Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Suðurnesjamenn, stöndum vörð um framtíð okkar í atvinnumálum!
Fimmtudagur 19. nóvember 2009 kl. 09:06

Suðurnesjamenn, stöndum vörð um framtíð okkar í atvinnumálum!


Spurningin um hvað er eiginlega að gerast í atvinnumálum á Suðurnesjum er líka spurningin um hvað er að gerast í atvinnumálum í landinu almennt. Atvinnumál Suðurnesjamanna eru nefnilega líka þjóðarhagsmunir. Rétturinn til að hafa atvinnu á ekki að vera einkamál ráðherra, heldur fullgildur réttur hvers einasta Íslendings. Þess vegna er það alveg ótrúlegt að það sé verið að skemma frábær atvinnutækifæri okkar Suðurnesjamanna, mitt í kreppunni, með aðgerðum umhverfisráðherra gegn lagningu SV-línu. Við Suðurnesjamenn höfum verið að bíða eftir nýjum atvinnutækifærum allt síðan Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli fór árið 2006 og skildi meira en 900 manns eftir atvinnulausa á Suðurnesjum. Varnarliðið var kjölfesta í atvinnumálum svæðisins um áratuga skeið og þar starfaði ég í 26 ár. Við brottför þess árið 2006 misstu við margir Suðurnesjamenn góð og trygg störf. Atvinnuleysi hér syðra er með því mesta eða 1.679 á atvinnuleysiskrá. Atvinnuleysið vex hröðum skrefum og er mikið áhyggjuefni sem ég fæ ekki við unað.


Fyrir framtakssemi og samstarfsvilja Suðurnesjamanna hafa ýmis fyrirtæki séð sér hag í að beina framtíðarfjárfestingum sínum hingað. Álver Norðuráls í Helguvík er stærst og mikilvægast þeirra atvinnuskapandi verkefna sem fyrir hendi eru. Álverið verður mjög hátæknilegt og með þeim bestu í heiminum. Þegar starfsemi þess hefst mun það skapa mikil verðmæti fyrir þjóðina og samfélagið á Suðurnesjum með vel launuðum störfum og útflutningstekjum. Umhverfisáhrifin verða ekki ýkja mikil og ég efast um að þau verði nokkuð meiri en þegar herinn var hér á fullum gangi áður fyrr með sínar F-15 flugþotur. Einnig tel ég að bygging álvers á Íslandi sé með umhverfisvænni kostum sé horft til heildarumhverfisáhrifa á heimsvísu. Það er ótrúlegt hvað margir svokallaðir umhverfisverndarsinnar virðast alltaf berjast áfram með bjagaða heimssýn, stöðnun og þröngsýni að leiðarljósi. En er sannleikurinn ekki sá að flestar hugmyndir þeirra og ráð byggja á því að engin framför, tæknileg eða annarskonar geti nokkuð tíman átt sér stað? Byggja sem sagt á algjörri stöðnun og mætti jafnvel líkja við nornabrennur fornaldar, þar sem vísindi og tækni voru af hinu illa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Fyrir nokkru voru birtar greinar í Víkurfréttum sem voru einkar fróðlegar eftir Skúla Skúlason hjá Norðuráli um framleiðsluferil áls, notkun þess í daglegu lífi okkar sem og þau fjölþættu tækifæri sem álver skapar á áhrifasvæði sínu með afleiddum störfum og aðkeyptri þjónustu. Ég hef líka verið þeirrar ánægju ánjótandi að skoða Norðurál á Grundartanga, bæði starfsemi og aðbúnað, sem ég tel til fyrirmyndar, allt vel skipulagt og traust. Álver Norðuráls í Helguvík mun auka atvinnuöryggi okkar til mikilla muna í framtíðinni. Í því sambandi höfum nokkrir félagar/Suðurnesjamenn stofnað heimasíðu á slóðinni www.atvinnuskopun.net. Þar viljum við hvetja alla þá Suðurnesjamenn sem eru hlynntir atvinnuuppbyggingu að skrá sig á sérstakan lista sem settur hefur verið upp og sýna þannig stuðning sinn í verki. Heimasíðan er m.a. til stuðnings álveri Norðuráls í Helguvík, sólarkísilverksmiðju í Helguvík og netþjónabúi á Ásbrú, svo eitthvað sé nefnt.


Það er mjög erfitt að skilja hve mjög umhverfisráðherra og hennar samherjar hafa dregið lappirnar í þessum brýnu atvinnumálum okkar Suðurnesjamanna. Við megum ekki láta pólitíska duttlunga taka frá okkur þessi tækifæri til framtíðaruppbyggingar. Við verðum að fá umhverfisráðherra til að snúa við blaðinu og gefa grænt ljós á lagningu Suðvesturlínu sem verður sannkölluð lífæð fyrir Suðurnesin. Það gengur ekki að láta alla atvinnuuppbyggingu og stöðugleika raflínulagna til svæðisins fara í óvissu og biðstöðu á meðan ráðherra er að skoða þessi mál æ ofan í æ. Það getur varla talist góð stjórnsýsla enda allt sem skiptir máli löngu ljóst.


Við sem af hugsjón, árvekni og dugnaði viljum byggja upp bjartari framtíð okkar hér á Suðurnesjum og á Íslandi sættum okkur ekki við að öfgar í umhverfismálum ráði förinni inn í framtíðina. Slík för yrði sneypuför, þjóðinni til vansæmdar og óbætanlegs skaða.


Erlingur Bjarnason,
umhyggjusamur íbúi á Suðurnesjum.