Suðurnesjalína 2 - Niðurstaða rannsóknarvinnu, samtals og samráðs
Vinnu við frummatsskýrslu vegna Suðurnesjalínu 2 er nú lokið og framundan er að kynna niðurstöðuna. Skýrslan og niðurstaða hennar er afrakstur viðamikillar rannsóknarvinnu, samtals og samráðs þar sem við lögðum meiri áherslu en áður á samtal við nærumhverfið. Í skýrslunni voru meginþættirnir, sem hafa áhrif á hvaða leið er lögð til, metnir út frá umhverfi, afhendingaröryggi, stefnu stjórnvalda, skipulagi sveitarfélaga og kostnaði. Niðurstaðan er sú að lagt er til að Suðurnesjalína 2 verði að mestu loftlína.
Okkar hlutverk að tryggja afhendingaröryggi
Undirbúningur vegna línunnar hefur staðið yfir lengi en markmiðið með byggingu Suðurnesjalínu 2 er að bæta afhendingaröryggi raforku og um leið að efla atvinnu- og mannlíf á svæðinu. Öruggt rafmagn, gæði og öryggi eru lykilatriði í starfsemi okkar. Suðurnesjalína 1 er eina tenging Suðurnesja við meginflutningskerfið og truflun í rekstri hennar hefur nær undantekningarlaust í för með sér rafmagnsleysi og hafa almannavarnir á svæðinu lýst yfir áhyggjum af stöðunni og bent á, eins og við hjá Landsneti höfum ítrekað gert líka, að afhendingaröryggi á svæðinu verði ekki tryggt nema með tveimur flutningslínum.
Loftlína í samræmi við skipulagsáætlanir
Ef að allt gengur eftir gætu framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 hafist að nýju árið 2020. Gert er ráð fyrir loftlínu á stærstum hluta leiðarinnar í samræmi við meginreglu í stefnu stjórnvalda um að notast skuli við loftlínur í meginflutningskerfinu nema annað sé talið æskilegra meðal annars út frá tæknilegum atriðum eða umhverfis- eða öryggissjónarmiðum. Einnig samræmist hún núverandi stefnumörkun viðkomandi sveitarfélaga um landnotkun á línuleiðinni.
Jarðstrengir tæknilega mögulegir en falla ekki að stefnu stjórnvalda
Í umhverfismatinu var lagt mat á nokkra valkosti þar með talið valkosti sem fólu í sér lagningu jarðstrengja á allri línuleiðinni og að hluta. Um er að ræða valkosti sem tæknilega eru mögulegir og uppfylla meginmarkmið og tilgang framkvæmdarinnar. Það liggur hins vegar ljóst fyrir að valkostir sem fela í sér lagningu jarðstrengja á þessu spennustigi eru umtalsvert kostnaðarsamari en lagning loftlínu af sama spennustigi. Þá féll staðsetning þeirra ekki undir viðmið í stefnu stjórnvalda að undanskildu þéttbýlinu í Hafnarfirði.
Komdu og taktu spjallið við okkur
Frummatsskýrslan er nú í kynningu en kynningartíminn stendur til 18. júlí. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast til Skipulagsstofnunar, Borgartúni 7b, 105 Reykjavík eða með tölvupósti á [email protected]. Skýrsluna má nálgast á nýjum verkefnavef vegna Suðurnesjalínu 2 á www.landsnet.is.
Framundan eru kynningarfundir sem við hvetjum ykkur til að mæta á því fyrir okkur skiptir samtalið við ykkur máli.
Steinunn Þorsteinsdóttir
upplýsingafulltrúi Landsnets.