Stundum er Facebook ekki nóg!
Samskiptavenjur okkar hafa tekið stakkaskiptum á undanförnum árum. Tíminn er á svo mikilli ógnarferð að það er engu líkara en að framtíðin hafi átt sér stað í gær. Fólk talar ekki lengur í síma sína heldur notar þá sem lófatölvur. En stundum þurfum við eitthvað meira, stundum er gott að vita að annað hjarta en eigið slær í næsta nágrenni.
Náttúran sá blessunarlega til þess að ekkert okkar er eins og við þurfum mismikið á félagsskap að halda. Paul Simon sagðist á sínum tíma vera „steinn“ og að hann þyrfti á engum að halda öðru en ljóðlist og bókum sínum. Engu að síður er sá ágæti söngvari giftur í dag, hann var ekki meiri steinn en svo.
Um síðustu aldamót var ákveðið innan Rauða krossins á Íslandi að hefja verkefni sem mætir þörf þeirra sem finna fyrir félagslegri einangrun. Verkefnið, Heimsóknarvinir, hefur gefist vel en þörfin er mikil, og virðist hún fara vaxandi. Rauði krossinn vinnur reglulega skýrsluna „Hvar þrengir að?“ til að kanna hvaða hópar það eru í íslensku samfélagi sem þurfa á aðstoð okkar að halda. Fólk sem upplifir félagslega einangrun hefur verið ofarlega á þeim lista allt frá upphafi.
Í dag eru um 450 sjálfboðaliðar sem starfa sem heimsóknarvinir, í 36 deildum Rauða krossins um allt land. Heimsóknirnar geta verið með ýmsum hætti en reynt er eftir fremsta megni að hugsa um þarfir þess sem þarf á heimsókninni að halda. Gestgjafar geta nefnilega verið á öllum aldri, karlar jafnt sem konur, sem glíma við ólík vandamál. Öllu máli skiptir að gera það sem fólki finnst gaman að gera, það sem vinir gera saman til að knýja fram bros á vör. Hægt er að spila, fara í göngutúr eða jafnvel bíltúr, drekka saman kaffi og skoða myndir, hvað sem fólki dettur í hug. Svo má ekki gleyma vinsælustu heimsóknarvinunum sem eru hundarnir, en heimsóknarvinir með hunda vekja mikla gleði meðal skjólstæðinga Rauða krossins. Hvað er annars skemmtilegra en að knúsa loðinn ferfætling, besta vin okkar mannskepnunnar?
Gestgjafar geta verið aldraðir, einangrað ungt fólk, fangar eða fólk sem glímir við andleg eða líkamleg veikindi. Síðast en ekki síst má nefna hælisleitendur og flóttafólk sem eiga oft erfitt með að stíga sín fyrstu spor í nýju samfélagi. Þá er gott að eiga góða að.
Frá því að Heimsóknarvinir komu til sögunnar hefur verkefnið gefið góða raun og verið vinsælt, bæði meðal sjálfboðaliða og gestgjafa. En þrátt fyrir mikinn meðbyr og velvilja í samfélaginu getum við alltaf gert betur. Rauði krossinn óskar eftir þínum kröftum í gefandi sjálfboðaliðastarf. Félagsleg einangrun er mein í íslensku samfélagi en við getum gert okkar til að vinna á því bót.
(Tilkynning frá Rauða Krossi Íslands)