbragð skiptir öllu hvað lífslíkur fólks í flugslysi varðar og eimmit þess vegna eru til sérmenntuð flugvallarslökkvilið.


Varðandi nágrannaslökkviliðin segir slökkviliðsstjóri BS eftirfarandi “slíku tilfelli yrði öflugt viðbótarviðbragð slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna nágranna slökkviliða og björgunarsveita innan svæðisins, komið á slysavettvang innan fárra mínútna.” SFK eru lágmark 4 mínútur að fara frá slökkvistöð að þeim brautarenda sem lengst er frá stöðinni. 4 mínútur eru fáar mínútur. Samkvæmt flugslysaáætlun hefur BS engan tímaramma varðandi mætingu. Þannig að allt tal um að BS mæti sem öflugt slökkvilið, er óháð tíma sem er lykilatriði í viðbragði við flugslysi. Reynslan sýnir að viðbragð hjá BS er ekki alltaf eins ábyggilegt og menn vilja vera láta og dæmi eru um að einungis 4 menn hafi mætt í útkall fyrir utan þá 4 sem eru á vakt. 30 manns lítur vel út í greininni, en er ekki raunveruleikinn annar?


Sigmundur virðist ekki gera greinarmun á verklagsreglum flugvallarslökkviliða og húsabrunaslökkviliða og kemur það á óvart þar sem hann starfaði í slökkviliði SKF um tíma. Flugvélar veita eldi ekki mikið viðnám. Ef 80% farþega geta komist út af eigin rammleik og það er reykur í farþegarými og eldur laus fyrir utan þá á, samkvæmt grein slökkviliðsstjóra BS, að bíða með að fara inn í vélina þangað til að eldurinn fyrir utan hefur verið slökktur. Hvað tekur það margar mínútur? Það þarf ekki að orðlengja örlög þeirra sem inni eru. Ekki verður skilið af skrifum slökkviliðsstjóra BS að hann hafi haft fyrir því að kynna sér málið áður en hann hófst handa við að gera lítið úr LSS og ráðast á tilraunir þess til að bæta öryggi í flugsamgöngum. Tilgangur LSS með ályktuninni er að stuðla að betra flugöryggi og umræðu um þær breytingar sem átt hafa sér stað á Keflavíkurflugvelli. Það væri ekki fagmannlegt af LSS að láta einsog ekkert hefði í skorist. Sigmundur ákveður hinsvegar að gera það og gengur enn lengra þar sem hann reynir að breiða yfir versnandi stöðu í öryggismálum. Það væri nær að Sigmundur tæki þátt í þeirri viðleitni slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli að hafa sem best mannað slökkvilið ásamt tækjum og búnaði heldur en að gagnrýna og brjóta niður réttmætar og faglegar ábendingar. Slökkviliðsstjóri BS sem getur ekki sjálfur farið eftir lögum og reglum um brunamál og virt þá nauðsyn að ráða til starfa aðila sem uppfylla þær kröfur sem þar eru gerðar, telst varla marktækur gagnrýnandi.


Ályktunin stendur, ráðmenn eiga næsta leik.

Borgar Valgeirsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024