Bilakjarninn
Bilakjarninn

Aðsent

Svar við grein Guðbrands Einarssonar vegna sölu á Hitaveitu Suðurnesja
Fimmtudagur 22. nóvember 2007 kl. 17:54

Svar við grein Guðbrands Einarssonar vegna sölu á Hitaveitu Suðurnesja

Guðbrandur Einarsson bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ skrifar í Fréttablaðinu föstudaginn 16. Nóvember s.l. um kjarklitla sveitarstjórnarmenn vegna málefna Hitaveitu Suðurnesja. Í grein sinni beinir Guðbrandur nokkrum spurningum til sveitarstjórnarmanna og er okkur ljúft að svara þeim fyrir hönd Grindavíkurbæjar.


Spurningar sem Guðbrandur leggur fyrir:
1. Hvers vegna nýttu önnur sveitarfélög en Reykjanesbær og Hafnarfjörður sér ekki forkaupsrétt við sölur ríkisins á hlut í H.S?
 Svar: Grindavíkurbær hafði í allri sinni umfjöllun um sölu ríkisins og H.S. bókað að nýttur skyldi forkaupsréttur bæjarins og við það var staðið.
Grindavíkurbær keypti að nafnverði kr. 151.410.251 sem nam um 13 % af hlut ríkisins í H.S.

2. Hvaða ástæður lágu að baki þeirrar ákvörðunar að selja nánast allan hlut sinn í H.S.?
Svar:  Með 8% hlut í H.S. var Grindavíkurbær nánast án áhrifa og þegar fyrir lá áhugi aðila á að kaupa þann hlut á sjöföldu gengi  , þegar mat okkar ráðgjafa var að eðlilegt gengi væri 3.0 til 3,5 þá var ný staða komin upp.Með  hagsmuni íbúa að leiðarljósi var einhugur í bæjarstjórn að selja og ávaxta hlutinn með öðrum hætti. Það sama gerðist í öðrum sveitarfélögum. Minni sveitarfélögin seldu mest af sínum hlut en Reykjanesbær seldi um 5%  sem er svipað og önnur sveitarfélög seldu.
M.v. núverandi vaxtastig fást á einu ári um tífalt meiri ávöxtun en arðgreiðslur H.S. námu á ári.

3. Hvers vegna töldu Grindvíkingar nauðsynlegt að kalla saman bæjarráð sveitarfélaganna á Suðurnesjum til að ræða málefni Kölku, en sáu ekki ástæðu til að óska eftir samskonar fundi þegar ákveðið var að selja H.S.?
Svar: Hið rétta er að Grindavíkurbær óskaði  eftir fundi með eignaraðilum H.S. og var sá fundur haldinn í Svartsengi 12. Júní.  Grindvíkingar höfðu áhyggjur eins og fleiri  að H.S. yrði skipt upp í kjölfar sölu til GGE en Reykjanesbær lagði áherslu á að GGE fengi að gerast aðili að félaginu með kaupum á hlut ríkisins og að hin sveitarfélögin nýttu ekki forkaupsréttar.

4. Eru bæjarfulltrúar í öðrum sveitarfélögum en Reykjanesbæ enn þeirrar skoðunar að rétt hafi verið að selja eignarhluti sveitarfélaga sinna í H.S. í ljósi þeirrar atburðarrásar sem átt hefur sér stað frá því í júlí s.l. og telja þeir hagsmuni íbúa sinna byggðarlaga tryggða með því eignarhaldi sem nú er?
Svar: Já við erum enn á því að rétt hafi verið út frá þeim forsendum sem þarna sköpuðust að selja hlut Grindavíkurbæjar þar sem áhrif á rekstur H.S. var hverfandi og arður af hlutafjáreign þar var mjög lítill.

5. Hvernig telja bæjarfulltrúar að því yrði tekið ef sú staða kæmi upp að sveitarfélögunum yrði gefinn kostur á að auka hlutnn sinn í HS með það að markmiði að H.S yrði aftur komið í meirihlutaeigu sveitarfélaganna?
Svar: Við teljum haghvæmara fyrir okkar bæjarfélag að ávaxta fyrrum eign okkar í H.S. til hagsbóta fyrir íbúa sveitarfélagsins heldur en að binda það í H.S. með þeim arðgreiðslum sem þar eru. Við treystum upplýsingum forstjóra H.S. sem hefur upplýst að engin hætta sé á boðaföllum í gjaldskrárhækkunum þótt inn í rekstur H.S. komi GGE.  Verði félaginu skipt upp er enn komin ný staða sem þarf að taka afstöðu til.

Í  grein Guðbrands segir einnig að það hafi verið tillaga sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ að vísa umtöluðum undirskriftarlista til stjórnar S.S.S.  Á aukafundi stjórnar S.S.S, sem boðaður var í hádegishléi á aðalfundi sambandsins var tekið við undirskriftarlistanum og efni hans til umfjöllunar síðar um daginn.  Hvort þarna hefði mátt öðruvísi fara að má eflaust deila um.
En varðandi þá tilgátu að sveitarstjórnarmenn í Grindavík forðist að ræða um málefni H.S. eða undirskriftarsöfnunina, þá erum við tilbúin til viðræðna um þau málefni hvenær sem er.  
Þess má að lokum geta að í ágætu bæjarblaði Grindvíkinga, “Góðan daginn, Grindvíkingur“, frá því  í ágúst 2007, eru viðtöl við bæjarfulltrúa og bæjarstjóra þar sem farið er mjög ítarlega ofan í saumana á öllu þessu H.S. máli frá því ríkið ákvað að bjóða hlut sinn þar til sölu.

Kær kveðja.

Jóna Kristín Þorvaldsdóttir forseti bæjarstjórnar.
Sigmar Eðvarðsson formaður bæjarráðs.

Bílakjarninn
Bílakjarninn