Sumarlestur á Bókasafni Reykjanesbæjar
Fjöldi barna hefur tekið þátt í sumarlestri Bókasafns Reykjanesbæjar. Það er aldrei of seint að byrja því hægt er að taka þátt í sumarlestri út ágúst.
Öll grunnskólabörn fengu við skólaslit í vor bókaskrá sem gildir bæði í sumarlestri bókasafnsins og skólanna. Börnin koma með skrána á bókasafnið, fá flott bókamerki og umsagnarblað með hverri tekinni bók. Skila verður umsögnum um allar lesnar bækur til að fá stimpil í bókaskrána. Eftir lestur hverra þriggja bóka fá börnin hvatningarverðlaun en til að fylla bókaskrá þarf að lesa 18 bækur. Hver þátttakandi les það sem hann vill, á sínum hraða og þegar honum hentar en ætlast er til að hver sé að lesa bækur við sitt hæfi.
Best er ef foreldrar geta fylgst með lestri barnanna og jafnframt aðstoðað þau við að velja bækur við hæfi. Börnin græða mest ef þau lesa bækur sem hæfa þeirra getu, það eflir orðaforða og eykur skilning en það eru markmið sumarlestursins.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá er snilld að lesa.
Mynd: Í sumarlestri bókasafnsins er hægt að lesa hvar sem er og hvenær sem er. Safnið sjálft er mjög ákjósanlegur staður.