Suðurnesjabær fyrir alla
Það er óhætt að segja að eftir samtöl undanfarna daga sé æði margt sem brennur á íbúum Suðurnesjabæjar. Það eru þó atriði sem koma oftar í umræðuna en önnur og velferðarmálin vega þar þungt.
- við þurfum heilsugæslu
- við þurfum ný búsetu- og tómstundarúrræði fyrir fatlaða og einstaklinga með sérþarfir
- við þurfum að leita leiða til að fjölga búsetuúrræðum fyrir eldri borgara
- og síðast en ekki síst þurfum við að auka á öflugt og gott tómstundarstarf fyrir eldri borgara þar sem allir geta notið sín
Bið eftir úrræðum eða skortur á þeim úrræðum sem hér að ofan eru talin, geta verið erfið bæði fyrir einstaklinginn sem og fjölskyldu hans. Þess vegna ætlum við á D-lista sjálfstæðismanna og óháðra að setja þessi verkefni á oddinn.
Við viljum að Suðurnesjabær sé fjölskylduvænt sveitarfélag. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar á öllum sviðum, það er okkar að grípa þau og nýta. Við viljum sveitarfélag þar sem allir íbúar njóta sín, allt frá þeim yngsta til þess elsta.
Við ætlum inn í framtíðina með fjölskylduna að leiðarljósi.
Svavar Grétarsson,
4. sæti D-lista sjálfstæðismanna og óháðra.