Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Styðjum bæjarstjóra okkar allra
Föstudagur 1. ágúst 2014 kl. 15:57

Styðjum bæjarstjóra okkar allra

Valgeir Ólason skrifar

Nýr bæjarstjóri hefur verið kynntur til leiks. Ég hef orðið var við það að fólk hefur ýmsar skoðanir á því að Kjartan Már hafi orðið fyrir valinu. Ég hef jafnvel séð því fleygt fram að þetta sé pólitísk ráðning, pólitísk hrossakaup oflr í þá veru. Nú eru í sjálfu sér öll verk bæjarstjórnar pólitísk aðgerð, eins og t.d að ráða bæjarstjóra. Það er öllum ljóst að Kjartan Már sat í bæjarstjórn Reykjanesbæjar í 2 kjörtímabil fyrir Framsóknarflokkinn. Ég held að það hljóti að vera að ef meininginn væri að hafa bæjarstjóra sem væri flokksgæðingur meirihlutans, þá hefði Kjartan ekki orðið fyrir valinu!

Það var Hagvangur sem sá um umsóknarferlið og njörvaði þetta niður í fimm hæfa einstaklinga.
Það er svo meirihluti bæjarstjórnar sem tekur lokaákvörðun. Það ber vott um vönduð vinnubrögð meirihlutans að meta menntun og reynslu fram yfir flokksskoðanir. Kjartan hefur nefnilega góða menntun ásamt mjög góðri reynslu í að sjá um rekstur ásamt því að vera sérlega góður í mannlegum samskiptum eins og allmargir á Suðurnesjum geta vitnað um.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nú er það svo að Kjartan er ekki kjörinn í bæjarstjórn, og er því í vinnu hjá bæjarstjórninni að framfylgja stefnu hennar. Hann verður því nokkurs konar framkvæmdarstjóri. Ég hef því fulla trú á að Kjartan sé maður sem allir bæjarbúar geti fylgt sér á bakvið. Hann er ekki maður sem mun vinna eftir klíkuskap til hægri eða vinstri, upp eða niður, út og suður eða norður og niður! Það þarf að rétta af rekstur bæjarins og bæjarbúar þurfa að vera samtaka! Kjartan Már hefur sýnt það á sínum ferli að hann kann til verka þar. Það eru bjartir tímar framundan. Ég segi að við eigum öll að taka Kjartani fagnandi og leyfa honum að láta verkin tala.

Með vinsemd og virðingu
Valgeir Ólason
Frambjóðandi Samfylkingar og óháðra