Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Föstudagur 25. október 2002 kl. 09:39

Svar til Kristins H Gunnarssonar

Kristinn H. Gunnarsson, formaður þingflokks Framsóknarflokksins og sambýlismaður aðstoðarkonu heilbrigðisráðherra vænir mig um pólitískan ofstopa í grein í Morgunblaðinu í gær, 24 október. Mér finnst það dálítið skondið í ljósi þess að ég hef hvorki verið viðriðin pólitík né rekist í stjórnmálaflokki sökum vanhæfi að dansa eftir flokkslínum. Einnig hef ég ætíð talist fremur prúð og kurteis að eðlisfari. En sé ég virkilega með pólitískan ofstopa er það ærið umhugsunarefni hvers vegna dagfarsprútt fólk eins og ég skuli allt í einu umturnast. Inntak greinar minnar hefur greinilega farið fyrir ofan garð og neðan hjá Kristni . Hann sér bara stóryrði og fúkyrðaflaum um framsóknarmenn. Einhvern tíma hefði það kætt hann. Ég ætla mér ekki að túlka greinina fyrir hann en finn mig knúna til að drepa á nokkur atriði. Ég geri hvergi lítið úr Sigríði Snæbjörnsdóttur í grein minni enda hef ég enga ástæðu til þess. Ég segi hvergi að hún sé “pólitískur gæðingur Framsóknarflokksins” eins og Kristinn heldur fram. Hann hefði þurft að lesa greinina betur. En ég stend við þau orð mín að hún sé gæðingur ráðherra, hvar í flokki sem hún kann að standa. Ef Kristni finnst felast lítilsvirðing í því þá er það hans túlkun, ekki mín. Ég stend líka við þá skoðun mína – þó svo eðli málsins samkvæmt eigi ég í erfiðleikum með að sanna það - að búið hafi verið að ráðstafa stöðunni áður en hún var auglýst . Það mætti ef til vill velta fyrir sér hvers vegna maður fær slíka flugu í höfuðið. Ætli það sé bara vegna þess að manni finnist svo notalegt að fá flugur í höfuðið? Í grein minni bendi ég á að allir stjórnarmenn í stjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, að undanskildum fulltrúa ráðherra, hafi greitt Skúla Thoroddsen atkvæði sem hæfari umsækjanda. Skyldi það hafa verið tilviljun ein að mótatkvæðið kæmi frá fulltrúa ráðherra? Vissulega hafa heimamenn ekki forgang að störfum á vegum ríkisins en ég áskil mér fullan rétt til að hafa skoðun á byggðamálum og það er beinlínis rangt hjá Kristni að ég hafi helst talið búsetuna Skúla til tekna. En spyrja má hvers vegna gengið er framhjá hæfum einstaklingi í heimabyggð. Ég vísa því alfarið á bug að greinin mín hafi verið ómálefnaleg. Dæmið um Finn Ingólfsson sannar hið gagnstæða. Það var nefnt sem sóðalegt og siðlaust dæmi um svindl og svínarí í opinberum stöðuveitingum. Það er kjarninn í grein minni. Hvort sem Kristni líkar það betur eða verr virðist valdið vera spillandi í eðli sínu og er þar enginn stjórnamálaflokkur undanskilinn.Mér finnst umhugsunarefni hversu mikill munur virðist á veruleikaskynjun valdhafa og almennings í þessu landi. Í augum valdhafanna er keisarinn ekki bara klæddur heldur uppábúinn meðan hann stendur berstrípaður í augum almennings.

Jórunn Tómasdóttir, kennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024