Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sunnudagsbíltúr
Sunnudagur 18. maí 2014 kl. 10:26

Sunnudagsbíltúr

-Þetta var gaman!, segir stúlkan þar sem þau ganga út úr bíóinu, um leið og smágerð hönd læðist í lófa hans. Þó drungi og dumbungur sé í lofti sker birtan samt furðu mikið í augun.
- Já, svo var litli strákurinn sterkastur á endanum og sigraði risann, svarar hann að bragði og þar sem þau hafa nægan tíma spyr hann hvert hún vilji fara næst.
- Förum til skessunnar?
- Ekki einu sinni enn! hugsar hann, en samþykkir svo með uppgerðaráhuga, finnst lítið spennandi að berjast þarna niðureftir í slydduhraglanda til heimsækja þennan kaldranalega helli. En ímyndunarafl barnsins verður víst að fá að ráða ferðinni en ekki áhugaleysi hins fullorðna. Á leiðinni segir stúlkan honum frá því hvernig það bar til að skessunni var boðið að koma og búa í bænum, hvað bæjarstjórinn hafi verið góður að bjóða henni. Hann svarar því til að allir bæjarbúar hafi í raun öll boðið henni en sú stutta er ekki alveg að skilja það. Hann ákveður að geyma til betri tíma föðurlega uppfræðslu á virkni samfélagsins.
- En pabbi. Af hverju er skessan alltaf inni? spyr stúlkan þegar þau koma að risadyrunum að helli skessunnar.
- Ég held að skessur þori ekki vera að vera úti, svarar hann, þú manst að í gömlu sögunum urðu þær að steini þegar sólin kom upp.
- Pabbi! Það var bara í gamla daga þegar þú varst lítill, segir hún með hneykslunarsvip. Nú er það ekkert svoleiðis, er það nokkuð?
- Ég veit ekki, segir hann og brosir í kampinn. Hvað veit maður?
- Aumingja skessan að vera alltaf svona ein. Henni hlýtur að leiðast. Ég held hún sé alltaf að bíða eftir hinum skessunum eða kannski skessukalli, segir stúlkan meðan hún reynir að klifra inn til dúkkuferlíkisins.
- Já, ætli það ekki, svarar hann og virðir fyrir sér mjög svo skemmtilegan tréskúlptúr alsettan snuðum, sem framtaksamar leikskólakonur hafa líklega komið upp fyrir börnin sem eru að segja skilið við frumbernskuna. Þó stúlkan sé langt frá því að vera orðin leið á dvölinni hjá skessunni er hann fljótur að fá nóg og kallar á dótturina inn til skessunnar.
– Þetta er orðið gott! Nú skulum við fara að koma okkur. Skessan þarf að fá að hvíla sig.
Þar sem þau ganga stíginn til baka kemur hann auga á nýútsprunginn fífil sem rétt í þessu, í síðustu sólarglennunni, hefur ákveðið að opna sig og fagna vori, þó enn sé aðeins aprílmánuður og sumardagurinn fyrsti nýliðinn. Velkominn vinur, hugsar hann glaður og kemur blóminu til varnar með örstuttri áminningu um virðingu fyrir lífinu, þegar stúlkan vill ólm slíta hann upp.
- Eigum við að fara í kirkjugarðinn og heilsa upp á afa? spyr sú stutta þegar þau aka upp frá smábátahöfninni og enn eitt haglélið lemur framrúðuna. Hann svarar um hæl að þau séu ekki nógu vel búin til þess.
- Er þetta kannski skessukirkjugarðurinn? spyr stúlkan og bendir á svæðið fyrir neðan veginn sem hefur verið hlutað niður í reiti fyrir iðnaðarsvæði framtíðarinnar. Hann brosir við í aðdáun sinni á ímyndunarkrafti barnsins, svarar því til að þetta séu frekar göturnar þar sem vinkonur skessunnar ætli að byggja húsin sín þegar þær flytja í bæinn.
- En hvar eru þær og hvenær ætla þær eiginlega að koma? spyr stúlkan. Skessan deyr úr leiðindum ef hún þarf að bíða endalaust!
Hann er að reyna að hugsa upp svar meðan hann beygir niður að Helguvík en gleymir því fljótt þegar komið er niður í brekkuna, virðir í forundran fyrir sér þá gífurlegu umbreytingu sem orðið hefur á svæðinu þar sem búið að sprengja burtu gífurlegt magn upp úr berginu til að byggja þessi risa hafnarmannvirki. Varnargarðurinn utan við höfnina lúrir í makindum eins og hann sé að bíða eftir að fá að vita hlutverk sitt í þessari tilveru.
- Er það hérna sem skessuskipin eiga að koma? spyr stúlkan.
- Það skyldi þó aldrei vera, svara hann um leið og hann snýr við og keyrir aftur upp brekkuna. Varla geta þær komið með flugi.
- Nei, flugvélarnar eru allt of litlar, en hvaða stóra hús er þetta? segir barnið þar sem þau keyra framhjá Kölku, og bendir á ófullgerðar álversskemmurnar sem rísa upp úr melnum á hægri hönd og virðast horfa á vegfarendur tómum og spyrjandi augum. Hún heldur áfram áður en honum gefst færi á að svara.
- Ég veit! Þetta gæti verið vinnan hjá skessunum, þar sem þær gætu verið að sauma eitthvað og föndra. Ég gæti kennt skessunni að puttaprjóna, þá myndi henni ekki leiðast svona að bíða.
- Snilldar hugmynd, segir hann.
Þau keyra upp á Reykjanesbrautina með bæinn á vinstri hönd og alþjóðaflugvöllinn til hægri.
- Ég ætla að fá garn hjá mömmu svo skessan geti æft sig. Svo ætla ég að biðja kennarana að segja öllum krökkunum að vera dugleg að heimsækja skessuna. Þá hættir henni að leiðast.
- Mér líst vel á þetta hjá þér elskan, segir hann uppörvandi. „Þú reddar þessu!“
Þau beygja niður Aðalgötuna í gegnum bæjarhliðið. Þung skýin og haglþokan eru óðum að gefa eftir og þrautseig vorsólin sendir gyllta stafi sína niður yfir Bergið og bæinn. Síminn titrar í hólfinu við gírstöngina með sms frá mömmu:
- Vöfflurnar tilbúnar!

Sólmundur Friðriksson
í framboði fyrir Beina leið X-Y

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024