Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

 Suðurnesjamenning
Föstudagur 30. júlí 2010 kl. 22:16

Suðurnesjamenning

Ég er fædd og uppalin hér á Suðurnesjum og hef búið hér mestalla mína ævi, þó hef ég búið í öðrum bæjarfélögum í skemmri tíma. Eitt sem mér finnst vera frábrugðið bæjarbrag þeirra svæða sem ég hef kynnst er hin sérstaka samstaða hér á Suðurnesjum. Við eigum auðvelt með að hrífast með og gleðjast þegar vel gengur. Þegar íþróttaliðin okkar eru sigursæl í boltanum, eigum við skærustu stjörnur Íslands í öllum íþróttum og erum stolt og jafnvel rígmontin. Við einn tapleik breytist allt, við göngum af velli niðurlút og bölvandi þessum aulum sem klúðruðu leiknum og geta ekki neitt.
 
Þegar ég var barn fannst mér mikilvægast að standa mig vel í öllu sem ég tók mér fyrir hendur, hljóp eins hratt og ég gat í kapphlaupi og kastaði jafnvel upp á eftir sökum áreynslu. Ég tók nefnilega snemma eftir því að „taparar“ í mínu bæjarfélagi mættu yfirleitt ekki stuðningi og hvatningu heldur auknu mótlæti. Ég fór að æfa knattspyrnu með Keflavík tólf ára gömul, þegar hún var endurvakin, en við stelpurnar fengum ekki mikinn stuðning nema frá þessum örfáu aðilum sem voru að reyna að efla kvennaknattspyrnu á svæðinu. Við fengum afgangsbúninga af strákunum upp úr ruslinu og þurftum að redda okkur sjálfar á leiki, þar sem við kepptum við stelpur sem höfðu æft frá fimm ára aldri og voru alltaf í fallegum búningum. Við fengum rútu og Herjólf til Eyja, styrklaust, meðan strákarnir fengu glænýja búninga, flugferðir og ýmis hlunnindi. Svo töpuðum við nánast öllum leikjunum, oft mjög stórt, og ekki jókst stuðningurinn við okkur þá. Við fengum hreinlega ekki tækifæri og þann stuðning sem við þurftum til að ná árangri.  


Þannig hefur mér fundist bæjarbragurinn vera hér allt frá því ég man eftir mér, þegar mikið reynir á einhvern hóp eða stofnun í bæjarfélaginu þá fylkjum við ekki liði til að verjast og styðja okkar fólk heldur tökum við þátt í árásinni, sláumst í sterkara liðið, það sem líklegra er til sigurs. Hvernig gerðist þetta? Erum við stolt af þessari hefð og arfleifð barnanna okkar? 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Á þessum síðustu og verstu tímum hefur hin ríkisrekna heilbrigðisþjónusta svæðisins, sem Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er, þurft að þola gríðarleg skakkaföll og nánast gereyðandi niðurskurð. Til að bæta gráu ofan á svart þarf starfsfólkið oft að lesa um sig níð og skammir í fjölmiðlum en afar sjaldgæft er að fréttaflutningur af rekstri og starfsemi stofnunarinnar sé á jákvæðum nótum. Sjaldnast má starfsfólkið svara ásökunum sem birtar eru og ekki biðja fjölmiðlarnir sem birta þessar fréttir um hina hlið málsins.
Þetta viðmót allt er mjög athyglisvert þar sem þjónustan hefur verið vel skoðuð, til dæmis af landlækni, og er talin skilvirk, skjót og góð þjónusta. Framlegð starfsfólks HSS hefur verið talin mun meiri en annarsstaðar, sem þýðir að það afkastar meira í starfi en eðlilegt getur talist miðað við aðstæður.


Starfsfólk stofnunarinnar hefur ýmist staðið frammi fyrir því að fá uppsagnarbréf, sem er svo dregið tilbaka, horft á eftir vinum og samstarfsfólki til lengri tíma úr starfi vegna niðurskurðar, eða tekið á sig meiri vinnu vegna manneklu. Þetta starfsfólk, sem einnig nýtir sér þjónustu stofnunarinnar, sinnir nágrönnum sínum, vinum, ættingjum og öðrum sem leita eftir þjónustunni, oft á örlagaríkum stundum í lífi þeirra. Starfsfólkið hefur ýmist reynslu, menntun eða bæði í sínu fagi og vinnur samviskusamlega og eins vel og það getur við núverandi aðstæður við misjöfn launakjör, sem eru alls ekki þau hagstæðustu á landsvísu. Þetta fólk verður fyrir aðkasti fjölmiðla, annarra heilbrigðisstétta og –stofnana, jafnvel stjórnvalda og stundum skjólstæðinga sinna. Í öðrum landshlutum hafa stjórnvöld ekki þorað að hrófla mikið við starfsemi heilbrigðisstofnana af ótta við viðbrögð íbúa. Þau skortir ekki kjarkinn hér, enda kannski ekki búist við harkalegum viðbrögðum Suðurnesjamanna. 


HSS og starfsfólk þess er í raun eins og kapplið bæjarins á tapleikjatímabili. Enginn styður það eða hvetur. Þvert á móti þá hópast fólk í fylkingar gegn þeim, gagnrýnir það og niðurlægir á opinberum vettvangi. Hver er tilgangurinn? Er þetta gert í þeirri von um að þá lagist allt og þjónustan verði eins og best verður á kosið? Getum við ekki gert betur? Getum við ekki staðið vörð um HSS og starfsfólkið þar og hrósað fólki fyrir vel unnin störf? Viljum við ekki öll geta sótt góða þjónustu hér í heimabyggð? Ég skora á ykkur, kæru nágrannar og íbúar Suðurnesja, að hlú að heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum. Lífsgæði okkar eru í húfi. Veitum starfsfólki HSS tækifæri og þann stuðning sem þarf til að ná árangri.


Gerum HSS að  sigurliði.  

Guðrún Ösp Theodórsdóttir,
íbúi og móðir í Reykjanesbæ.