Stóriðja eða dauði ?
Ríkisstjórnin hefur rekið einsleita og metnaðarlausu stóriðjustefna í þágu erlendra álauðhringja. Þessa stefnu vill ríkisstjórnin nú innsigla til framtíðar með öfugmælum um þjóðarsátt. Þjóðarsáttin þeirra felst í því að engin stóriðjuáform verði lögð á hilluna. Það þýðir meðal annars að náttúruperlan Þjórsá, gersemar í nágrenni hennar og lönd bænda verða eyðilögð með fyrirhuguðum virkjunum.
Þessi áform kalla á eignarnám og jafnvel afsal á þjóðlendum. Því fer fjarri að eignarnám í þágu fyrirhugaðra virkjana í Þjórsá uppfylli skilyrði stjórnarskrárinnar um almenningsþörf. Það er engin almenningsþörf á því að eyðileggja með óafturkræfum hætti náttúruperlur Þjórsár í þágu mengandi stóriðju, að eyðileggja Hellisheiðina með háspennulínum, að heimila stækkun álbræðslu Alcan í Straumsvík eða byggja nýja í Helguvík, í anddyri Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar. Það er engin almenningsþörf á því að eyðileggja til framtíðar verðmæt byggingarsvæði og rómaða ferðamannastaði. Það er ekki til almenningsheilla að stækka álbræðsluna í Straumsvík þannig að Ísland verði það land sem eykur útblástur gróðurhúsalofttegunda mest allra landa í Evrópu. Og það er engin almenningsþörf á því að láta bændur, atvinnurekendur og almenning greiða fyrir raforku dýrum dómum en selja svo raforku til mengandi álbræðslna á útsöluverði til verðmætasköpunar erlendis. Það horfir hins vegar til almannaheilla að fella ríkisstjórnina í alþingiskosningunum í vor og stoppa stóriðjuglapræðið.
Kjarni atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar hefur verið: „Stóriðja eða ekkert“. En hvað er þetta sem ríkisstjórnin telur vera „ekkert“. Jú, „ekkert“ er sjávarútvegur, landbúnaður, innlendur iðnaður, ferðaþjónusta, hátækni- og þekkingariðnaður og svo margt fleira þar sem tækifæri til nýsköpunar, atvinnu og stóraukinnar verðmætasköpunar blasa við ef þessum atvinnugreinum væri skapað eðlilegt og rétt rekstrarumhverfi. Svo langt gengur einsleitni og metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum að talsmenn hennar, meðal annars í Suðurkjördæmi, tala nánast niður til hugmynda frumkvöðla jafnt í hefðbundnum sem óhefðbundnum atvinnugreinum. Svo er að sjá að þeim sé sérstaklega í nöp við iðnað sem tengist íslenskri náttúru og íslenskum jurtum, þar með töldum fjallagrösum.
Ég er sagður vera í fjallagrasaflokki og er stoltur af því að. Ástæðan er sáraeinföld. Lyfjaiðnaður er gróskumesti sprotaiðnaður á Íslandi. Og innan þessa atvinnugeira er framleiðsla úr fjallagrösum og öðrum jurtum íslenskrar náttúru til sjávar og sveita öflugasti vaxtarsprotinn sem þegar veitir hundruðum manna atvinnu. Þessi staðreynd blasir við hverjum þeim sem ekki hefur mengandi stóriðjuleppa fyrir skilningarvitunum. Í sérhverri lyfjabúð, matvöruverslun og sérverslun með náttúrulegar afurðir er að finna hillustæður eftir hillustæður af vörum unnum úr íslenskum jurtum. Má þar nefna hvers kyns náttúruleg lyf, smyrsl, olíur, ástarörva, matvöru, sælgæti og svo mætti lengi telja. Þessi framleiðsla vex og dafnar óðfluga dag frá degi. Ég er líka stoltur af hugkvæmni og dugnaði þeirra einstaklinga sem standa á bak við þessa blómlegu atvinnugrein og nýsköpun með mannauðinn einan að vopni. Þeim hefur tekist að þrauka og eflast þrátt fyrir stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar.
Fyrirtækið Kaffitár er dæmi um slíka nýsköpun. Framleiðsla á vörum úr íslenskum sem erlendum jurtum skapar mikla atvinnu og enn meiri verðmæti. Gingsen framleiðsla Kóreumanna sýnir það og sannar. Síðast en ekki síst má halda því til haga að jurtaiðnaðurinn er til þess fallinn að styrkja verulega afkomu bænda og þar með búsetu á landsbyggðinni. Bændur búa nefnilega yfir aldagamalli þekkingu á íslenskum jurtum og nytsemi þeirra jafnt til lækninga sem matar. Þessa þekkingu, þennan mannauð, viljum við Vinstri – græn virkja.
Atli Gíslason skipar 1. sæti á framboðslista VG í Suðurkjördæmi.