Suðurnesjalína 2 – aukin flutningsgeta og stöðugleiki
-Landsnet hefur nú hafið á ný vinnu við mat á umhverfisáhrifum fyrir bætta tengingu Suðurnesja við meginflutningskerfið
Hlutverk okkar hjá Landsneti samkvæmt raforkulögum er að byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku. Við undirbúning á verkefni eins og þessu þarf m.a. að taka tillit til þróunar á flutningsþörf, áætlunum um atvinnuuppbyggingu, hagkvæmni uppbyggingar, áhrifa á landeigendur, rekstraröryggi notenda og gæði raforku. Þá er mikilvægur hluti undirbúnings að meta umhverfisáhrif framkvæmdanna, með það að markmiði að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og stuðla að samvinnu hagsmunaðila og annarra er láta sig málið varða.
Undirbúningur vegna Suðurnesjalínu 2, tengingum á milli Hafnarfjarðar og Suðurnesja, hefur staðið lengi yfir. Verkefnið var á sínum tíma hluti af mun umfangsmeira umhverfismati Suðvesturlína en nú afmarkast matið eingöngu við Suðurnesjalínu 2. Í kjölfar dóma um ógildingu á heimild til eignarnáms og leyfi Orkustofnunar fyrir Suðurnesjalínu 2, ásamt ógildingu á framkvæmdaleyfi Sveitarfélagsins Voga, var ákveðið að gera nýtt umhverfismat sem mun m.a. meta umhverfisáhrif valkosta sem fela í sér jarðstrengi.
Aukið afhendingaröryggi
Nauðsynlegt er að ráðast í framkvæmdir til að bæta afhendingaröryggi raforku og auka flutningsgetu raforkukerfisins milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja. Í dag er ein 132 kV raflína sem sér um allan flutning til og frá Suðurnesjum, Suðurnesjalína 1. Hún liggur frá Hamranesi í Hafnarfirði að Fitjum í Reykjanesbæ. Meginmarkmið með lagningu 220 kV Suðurnesjalínu 2 er að, auka öryggi afhendingar raforku, auka flutningsgetu til og frá Suðurnesjum, bæta tengingu framleiðslueininga við lykiltengivirki á höfuðborgarsvæðinu og anna flutningsþörf til og frá Suðurnesjum með það flutningsmikilli línu að síður þurfi að fjölga frekar flutningslínum á þessari leið í nánustu framtíð.
Kynning á drögum að tillögu að matsáætlun stendur til og með 12. febrúar
Matsáætlun er verkáætlun fyrir komandi umhverfismat verkefnisins. Þar eru upplýsingar um fyrirhugaða framkvæmd, framkvæmdasvæðinu er lýst og sagt frá valkostum, sem ákveðið hefur verið að meta í matsferlinu á þessu stigi. Lagðar eru fram upplýsingar um umfang og áherslur mats á umhverfisáhrifum, tilgreint hvaða fyrirliggjandi gögn verða nýtt við matsvinnuna og hvaða gagnaöflun sé yfirstandandi eða fyrirhuguð.
Kynning á drögum að tillögu matsáætlunar fyrir Suðurnesjalínu 2 hófst þann 18. janúar 2018 og stendur til og með 12. febrúar. Hægt er nálgast drögin á www.landsnet.is á svæðinu Hafnarfjörður – Suðurnes.
Óskað er eftir ábendingum og athugasemdum við drög að tillögu að matsáætlun, er varða t.d. útfærslu valkosta, hugmyndir að nýjum valkostum, gagnaöflun, áform um framsetningu matsins sem og aðrar ábendingar sem geta nýst við komandi matsvinnu og geta allir gert athugasemdir við drögin.
Athugasemdir er hægt að senda til Smára Jóhannssonar á netfangið [email protected] til og með 12. febrúar. Einnig má senda athugasemdir til Landsnets, Gylfaflöt 9, 112 Reykjavík og merkja „Suðurnesjalína 2. Drög að tillögu að matsáætlun“
Þín skoðun skiptir máli
Það er mikilvægt að vinna að undirbúningi Suðurnesjalínu 2 í sem bestu samráði og samvinnu við samfélagið í heild sinni. Í því markmiði höfum við sett af stað verkefnaráð, samráðsvettvang þar sem helstu hagsmunaðaðilar aðrir en landeigendur koma saman með reglulegu millibili. Samráð við landeigendur verður með svipuðum hætti, í formi reglulegra kynninga- og samráðsfunda auk annara samskiptaleiða sem best henta hverju sinni. Auk þessa verða haldnir opnir kynningar- og upplýsingfundir fyrir íbúa og alla þá sem áhuga hafa á málinu. Markmiðið með stofnun þessar vettvanga er að tryggja virkara samtal, skilning og betra upplýsingaflæði milli hagsmunaaðila í aðdraganda ákvarðana um framkvæmdir á okkar vegum.
Við hvetjum íbúa á Suðurnesjum að fylgjast með á heimasíðu Landsnets inn á svæði Hafnarfjörður – Suðurnes þar sem upplýsingar um framvindu verkefnisins eru settar inn. Þar er einnig hægt að senda inn fyrirspurnir og ábendingar er varða verkefnið undir „senda ábendingar“ og verður því svarað eins og fljótt og við verður komið og birt undir hnappnum „Spurt og svarað“ á síðunni. Eins er áhugavert að fylgjast með fésbókarsíðu Landsnets en þar eru nýjustu fréttir er varða starfsemi fyrirtækisins uppfærðar daglega.
Elín Sigríður Óladóttir,
samráðsfulltrúi Landsnets