Stórfelld eignasala bjargar rekstri bæjarsjóðs Reykjanesbæjar enn eitt árið
Bókun bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar vegna ársreiknings Reykjanesbæjar 2012:
Niðurstöður ársreiknings Reykjanesbæjar fyrir árið 2012 opinbera afleiðingar óskynsamrar fjármálastjórnar meirihluta sjálfstæðismanna á undanförnum árum. Árin fyrir hrun byggði meirihluti sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ áætlanir sínar á óraunhæfum spám um fjölgun íbúa – spám sem voru í engum takti við spár Hagstofu Íslands. Alltof mikil ný byggð var skipulögð og bæjarbúum fjölgaði - en atvinnutækifærum hefur ekki fjölgað að sama skapi.
Rekstur bæjarsjóðs Reykjanesbæjar hefur því verið mjög erfiður undanfarin ár og sala eigna verið eina svar sjálfstæðismanna. Árið 2011 var hagnaður af eignasölu tæpar 1.000 milljónir króna og hagnaður fyrir fjármagnsliði svipaður og nú eða rúmlega 800 milljónir króna. Á árinu 2012 nam eignasala rúmlega 4.000 milljónum króna. Með því var lausafé bæjarsjóðs bjargað, vanskil við Eignarhaldsfélagið Fasteign greidd sem og og erlendar skuldir bæjarins.
Ársreikningur Reykjanesbæjar 2012 sýnir 10% framlegð sem er ekki nægjanlegt til að eiga fyrir skuldum næsta árs og því nauðsynlegt að selja eignir, taka lán eða spara í rekstri. Meirihluti sjálfstæðismanna hefur ákveðið að halda áfram á eignasöluleiðinni, nú skal selja 15% hluta af HS-veitum til að eiga fyrir afborgunum ársins 2013.
Afleiðingar áætlunargerðar sjálfstæðismanna hvíla þungt á bæjarsjóði. Ljóst er m.a. að bæta þarf eiginfjárstöðu dótturfyrirtækja Reykjanesbæjar eins og t.d. Fasteigna Reykjanesbæjar og Reykjaneshafnar en taprekstur hefur verið viðvarandi á báðum fyrirtækjum frá árinu 2002. Skuldir þessara fyrirtækja - og bæjarsjóðs Reykjanesbæjar – jukust á svokölluðum góðæristímum fyrir hrun, á sama tíma og skuldir ríkisjóðs snarminnkuðu.
Samkvæmt ársreikningi Fasteigna Reykjanesbæjar nam tap ársins 2012 151 milljónum króna og er uppsafnaður halli 1.200 milljónir króna. Tap Reykjaneshafnar á síðasta ári nam 667 milljónum króna, eigið fé er neikvætt um 3.852 milljónir króna, heildarskuldir rúmlega 7.000 milljónir króna og hafa sjöfaldast frá árinu 2002. Þá hefur Reykjanesbær skuldbundið sig til að láta 25% af andvirði eignasölunnar sem framundan er renna til Reykjaneshafnar.
Meirihluti sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ hefur oft haft á orði að nauðsynlegt sé að eyða peningum til að skapa verðmæti og bæta hag íbúa. Gott er - ef satt væri. Reyndin er sú að afrakstur eignasölu síðustu ára hefur að mestum hluta verið notaður til að borga taprekstur bæjarsjóðs og að hluta til að borga skuldir samstæðunnar.
Fullyrðingar meirihlutans um að reksturinn hafi gengið vel á síðasta ári eru óvenju innantómar þegar litið er til þeirra staðreyndar að selja þurfti eignir fyrir rúmlega 4.000 milljónir króna til þess að ná þessum meinta „árangri“.
Friðjón Einarsson, Guðný Kristjánsdóttir, Eysteinn Eyjólfsson