Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Suðurnesjamenn: Við þurfum að sækja fleira fast en sjóinn!
Föstudagur 22. febrúar 2008 kl. 14:17

Suðurnesjamenn: Við þurfum að sækja fleira fast en sjóinn!

Í nýkynntum aðgerðum stjórnvalda vegna kjarasamninga kemur fram að stöðugleiki í efnahagsmálum sé meginmarkmið ríkisstjórnarinnar, enda stuðli hann að auknum hagvexti og velferð til langframa. Álver í Helguvík hefur sams konar áhrif. Það skapar trausta atvinnu með vel launuðum langtímastörfum, stuðlar að stöðugleika og velferð.

Viljum einfaldlega vel launuð störf
Frá árinu 2003 og til dagsins í dag hafa a.m.k. 25 erlendir fjárfestar komið hingað,  skoðað aðstæður fyrir iðnað í Helguvík og kynnt sér orkuöflun. Þar má nefna mögulega stálröraverksmiðju, álþinnuverksmiðjur, efnaverksmiðjur, vatnsútflutning, frystigeymslur, manganverksmiðju, lýsisafurðir, kísilflöguverksmiðju ofl. Atvinnumálanefnd, bæjarstjóri og Hitaveita Suðurnesja hittu þessa menn og sýndu áhuga á samstarfi en samt hefur ekkert komið út úr þessu ennþá. Þó að sumir aðrir sjái alls staðar bullandi tækifæri fyrir okkur er þetta bara staðreyndin. Þegar á reynir hafa menn hreinlega bara hætt við.

Þegar Reykjanesbær varð til árið 1994 við sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna, settum við á stefnuskrá að koma upp stóriðju í Helguvík. Við lögðum grunn að þeim áformum með því að byrja á að byggja 150 metra stálþil í höfninni í Helguvík. Loksins nú, eftir 14 ára baráttu, erum við komin með fyrirtæki sem raunverulega vill byggja öflugt iðnfyrirtæki í Helguvík. Þetta fyrirtæki er með fjármagn, þekkingu og aðrar forsendur sem til þarf. Við þekkjum þetta fyrirtæki, það hefur sýnt hvað það getur uppi á Grundartanga og hvaða áhrif það hefur haft á nágrannasveitarfélögin með því að standa vel að sínum málum og borga góð laun.

Við hér á Suðurnesjum erum vanir vel launuðum störfum af sjónum og á Keflavíkurvelli. Við vitum hvað góð laun gera fyrir íbúana og fyrir sveitarfélögin. Við viljum einfaldlega fá hingað öflugt, ábyrgt fyrirtæki sem borgar góð laun.

Erum ekki í stríði við aðra
Atvinnuuppbygging í Helguvík er ekki á kostnað annarra. Hún kemur þeim sem búa nú þegar á þessu svæði til góða. Hún leysir úr vaxandi, staðbundnu atvinnuleysi í stað þess að kalla fyrst og fremst á aðflutt vinnuafl eins og sums staðar væri raunin.

Látum ekki háværan en lítinn hóp úrtölufólks spilla áformum um álver í Helguvík. Látum ekki þá sem stunda hagsmunagæslu fyrir einhverja aðra segja okkur að við í þessu fjölmenna byggðarlagi eigum ekki rétt á mannsæmandi atvinnutækifærum og góðum launum. Við erum ekki að skipta okkur af áformum um atvinnuuppbygginu í öðrum sveitarfélögum, heldur óskum þeim góðs. Á móti frábiðjum við okkur afskiptasemi óviðkomandi aðila. En þessi undirróður sýnir okkur Suðurnesjamönnum líka að við verðum að standa saman. Öll sveitarfélögin hér verða að standa saman. Þau verða að tryggja að það standi ekki á okkur í orkumálum eða línulögnum. Ef við hjálpum okkur ekki sjálfir, gera aðrir það ekki.

Rafmagnið kom hingað fyrir öld, olli byltingu og er enn forsenda stórra framfaraskrefa. Í atvinnusköpun til framtíðar verðum við að tryggja nýjar flutningslínur fyrir rafmagn á atvinnusvæðið okkar. Vöxtur byggðar og atvinnulífs kallar á nýjar lagnir, alveg burtséð frá álveri, það var löngu búið að óska eftir þessum lögnum áður en álver í Helguvík kom til tals. Lagning háspennulína er afturkræf framkvæmd. Eftir 20-30 ár má svo leggja þessa strengi í jörð, ef menn vilja, þegar tæknin verður orðin betri og kostnaður lægri.

Fyrsta stórðiðjan í Suðurkjördæmi
Með því að reisa álver í Helguvík verður til fyrsta stóriðjan í Suðurkjördæmi sem framleiðir um 80% af allri orku í landinu. Á Suðurnesjuum býr nærri helmingur íbúa Suðurkjördæmis. Það er merkilegt að við Suðurnesjamenn eigum í raun bara 6 þingmenn, þingmenn ríkisstjórnarinnar sem láta hagsmunamál okkar sig varða. Guðni og hinir í stjórnarandstöðunni hafa sýnt sitt rétta andilit gagnvart okkur. Það er mikil bjartsýni hjá þessum þingmönnum að halda að þeir komist upp með að vinna gegn hagsmunum stærsta þéttbýlissvæðis í sínu kjördæmi og fá síðan atkvæði héðan í næstu kosningum. Þá þekkja þeir Suðurnesjamenn illa.

Hálaunasvæði eða láglaunasvæði?
Ofan á mikil áföll, brotthvarf Varnarliðsins og þennan harða niðurskurð á þorski hjá ríkisstjórninni, er nú mikil óvissa um loðnuveiðar. Sú óvissa bitnar einna harðast á Suðurkjördæminu. Ég hvet Suðurnesjamenn til að láta duglega í sér heyra og styðja álverið í Helguvík, eins og bæjarstjórnir, atvinnurekendur og verkalýðsfélög o.fl. gera. Næstu vikur munu skera úr um það hvort við fáum hingað hálaunastörf eða hvort Suðurnesin breytast endanlega í láglaunasvæði.


Höfundur: Þorsteinn Erlingsson,
skipstjóri og formaður atvinnu- og hafnaráðs Reykjanesbæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024