Styðjum Skúla Thoroddsen í 1. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar
Skúli Thoroddsen gefur kost á sér til að leiða lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi í kosningunum í vor. Hann er heimamaður í Reykjanesbæ og því gefst okkur Suðurnesjamönnum nú tækifæri til að styrkja heimabyggðina með því að kjósa Skúla í 1. sæti listans í opnu prófkjöri Samfylkingarinnar sem hefst með netkosningu á morgun, fimmtudag og stendur til kl.18 á laugardaginn.
Skúli er okkur að góðu kunnur. Hann var frumkvöðull sem forstöðumaður Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum árin 1999-2003 og stofnandi Kvasis, Samtaka fullorðinsfræðslumiðstöðva á landsbyggðinni, en símenntunarmiðstöðvarnar gegna nú lykilhlutverki um allt land í sí- og endurmenntun. Það má líka rifja það upp að Skúli hlaut afgerandi stuðning allra heimamanna í stjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, sem framkvæmdastjóri árið 2003, þegar framsóknarráðherrann valdi að skipa annan stjórnanda, gegn vilja heimamanna. Skúli gjörþekkir heilbrigðiskerfið á grundvelli menntunar og reynslu sem stjórnandi, bæði hérlendis og erlendis, en hann rak m.a. sjúkrahús í Svíþjóð í tæpan áratug. Þá starfaði Skúli á lýðheilsuskrifstofu framkvæmdastjórnar ESB sem sérfræðingur í tvö ár, svo hann þekkir innviði ESB af eigin reynslu. Það sem mestu skiptir er þó þekking Skúla og reynsla á atvinnumálum og kjörum launafólks sem framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandins síðan árið 2003. Hann hefur verið duglegur og virtur af störfum sínum innan Starfsgreinasambandsins og nýtur mikils trausts.
Þess vegna standa forystumenn verkalýðsfélaganna í Suðurkjördæmi að baki Skúla í prófkjörinu. Þeir vita að hann verður öflugur talsmaður launafólks á Alþingi, nái hann markmiði sínu. Það er líka tími til kominn að rödd launafólks eigi sér öflugan málsvara á þeim vettvangi. Þekking Skúla og mikil reynsla er það sem þarf til að takast á við mikilvæg verkefni sem framundan eru í endurreisn atvinnulífsins og til bjargar heimilunum eftir hrunadans frjálshyggjunnar. Hann er jafnaðarmaður og verkalýðssinni sem hefur kjarkinn til að takast á við erfið verkefni. Það er krafa um endurnýjun, krafa um nýtt fólk sem nýtur trausts. Þess vegna hvetjum við Suðurnesjamenn til að styðja við Skúla Thoroddsen frá Reykjanesbæ í prófkjörinu og kjósa hann í 1. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Skúli á erindi á Alþingi.
Kristján G. Gunnarsson, formaður VSFK og nág. og Starfsgreinasambands Íslands, Reykjanesbæ.
Guðjón H. Arngrímsson, varaformaður VSFK og nág, Garði.