Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Suðurnesjamenn virtir að vettugi
Fanný Þórsdóttir.
Fimmtudagur 26. október 2017 kl. 07:00

Suðurnesjamenn virtir að vettugi

Á íbúafundi sem haldinn var í Duus húsum þann 19. október síðastliðinn kynnti Dr. Huginn Freyr Þórðarson niðurstöður úr könnun sem fyrirtæki hans, Aton, gerði varðandi ráðstöfun á fjármagni ríkis til Suðurnesja miðað við önnur sveitarfélög landsins. Það er óhætt að segja að niðurstöðurnar voru sláandi. Það var næstum sama hvar bar niður, alls staðar fengu Suðurnesin minni stuðning frá ríkinu en önnur sveitarfélög. Á síðustu árum hefur íbúum á Suðurnesjum hlutfallslega fjölgað mest eða um 16 % á árunum 2010 til 2016. Ferðamönnum hefur fjölgað sem fara um svæðið enda er alþjóðaflugvöllurinn staðsettur hér. Meðan mikið álag er á starfsfólk heilsugæslu Suðurnesja, bæði vegna fjölgunar ferðamanna og íbúa svæðisins er ekki einu sinni til nægt fjármagn til að hafa hjúkrunarfræðinga á vakt í slysa- og bráðamóttöku allan sólarhringinn. Það er öllum ljóst að heilsugæslumál hafa verið í miklum ólestri hér á Suðurnesjum um árabil og mikið um það rætt en engu að síður er heilbrigðisstofnuninni hér ætlað minnst fjármagn á hvern íbúa en öðrum heilbrigðistofnunum á landinu, enn og aftur í þeim fjárlögum sem lögð voru fram af síðustu ríkisstjórn. Fleiri börn eru nú í grunnskólum Suðurnesja en nokkurn tímann fyrr og má búast við að aukningu nemenda verði brátt vart í eina framhaldskóla svæðisins, Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Fjárframlög á hvern nemanda í Fjölbrautaskóla Suðurnesja eru lægri en hjá sambærilegum skólum í fyrrnefndum fjárlögum fráfarandi ríkisstjórnar. Umferð hefur aukist mikið um Reykjanesbrautina, að stórum hluta til vegna fjölda þeirra ferðamanna sem um hana fara á leið sinni til annarra áfangastaða á landinu, samt er ekki gert ráð fyrir að laga hana nema með því að setja vegatolla sem íbúar Suðurnesja eiga að greiða þegar þeir leggja ferð sína til Reykjavíkur. Svona mætti lengi telja þegar kemur að andvaraleysi síðustu ríkisstjórna gagnvart íbúum Suðurnesja. Við virðumst vera nógu góð þegar þarf að planta mengandi stóriðju einhvers staðar, en þess á milli erum við virt að vettugi. En kæru íbúar, eigum við ekki bara að segja þetta gott og að nú sé nóg komið? Ég ætla ekki að setja mig á stall og tala niður til ykkur og segja ykkur hvar þið eigið að setja X-ið ykkar næsta laugardag, þannig starfa Píratar ekki. En eruð þið til í að hugsa málið vel og vandlega?

Fanný Þórsdóttir, formaður Pírata á Suðurnesjum
Þriðja sæti á lista Pírata í Suðurkjördæmi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024