Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sumir með!
Föstudagur 15. apríl 2022 kl. 09:38

Sumir með!

Bjarni Páll Tryggvason,
frambjóðandi framsóknar í Reykjanesbæ.


Verkefnið „Allir með!“ er framsækið verkefni sem Reykjanesbær hefur innleitt. Verkefnið miðar að því að virkja sem flesta einstaklinga í samfélaginu okkar til þátttöku í tómstunda-, æskulýðs- og íþróttastarfi. Það er nefnilega svo að það skiptir máli að allir hafi tækifæri til þátttöku og þekki hvaða leiðir eru færar til þess.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þess vegna er það mér hugleikið af hverju það eru ekki allir með þegar kemur að því að styðja við samfélagið í Reykjanesbæ. Það er stöðugt ákall um að stutt sé ríkulega við bakið á menningu listum, íþróttum og tómstundum í bænum okkar og það er svo sannarlega þörf á því. Reykjanesbær gengur þar framarlega í flokki og einnig eigum við mikið af góðum bakhjörlum í okkar nærumhverfi hvort sem það eru fyrirtæki eða einstaklingar.

Það er þó augljóst að það eru bara sumir með þegar kemur að virkri þátttöku, einn mælikvarði er t.d. að bera saman 30 stærstu fyrirtækin á svæðinu við 30 stærstu stuðningsaðila góðra verka hér um slóðir. Munurinn er sláandi, litlir og meðalstórir aðilar bera hitann og þungann af stuðningi við samfélagið á meðan sumir þeirra stærstu eru lítið sem ekkert með. Þessir stóru aðilar kalla eftir því að bærinn leggi til innviði og byggi upp bæjarfélag sem laði að fólk sem vilji starfa hjá þeim en á sama tíma virðist ekki vera skilningur fyrir því að samfélag þarf virka þátttöku allra til að blómstra. 

Ég ætla að beita mér fyrir því að Reykjanesbær fái alla með í rekstur samfélagsins okkar í víðum skilningi. Stærstu atvinnuveitendur svæðisins þurfa að sýna samfélagslega ábyrgð í verki, það er ekki bara hlutverk íbúa hér að leggja til land og loftrými undir rekstur þeirra með tilheyrandi áskorunum og tækifærum sem því fylgir. Þeir aðilar sem nýta þau gæði sem Reykjanesbær býður þeim upp á verða að fá tækifæri til að sýna í verki að við sem búum hér erum eitthvað annað og meira en bara vinnuafl.

Reykjanesbær á að vera miklu virkari í samtalinu við atvinnurekendur svæðisins og vera stöðugt að bjóða þeim að vera með í samfélaginu okkar. Samfélagssáttmáli í anda verkefnisins allir með er eitt skref sem mun efla samfélagslega ábyrgð allra sem njóta góðs af innviðum okkar. Þannig stuðlum við að því að þeir sem draga vagninn m.a. í menningu, listum, íþróttum og tómstundum í Reykjanesbæ fái víðtækari stuðning í sínum daglegu viðfangsefnum og þannig byggjum við saman upp kröftugt, heilbrigt og framsækið bæjarfélag.